Leyndarmál
Kona er sest í ríkisstjórn. Hún er hæf og með reynslu af lífinu þó svo að hún sé að mestu fengin frá „betri“ heimilum. Ég óska henni velfarnaðar í lífi og starfi.
—
Sumir þurfa að gera allt í leynum þó að þeir þrái það heitast af öllu að vera opinberir. Sýnilegar. Umtalaðir. En þeir eru misgóðir að þegja yfir leyndarmálum sínum og leynigjörningum. Formenn Sjálfstæðisflokksins hverju sinni hafa getað þetta. Þeir hafa lengst af verið miklir pukrarar. Núverandi formanni er að lærast þetta. Honum tókst að halda því leyndu, svo lengi sem lög leyfðu, hvern hann ætlaði að gera að ráðherra og sló allan þingflokkinn sinn utan undir í einu handbragði þegar hann opinberaði það. Þar í hópi var enginn verðugur. Og þetta gerði hann svo skyndilega að enginn æmti í eina stund. En svo byrjaði ballið. Og nú er kátt í höllinni; hvíslað hér og húrrað þar, blessað og bölvað, grátið og sungið sóló, en sætasta stelpan á ballinu farin heim. Ein.
En formaðurinn er ekki útskrifaður í launráðum. Það hefur verið á allra vitorði í marga, marga mánuði, vegna hans eigin orða, að til standi, ef til vill og kannski, að kaupa upplýsingar utanlands frá um íslenska þjófa í Paradís. Með lausmælginni, vangaveltunum og aðgerðaleysi hefur hann veitt þeim góðan tíma til þess að fela slóðir og flytja úr einni Paradís í aðra. Hann hefur gefið þeim gálgafrest, sem er sannnefni.
Og núverandi formaður á afar langt í land með að ná tveimur síðustu forverum sínum í að kasta hulu yfir mál. Davíð Oddson og Geir H. Haarde eiga Íslandsmetið í pukri. Þeir eru ef til vill ofarlega á heimsmælikvarða í launráðum. Saman hefur þeim tekist að slá lögvörðum leyndarhjúp yfir símtal sem þeir áttu sín á milli áður en þeir settu Seðlabankann á hausinn og þjóðarbúið á hliðina, daginn sem þeir sprengdu bóluna. Þetta er símtal upp á mörg hundruð miljarða. Og það er varðveitt sem ríkisleyndarmál sem hvorki ríkisstjórn né Alþingi fá að hlusta á.
Hér er það ekki ætlunin að geta upp á því um hvað þeir töluðu, Davíð og Geir, og með hvaða orðum. Ég gef mér þó að þeir hafi ekki verið að ræða um sætustu stelpuna á ballinu þó að þeir unni henni.
En.
Þeir voru báðir í vinnu hjá mér. Seðlabankastjórinn og forsætisráðherrann. Þeir voru að tala í símana mína. Í vinnutímanum. (Væntanlega) um vinnuna. Á launum frá mér.
Þess vegna tel ég að ég eigi kröfu á að fá að vita um hvað þeir voru að ræða. Og hvernig þeir ræddu það. Jafnvel þó að ég þurfi að leita til dómstóla til þess arna. Ég á rétt á því. Og við öll. Íslendingar.