Náttúran, almannarétturinn og náttúrupassinn
Að svo miklu leyti sem við getum skynsamlega sagt að fólk eigi land og náttúru þess, þá hljótum við að vera sammála því—af einni eða annarri ástæðu, ullartreflar jafnt sem álhausar og hinir þar á milli—að dýrmætasta eign Íslendinga sé náttúra Íslands. Þrátt fyrir að sumir telji sig eiga meira tilkall til náttúrunnar en aðrir—einkum í krafti eignarréttar—þá er það nú einu sinni svo að við eigum öll (Íslendingar og aðrir) rétt til þess að ferðast óheft um landið og njóta náttúru þess svo lengi sem við gætum þess að spilla þar engu. Þessi réttur, svokallaður almannaréttur, hefur verið bundin í íslensk lög (allavega) frá tíma Jónsbókar. Almannarétturinn verndar hagsmuni þess sem ferðast um landið gagnvart hagsmunum meintra eiganda þess og náttúrunnar. Eins og öll réttindi er almannarétturinn ekki sjálfsagður og þar af leiðandi dýrmætur öllum þeim sem hann hafa. Af þeim sökum ættum við að standa vörð um almannaréttinn á sama hátt og önnur réttindi sem við höfum, jafnt grundvallarréttindum sem eru bundin í sjöunda kafla stjórnarskrár okkar sem og önnur og sértækari réttindi sem við höfum öðlast á einn hátt eða annan.
Íslensk náttúra er einstök. Einmitt þess vegna er okkur sérkennilegt vandamál á höndum: Segja mætti að eftirspurn í náttúru Íslands hafi verið umfram framboð hennar undanfarin ár—ef jafn andlaust tungutak er viðeigandi um náttúruna. Þess vegna hefur viðkvæm náttúran látið á sjá þar sem ágangurinn hefur verið mestur. Af ólíkum ástæðum taka nægilega mörg okkar, góðu heilli, hagsmuni náttúrunnar umfram stundarágóða í þessu samhengi. Fólk hefur þannig gert sér grein fyrir því að einhvers konar náttúruvernd á þessum svæðum sé nauðsynleg eigi náttúran ekki að hljóta af skemmdir sem gróa seint um heilt.
Margar—og eins og gengur, misgóðar—hugmyndir um hvernig vernda megi náttúruna fyrir okkur sjálfum hafa verið ræddar í þessu samhengi. Eins og stundum virðist verða í svona málum hefur pasturslítil hugmynd orðið lífseig sökum þráhyggjukenndrar staðfestu stuðningsmanna hennar. Í stuttu máli gengur hugmyndin út á það að þeir sem vilja ferðast um landið í næsta nágrenni ofsóttra náttúruperlna verða að hafa þar til gerðan passa—svokallaðan náttúrupassa—í hafurtaski sínu, ellegar sæta sektum verði þeir staðnir að verki án hans. Saman eiga svo passasalan og sektirnar að standa undir kostnaði við nauðsynlega náttúruvernd á viðkomandi stöðum. Og þannig að lokum—sem fylgjendum hugmyndarinnar finnst svo ofboðslega sniðugt—greiða einungis þeir sem njóta náttúrunnar fyrir vernd hennar.
Við þessari hugmynd eru til mörg og misaugljós andmæli. Má þar einkum nefna það að hugmyndin sé hvorki einföld né ódýr í framkvæmd, það að úthlutun úr passasjóði til mismunandi verndarsvæða sé verkefni líklegt til vandræða og það að hugmyndin stangist á við lög um almannarétt. Á meðan fyrri tvö andmælin snúa öðru fremur að framkvæmd hugmyndarinnar og ættu því aðeins að vera (mögulega alvarleg, reyndar) formsatriði sé hugmyndin á annað borð góð og réttlát, þá vega þriðju andmælin öllu þyngra: Sé almannarétturinn yfirhöfuð réttlátur og skynsamlegur réttur, þá er sú staðreynd nægileg til þess að dæma hugmyndina um náttúrupassann endanlega úr leik. Ef til vill er almannarétturinn barn síns tíma, minnisvarði frá miðöldum um samfélag sem hlýddi öðrum og einfaldari lögmálum sem eiga sér ekki lengur neinn samastað í tilverunni. Má vera. Engu síður hefur engin fært nægilega sannfærandi—hvað þá óyggjandi—rök fyrir því að almannarétturinn sé óréttlátur.
En alls óháð almannaréttinum er náttúrupassinn samt vafasöm hugmynd. Hugmyndin er vafasöm vegna þess að hún hvílir á útbreiddri ranghugmynd um samfélagið. Ranghugmyndin er sú að réttlátt samfélag sé samfélag þar sem hver einn og borgi fyrir sjálfan sig og nákvæmlega engan annan. Ef til vill er ekki einu sinni rétt að tala um ranghugmynd um samfélag: Þessi hugmynd er bókstaflega andsamfélagsleg. Hugmyndin er auðvitað ekki ómöguleg í framkvæmd en í stað samfélags yrði aðeins um að ræða misstóra og mismunandi hópa fólks sem mögulega skarast innan enn stærri hóps fólks, sem fjármagna ólíkar framkvæmdir eftir þörfum sínum hverju sinni. Með öðrum orðum, í stað samfélags ræðir aðeins um ólíka hagsmunahópa sem sameinast um tiltekin verkefni í skemmri eða lengri tíma. Þetta fyrirkomulag gæti eflaust gengið bærilega fyrir hóp fullkominna einstaklinga—sem finnast hvergi nema í kenningum hagfræðinga (eins og á sömuleiðis við margar misháleitrar stjórnmálakenningar)—en fyrir hóp mennskra einstaklinga af holdi og blóði, hvers líf er ekki síður stjórnað af þáttum óháðum ákvörðunum þeirra en ákvörðunum sjálfum, þarf ekki ofgnótt ímyndunarafls til þess að átta sig á því hvernig hinir ólánsamari meðal okkar verða fljótt að óhugnanlegu botnfalli slíks mannfélags.
Þrátt fyrir augljósar tilraunir hefur íslenskt samfélag góðu heilli að mestu staðið af sér þessa ranghugmynd hingað til. Við rekum (enn) saman heilbrigðiskerfi, þrátt fyrir að hluti okkar komist blessunarlega nokkuð bærilega í gegnum lífið án þess að nýta það að nokkru ráði. Við rekum (enn) saman menntakerfi þrátt fyrir sum okkar því miður fari í gegnum lífið án þess að nýta nema lítinn hluta þess. Við rekum (enn) saman samgöngukerfi þrátt fyrir að sum okkar fari í gegnum lífið án þess að nýta það að nokkru ráði. Og svo framvegis og framvegis og framvegis. Þetta gerum við vegna þess að við trúum enn (upp að ólíku marki, vissulega) á það að samfélag sé skynsamri leið til þess að hátta mannfélagi okkar en aðrar leiðir.
Engu að síður virðist staðfasti iðnaðar- og viðskiptaráðherrann okkar trúa því þrákelknislega að skynsamlegasta leiðin til þess að fjármagna vernd náttúru íslands sé með sérstakri gjaldtöku af þeim sem hennar njóta. Öllu samfélagslegri hugmynd væri að sjálfsögðu að almennar skatttekjur stæðu undir verndun náttúrunnar. Að sjálfsögðu er ekki óeðlilegt að ferðamenn sem njóta náttúrunnar séu ekki undanþegnir slíkri skattheimtu. Enda eru þeir það ekki: Beinar skatttekjur af ferðamönnum nema tugum miljarða árlega. En sú hugmynd þóknast aðsópslitla ráðherranum alls ekki. Það er sorglegt til þess að hugsa að ef áfram heldur sem horfir verður eina eftirtektaverða framlag ráðherrans á ferli sínum að liða íslensku samfélagi enn frekar i sundur.
- Non mea culpa! - 09/03/2015
- Náttúran, almannarétturinn og náttúrupassinn - 01/02/2015