trusted online casino malaysia
Ritstjórn 15/06/2014 0 ummæli

Forsætisráðherra sem nörd. Eða: Að finna öll stærstu prikin á nýársdag

Palladómur: Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur

Ameríska kvikmyndin Hefnd nördanna frá 1984 kynnti til sögunnar hóp einstaklinga sem átti það sameiginlegt að stunda ekki hópíþróttir sem byggðu á líkamsstyrk. Jafnframt var látið að því liggja að þetta væri ófrítt fólk sem kynni ekki að greiða sér og boraði í nefið á almannafæri.

Mynd þessi var mjög til sjálfstyrkingar fyrir unglinga á þessum tíma því boðskapur hennar var jákvæður. Með gáfnafari, göfuglyndi og samstöðu er hægt að sigrast á hverju því ranglæti sem hin vonda veröld á það til að bjóða okkur sakleysingjunum á vegi okkar um lífið.

Það væri ennfremur ekki ólíklegt að fallegasta og vinsælasta stúlkan í skólanum – hin klassíska platínuljóska – myndi heillast svo mjög af hugprýði útlitsgallaðs gáfumennis með hræðilegan og óþolandi hlátur að hún hætti með glæsilegum fyrirliða fótboltaliðsins og byrjaði með okkar manni, hinum klappstýrunum til mikillar undrunar en líka til umhugsunar.

Þessi mynd var ljós í myrkrinu fyrir fólk sem tókst á þessum tíma á við raddbreytingar og mishraða stækkun ólíkra líkamshluta sem flestir, þó ekki allir, voru einhversstaðar á höfðinu.

En þótt boðskapurinn hafi verið jákvæður áttuðu flestir sig á veikleikanum í söguþræðinum og vildu frekar tilheyra þeim þjóðfélagshópi sem væri minna umdeildur en nördarnir. Það er í lagi að vera öðruvísi en ekki endilega eftirsóknarvert.

Við erum flest þannig gerð að við viljum fremur vera hluti hins breiða hóps venjulegs fólks en félagar í jaðargrúppum furðufugla.

Formaður Framsóknarflokksins var hins vegar ekki nema 9 ára þegar þessi mynd kom út. Hann var, eins og sagt er, á viðkvæmum mótunaraldri.

Hann varð nefnilega skrítinn karakter, hann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Eiginlega of skrítinn. Það er engu líkara en að hann gangist upp í því að vera undarlegur í háttum.

Hér er til dæmis facebook-statusinn hans frá því um áramótin 2010-2011:

„Kominn heim úr nýársgöngunni. Fann lítið af prikum. Áður fyrr þurfti maður að vakna eldsnemma á nýársmorgun til að finna prik en undanfarin ár hefur maður getað rölt út síðdegis og setið (gengið) einn að jafnvel stærstu prikum. Nú hefur e.t.v. orðið breyting þar á. Annað hvort eru krakkar farnir að hreyfa sig meira eða menn hafa skotið upp færri stórum rakettum þetta árið.“

Fullorðinn maður hefur haldið þann sið í gegnum árin að fara í göngutúr á nýársdag. Safnar prikum eins og hann gerði þegar hann var krakki – allra helst „stærstu prikum.“

Ekkert að því. Eiginlega bara hjartnæmt, sé þetta lesið með opnum hug og vinarþel í hjarta.

Sigmundur Davíð fer ekkert leynt með að hann er nörd. Hann er ekki meginstraumsmaður eins og við flest hin. Hann ætlast til þess að við sýnum því hinn sama skilning og umburðarlyndi og jafnvel aðdáun og við sýnum Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem er einmitt erkiglæsimenni og fyrirliði fótboltaliðsins í öllum mögulegum skilningi sem veraldarsagan hefur upp á að bjóða.

Bjarni Ben. er Herra pungbindi.

Og hví skyldum við ekki gera það? Í spurningunni felst sú ályktun að við gerum það ekki. Og við gerum það ekki. Við gúdderum nefnilega ekki rakettuprikssöfnun formanns Framsóknarflokksins. Hann hefur undanfarin ár getað gengið einn að stærstu prikum en fær ekkert prik hjá okkur fyrir vikið.

Þótt okkur finnist það í fínu lagi að vera öðruvísi þá myndum innst inni ekki vilja að það spyrðist um forsætisráðherrann okkar að hann safnaði rakettuprikum. Þótt það væri bara einu sinni á ári.

Og.

Í tvígang hefur orðið mikið uppistand í kringum utanferðir Sigmundar Davíðs. Það hefur ekki farið hátt, en honum er illa við að fara úr skónum í vopnaleitinni á Keflavíkurflugvelli.

Það er auðvitað fráleitt að láta okkur fara úr skónum.

En við látum það yfir okkur ganga vegna þess að til þess er ætlast að allir fari úr skónum svo ganga megi úr skugga um að ekkert misjafnt sé í þeim eða á okkur. Það er líka minna vesen.

Okkar maður er ósammála þessu.

Svo að tvisvar hefur Sigmundur Davíð neitað að fara úr skónum. Þá hefur hann óskað eftir því, ætti hann á annað borð að fara úr skónum, að vera skaffaðar sérstakar plasthlífar til að hafa á fótunum í gegnum gegnumlýsingarhliðið. Þegar engar slíkar buðust tók hann plastbakka þá sem við hin, sem erum meginstraumsgungur, setjum persónulega málmmuni í, og straujaði á þeim í gegnum hliðið.

Áhorfendum mestmegnis til undrunar, en þó var ekki laust við að óhugs gætti hjá einhverjum þeirra.

Kannski er þetta hugrekki. Fæst okkar myndu láta okkur yfir okkur ganga svona kjánalega niðurlægingu. En þetta er líka tilætlunarsemi. Það er farið fram á svolítið mikið umburðarlyndi. Sem er kannski í lagi, en ekki ef maður vill verða forsætisráðherra.

Ef við spyrjum þingmenn um vini hans á Alþingi er fátt um svör. Formaður Framsóknarflokksins virðist helst hafa náð persónulegum tengslum við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, en líklegt má telja að það skrifist á reikning Össurar sem á í ástríkum persónulegum samböndum við nánast alla sem hann hittir.

Ef Sigmundur Davíð á ímyndaðan vin í þinginu þá er ímyndaði vinurinn að spjalla um pólitík við þingmenn úr öðrum flokkum.

Hann er einfari og þar í liggur þversögnin.

Því hvað er meira meginstraums en miðjuflokkur? Formaður slíks flokks – ætti hann ekki umfram aðra að vera vinur allra? Formaður meginstraumsmiðjuflokks hlýtur að vera sá sem allir geta talað við? Því miður fyrir Sigmund Davíð geta fáir talað við hann.

Hann er ekki sá mannasættir og mannvinur sem Steingrímur Hermanns, Jón Kristjánsson og Jón Sigurðsson (þarþarsíðasti formaður) voru. Hann er ekki spjallarinn Valgerður Sverrisdóttir, félagsveran Ísólfur Gylfi, hugljúfan Ingibjörg Pálma, gleðihrókurinn Birkir Jón eða grínistinn Guðni Ágústsson.

Hann er meira formaður af skóla Halldórs Ásgrímssonar. Framsóknarmaður af tegund Finns Ingólfs. Seigfljótandi og seintekinn. Fámáll í hópi. Undirleitur og þyngslalegur í háttum.

Skarphygginn örugglega. Traustur? Varla. Einsmálsmaður? Já.

Því miður fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Framsóknarflokkinn þá sáu Steingrímur Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir aldrei Hefnd nördanna. Þau voru stjórnarandstöðuþingmenn á miðjum aldri þegar myndin kom út og þó þau hefðu farið í bíó og séð myndina þá hefði hún ekki skilið mikið eftir.

Sé slíkur atburður núvirtur jafngilti hann því að hitta Birgi Ármanns og Vigdísi Hauks á The Hangover. Sem er harla ólíklegt.

Þau skilja hann ekki. Altso Jóhanna og Steingrímur, Sigmund Davíð. Bara alls ekki.

Ná engu sambandi.

Þegar Jóhanna var níu ára 1951 var unglingamyndin African Queen með Humphrey Bogart og Katherine Hepburn. Fjórum árum síðar þegar Steingrímur J. var á sama viðkvæma mótunaraldri sló ungstirnið James Dean í gegn.

Myndin hét Rebel Without a Cause. Eigum við að ræða það eitthvað frekar?

(Júní 2012)

 

1,325