Lágþoka
Á Bylgjunni í gær, fimmtudag, talaði forsætisráðherra um veiruna toxoplasma, bogfrymil, og varaði við henni. Hann sagði að þeir gætu sýkst, sem borða kjöt í útlöndum. Við það breytist hugsunarháttur þeirra, sagði hann, og jók því við, að það hefi verið rannsakað „hvort að þetta kunni að vera að breyta hegðun heilu þjóðanna.“ Loks klykkti hann út með því við að upplýsa að Íslendingar væru þó nokkuð „óhultir fyrir þessu kvikindi.“
Vísir.is kallaði til prófessor í lyfja- og eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands og bar þetta undir hann. Fræðimaðurinn upplýsti að að sýkilinn sé þegar að finna á Íslandi eins og í flestum öðrum löndum í heiminum, hann geti borist úr fæðu, en að kattardýr séu aðal smitberar hans. Rannsóknir á áhrifum hans hafi sýnt að hann geti gert það að verkum að rottur hætti að hræðast ketti. Áhrif hans á mannskepnuna væru óljós, sagði prófessorinn og „í besta falli umdeild“.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hélt því fram í útvarpi, sjónvarpi og blöðum á dögunum, að æviráðning opinberra starfsmanna væri eitt af því sem væri að sliga ríkissjóð og kynni að valda því að ekki tækist að standa við áætlun um hallalaus fjárlög. Hún vissi ekki að það eru mörg ár síðan æviráðning var afnumin. Varaformaður hennar, Guðlaugur Þór Þórðarson, tilkynnti þjóðinni að „framúrakstur“ ríkisstofnanna væri ofboðslegur. Þegar málið var kannað kom í ljós að hann var óverulegur.
Það væri þarft rannsóknarefni fyrir fræðimenn að finna út úr því af hverju þessir þrír forráðamenn þjóðarinnar kalla æ ofan í æ á fjölmiðla til þess að opinbera fáfræði sína. Það væri gagn í því að fá það á hreint hvort bogfrymillinn hafi tekið tríóið, eða hvort ef til vill sé skortur á honum í blóði þremenninganna, ellegar hvort hér sé aðeins um að ræða huglæga lágþoku sem tekur upp í fyllingu tímans eins og dalalæðan hverfur við geisla morgunsólarinnar. Ef hún nær að skína.