Íslandsvinur
Fyrir fáum áratugum var orðið padda notað af yngra fólki um þá einstaklinga sem hvort tveggja voru falskir og undirförulir og klíndu sig utan í þá sem meira máttu sín, gerðust senditíkur þeirra, geltu þegar þeim var sigað og fengu að launum bein að naga.
Anders Fogh Rasmussen var forsætisráðherra Danmerkur á þeim árum sem vopnaframleiðendur og eigendur olíufélaga voru að ljúga upp hryllingssögum af kjarnorkuvopnaframleiðslu í Írak. Markmiðið með lygunum var að komast yfir þjóðarauð Íraka. Þetta kom skýrt fram í fræðslumynd sem Sjónvarpið sýndi á dögunum. Þar var lygavefurinn rakinn. Og kom þá fram þáttur Rasmussen í því máli öllu. Hann var fleðuleg senditík Bandaríkjamanna og Breta og dreifði lygum þeirra um heiminn sem átti auðveldara með að trúa honum en öðrum mannkynsbröskurum; hann var fulltrúi friðsamrar smáþjóðar. Þannig hjálpaði Anders Fogh Rasmussen rækilega til við að sprengja Íraskt samfélag í tætlur. Hann fékk sitt bein fyrir liðlegheitin og var gerður að framkvæmdastjóra NATO.
Nú eru viðsjár í Evrópu. Þar eru allir hlutir flóknir í reynd. Þá þarf að ljúga miklu fyrir sannleikann, fyrir NATO. Þeir eru góðu gæjarnir. Talsmaður þeirra er Anders Fogh Rasmussen. Samkvæmt fréttum munu NATO taka ákvörðun um það seinna í vikunni, hvort stofna eigi sérstaka viðbragðssveit og safna herbirgðum í austanverðri Evrópu. „Áætlunin mun tryggja að við höfum mannaflann og búnaðinn á réttum stað á réttum tíma,“ hefur AP fréttaveitan eftir Rasmussen. „Ekki vegna þess að við viljum ráðast á einhvern. Heldur vegna þess að hætturnar og ógnirnar eru til staðar og sýnilegar.“ Nokkur þúsund hermenn verða í viðbragðssveitinni. Henni á að vera hægt að beita með stuttum fyrirvara til að verja friðinn gegn öllum ógnum. „Þar á meðal Rússlandi,“ sagði Rasmussen.
Það er verið að efna til stríðs með það fyrir augum að efla auð einhvers. Völd einhvers. Yfirburði einhvers. Talsmaður firðarins ert Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO. Hann var á Íslandi fyrir stuttu. Hann er Íslandsvinur.