Kjarkleysi velsældarinnar
Umluktir öryggisvörðum sitja forystumenn öflugustu ríkja heims í skrauthúsum friðsamra stórborga og þinga um morðæðið í Gasa og á Vesturbakkanum. Vafalítið horfa þeir á myndir frá eyðileggingunni, hlusta á raddir örvæntingafullra og lemstraðra íbúa, hlýða á fréttir af matarskorti, rafmagnsleysi og vatnsskorti og sötra djús á meðan þeir virða fyrir sér brunnin heimili, hrunda skóla og eyðilögð sjúkrahús. Höfðingjarnir við raflýstu matarborðin segjast ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að friður náist. Þeir sitja og tala. Stundum er hægt að efast um að hugur fylgi máli því að árangurinn er lítill sem enginn.
Í hvert sinn sem fréttir berst af af þjóðarmorðinu á Palestínumönnum skýtur upp í huga mér hinum tæru en einfeldningslegu spurningum ungu kvennanna tveggja sem gengu samtímis mér niður Bankastræti fimmtudaginn 24. þessa mánaðar og ég greindi frá hér síðunni: Af hverju fara þeir ekki saman á ófriðarsvæðin, ráðamennirnir sem skrifa bréf og skeyti, og afhenda þau í eign persónu? Hver mundi bombandera þá?
Margt alvarlegt og „fullorðinslegt“ hefur verið reynt til þess að koma á friði án teljandi árangurs. Því er fullkomlega réttlætanlegt að spyrja hvort ekki sé kominn tími fyrir þá, sem sannanlega vilja frið, að reyna eitthvað annað en spjall yfir grautardiski, eitthvað einfalt og „barnalegt“. Jafnvel að taka áhættu, sýna þá dirfsku að mæta til hildarleiksins og láta til sín taka? Hvað yrði svo sem um höfðingja heimsins ef þeir hefðu dug til þess að halda firðarfund með deiluaðilum í Gasa eða á Vesturbakkanum? Í miðri eyðileggingunni? Ellegar í Jerúsalem? Yrðu ráðleggingar þeirra ekki marktækari þar en þær sem sendar eru með pósti úr velsældarhöllum friðsamra stórborga? Yrði ekki sjálfkrafa vopnahlé á meðan þeir dveldu þar? Lægi þeim nokkuð á að fara þaðan fyrr en friður væri tryggðu?
Kjarkleysi er vísast einn hvati morðæðis. Þekktur mótleikur við því er hugrekki.