Jæja Hanna Birna
Eftir að hafa margoft sagt að það hafi enginn leki átt sér stað úr ráðuneyti hennar. Eftir að hafa ítrekað við almenning og Alþingi aftur og aftur að engin sambærileg gögn væru til í ráðuneytinu. Eftir að hafa ásakað fjölmarga gagnrýnendur um einelti og spuna. Eftir að hafa lýst yfir stuðningi við Gísla Frey Valdórssyni opinberlega. Eftir að hafa varpað sökinni á Rauða krossinn, Útlendingastofnun og láglaunað ræstingarfólk. Eftir að Gísli hélt áfram að þiggja laun þrátt fyrir að ljúga að allri þjóðinni. Er ekki kominn tími á að biðjast innilegrar afsökunar? Nú þarf Hanna Birna Kristjánsdóttir að íhuga virkilega vel hvernig hún bregst við þessu.
Þetta er ekki spurning um pólitík, þetta er spurning um lýðræðisleg gildi. Nú hefur aðstoðarmaður ráðherra ekki einungis logið heldur hefur hann sundrað fjölskyldu. Hann ber ábyrgð á því að sóa miklum tíma Alþingis sem hefði svo sannarlega verið hægt að nýta í mikilvægari hluti. Hann ber ábyrgð á því að skipta þurfti upp heilu ráðuneyti. Hann ber ábyrgð á því að eyða tíma lögreglunnar þegar hún hefur meira en nógu að sinna. Það er bara ekki víst að það sé hægt að leggja kostnaðarmat á skaðann sem hann ber ábyrgð á. Hvar var samviska mannsins þegar allt þetta átti sér stað?
Það er varla hægt að horfa framhjá þessari atburðarás sem hefur átt sér stað undanfarna mánuði og halda því fram að svona hegðun hjá ráðherra sé ásættanleg. Maður veltir hreinlega fyrir sér dómgreind ráðherra að ráða slíkan aðstoðarmann til starfa. Það myndi sennilega teljast sniðugt hjá flokksbræðrum og flokksystrum hennar að hvetja hana til þess að segja af sér. Komandi Jæja mótmæli, sem væntanlega munu snúast um vanhæfni ráðherra, gætu nefnilega endað á því að snúast um vanhæfni ríkisstjórnarinnar.
- Berjumst gegn hatri með tjáningarfrelsi - 14/01/2015
- Veraldlegri jól takk - 12/12/2014
- Höfundarréttur og þungarokk - 24/11/2014