Lekamálið snýst ekki lengur um lekann
Man einhver ennþá eftir því að lekamálið snérist upprunalega um Tony Omos, sem var vísað úr landi þrátt fyrir að eiga von á barni? Málið verður sífellt lengra og flóknara og því stundum erfitt að átta sig á því hvað þetta snýst allt saman um. Þegar skjal með viðkvæmum persónuupplýsingum lak úr Innanríkisráðuneytinu hélt Hanna Birna Kristjánsdóttir því fram vel og lengi að slíkt skjal hefði ekki verið til og þetta ítrekaði hún í pontu á Alþingi. Þetta reyndist síðar ósatt ásamt fjölmörgum öðrum staðhæfingum ráðherrans.
Þegar þingmenn utan ríkisstjórnar hefja sitt lögbundna hlutverk með því að spyrjast fyrir um þetta minnisblað bregst Hanna Birna mjög harkalega við og beinlínis skammar þingmenn sem voga sér að spyrja spurningar um þetta mál. Hún tekur jafnframt fram við þingið að skjalið sé „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu”. Þegar lögreglurannsókn fer af stað, hafnar ráðherra því alfarið að slíkt sé í gangi. En auðvitað er þetta allt saman “ljótur pólítískur leikur” eða hvað? Hverjir eru það nákvæmlega sem eru að spila þennan leik gegn ráðherra? Fullnægjandi svar virðist erfitt að finna.
Lekamálið verður sífellt meiri skömm fyrir íslensk stjórnmál. Lekamálið er fyrir löngu hætt að snúast um leka á persónuupplýsingum um hælisleitandann Tony Omos og snýst frekar um hvort Hanna Birna sé yfir höfuð starfi sínu vaxin. Þetta hefði ekki orðið neitt mál hefði hún einfaldlega sagt frá byrjun að hún hyggðist stíga tímabundið frá meðan það væri lögreglurannsókn í gangi. Hvaða siðmenntaða þjóð sem er myndi telja það eðlilegt að yfirmaður lögreglunnar sitji í embætti á meðan lögreglurannsókn á viðkomandi yfirmanni er í gangi. Hættan á hagsmunaárekstri auk þess að ráðherra er í mjög góðri stöðu til þess að trufla rannsókn málsins. Myndi maður bjóða grunaðri manneskju að fylgjast með rannsókn og eiga reglulega fundi með lögreglustjóra.
Það getur varla litið mjög vel út fyrir Ísland á alþjóðavettvangi þegar hneyksli eins og lekamálið fær að halda áfram og Hanna Birna í þrjósku sinni neitar því alfarið að hún hafi gert eitthvað rangt. Ef svipað mál myndi koma upp í nágrannalöndum okkar myndi ráðherra vera löngu búinn að segja af sér, reyndar hafa ráðherrar á norðurlöndum sagt af sér út af mun vægari hlutum en þetta. Cecilia Stego Chilo, menningamálaráðherra Svíþjóðar sagði af sér því að hún hafði ekki greitt afnotagjöld fyrir sænska ríkissjónvarpið í 16 ár. En svo virðist sem að ríkisstjórnin haldi að það séu einhverjar sérstakar aðstæður á Íslandi sem þýða að aðrar siðferðisreglur skuli gilda.
Nú er búið að gefa út ákæru á hendur aðstoðarmanns Hönnu Birnu, Gísla Frey Valdórssyni. Viðbrögð Hönnu Birnu hafa verið að víkja tímabundið sem dómsmálaráðherra og vísa Gísla Frey frá störfum á meðan verið er að útkljá málið.Þetta eru viðbrögðin sem ráðherra hefði át að sýna frá byrjun málsins. Ríkisstjórnin og megnið af stjórnarandstöðuni hefur brugðist verulega þegar kemur að því að gagnrýna almennilega misbrestina í sögu Hönnu Birnu. Það þarf vissulega mikinn kjark til þess að benda á rangar staðhæfingar ráðherra í eigin ríkisstjórn en hingað til hefur enginn þingmaður ríkisstjórnarinnar komið fram formlega og lýst yfir raunverulegum áhyggjum af alvarleika þessa máls.
Framsóknarflokkurinn virðist vera álíka meðvirkur Hönnu Birnu sem endurspeglast í orðum forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonnar um afstöðu Pírata til leka. Það er ekki hægt að álykta annað en að hann sé hreinlega vísvitandi að sleppa út úr sér þessum orðum þrátt fyrir skýra stefnu Pírata (Í Grunnstefnu Pírata stendur meðal annars: 3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri. 4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.)um annað eða þá að hann hreinlega skilur ekki muninn á friðhelgi einkalífsins annars vegar og gagnsæi ríkisstofnanna hins vegar. Hvorugur kosturinn er efni í góðann forsætisráðherra.
Þetta mál sýnir enn og aftur að ríkisstjórnarflokkarnir hafa lítið sem ekkert lært frá hruni. Hanna Birna hefur logið að Alþingi, logið að þjóðinni og skipt sér af hlutleysi blaðamanna. Þetta er ekki hegðun sem á að teljast ásættanleg í lýðræðisríki, svona hegðun á heima í bananalýðveldi. Hönnu Birnu er engan veginn treystandi til þess að starfa sem ráðherra. Það á að vera hægt að treysta ráðherrum og aðstoðamönnum þeirra fyrir viðkvæmum persónuupplýsingum og hér er um mjög gróft og alvarlegt brot á trúnaði í opinberu starfi að ræða. Aðstoðamaður myndi teljast ansi illa valinn ef hann myndi gera nokkuð svona óumbeðinn. Ætlum við að halda áfram að vera aðhlátursefni á alþjóðavettvangi eða viljum við verða raunverulegt og frjálst vestrænt lýðræðisríki?
- Berjumst gegn hatri með tjáningarfrelsi - 14/01/2015
- Veraldlegri jól takk - 12/12/2014
- Höfundarréttur og þungarokk - 24/11/2014