Ja, hver andinn í skotinu
Í hádegisútvarpinu fullyrti norskur herforingi að samningur hefði verið gerður við Landhelgisgæsluna um kaup á hríðskotabyssum. Vegna óvissu um að ráðherrar og embættismenn viti hvað orðið samningur ber í sér skal vitnað í tvær (net)-bækur:
Orðabókin Snara segir ma.: „… samkomulag, sætt, sáttmáli … samþykkt tilboð, fyrirkomulag sem tveir (eða fleiri) aðilar hafa lýst sig sammála um og er því bindandi milli þeirra … skjalfest samkomulag … samningur um sölu … samningur milli ríkja.“
Íslenska alfræðibókin segir: „… lögfr. samþykkt tilboð sem kemur á réttarsambandi milli tveggja eða fleiri manna. Að jafnaði þarf s ekki að vera í sérstöku formi, munnlegur s er t.d. jafngildur og skriflegur en vegna aðstöðu til sönnunar eru allir stærri s gerðir skriflega. Ef svikum, nauðung eða misneytingu er beitt við gerð s er hann ógildur.“
Af þessu virðist ljóst eð einn aðili geti ekki gert samning nema þá í mesta lagi við sjálfan sig. Það kann að gerast. Maðurinn er skrýtin skepna. En ég leyfi mér efast um að norski herforinginn hafi gert samning við sjálfan sig um sölu á vopnum til Íslendinga.
Sem sagt: Samkvæmt útvarpsfréttunum er til samningur um vopnakaupinn. Hann er gerður á milli norska hersins og Íslendinga. Þó að þetta séu smotteríis viðskipti fyrir herinn verður að gera ráð fyrir því að samningurinn hafi ekki bara verið munnlegur og handsalaður hlýlega. Það fullnægir ekki bókhaldi hersins. Hann hlýtur því að hafa verið skriflegur. Til þess að hann öðlaðist gildi hafa aðilar málsins undirritað hann. Og hann virðist fullgildur því að varan hefur verið afhent.
Þá stendur eftir spurningar: Hver gerði samninginn? Hver undirritaði hann? Með leyfi hvers, vitund hvers?
Fáist svör við þessu verður líka ljóst hver laug að hverjum þegar upp komst um kaupin. En atarna er kannski of viðkvæmt til þess að það megi upplýsa það.