Hvað ég ætla að kjósa? Að kjósa rétt!
Fyrstu kosningarnar mínar voru 1980 en á þeim árum varð maður að vera orðinn tvítugur til að fá að kjósa. Því var breytt stuttu síðar. Þær kosningar var ég aldrei í vafa um hvað ég ætti að kjósa. Vigdís Finnbogadóttir var kosturinn og hana kaus ég með stolti og gleði í þessum mínum fyrstu kosningum. Það hefur síðan veitt mér gleði öll þessi ár, öll þessi 37 ár sem liðin eru, að hugsa til þess að maður kaus Vigdísi. Hún hefur haldið áfram að gera mann stoltan kjósanda hún Vigdís. Og gerir það enn.
Í alþingiskosningum hef ég ekki verið svona heppinn. Maður hefur iðulega beitt hinni frægu útilokunaraðferð og venjulega hef ég ekki ákveðið mig alveg endanlega fyrr en í kjörklefanum. Og einhvern veginn hefur það alveg verið sama hvað maður hefur kosið þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf endað í stjórn, svona oftast nær. Allt of oft.
Það er eiginlega orðið ansi þreytt. Kominn tími til að gefa þeim flokki frí, rétt eins og gert var í Borginni 1994. Afhverju? Jú frá 1991 hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið upp frjálshyggju og niðurskurðarstefnu, hyglað þeim ríku og í sífellt auknum mæli verið flokkur sérhagsmuna og auðmanna. Flokkurinn er ekki einn um þetta í heiminum, þetta er arfleið Thatchers og Reagan og hefur fært okkur mannfólkinu mikið böl. Böl ójöfnuðar, böl fátæktar stórra hópa, böl minni hagsældar millistéttarinnar; þar sem í fyrsta sinn næsta kynslóð sér fram á að hafa það verr en sú á undan. Böl þess að taka vonina frá fólki, ræna það framtíðinni og jákvæðninni. Allt til þess að þeir ríku og þeir ofsaríku geti nú hagnast enn meira, orðið enn ríkari. Til hvers, er síðan óskiljanlegt, því það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað maður getur haft ánægju af mörgum Range Roverum á hlaðinu.
Meira að segja Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er farinn að sjá þetta, sjá böl ójafnaðarins. Ef til vill, og það kæmi mér ekki á óvart, þá lærði AGS líklega heilmikið af honum Steingrími J. Sigfússyni og henni Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma. Og þá hafa þau nú gert mikið gagn fyrir fleiri en okkur.
En aftur að því hvað á að kjósa.
Nú var ég ákveðinn í því löngu fyrir kosningar hvað ég ætlaði að kjósa, aldrei þessu vant, það var líka bara þægilegt að hafa það þannig. Það kemur kannski ekki mörgum á óvart, sem þekkja mig og lesa facebook-statusana mína að núna ætla ég að kjósa Samfylkinguna. Ég hef aldrei verið í flokki og ég hef alls ekki alltaf kosið sama flokkinn en nú var ég bara viss.
Samt vil ég endilega að hún Kata Jak verði forsætisráðherra, treysti henni langbest í það verk. Og það ekki bara af því að ég sá hana fyrst áður en hún gatið staðið á eigin fótum, og áður en ég fékk kosningaréttinn. En það breytir því ekki að ég ætla að kjósa Samfylkinguna. Þar ræður reyndar miklu Evrópumálin. Eða kannski krónumálin. Nú koma margir fram og vilja með einu pennastriki banna verðtryggingu og lækka vexti. Það verður ekki gert með pennastrikum einum saman. Verðtryggingin og háir vextir eru gjaldið sem við borgum fyrir minnsta gjaldmiðil í heimi. Við þurfum annan gjaldmiðil og það er einungis ein leið til þess. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru í kjölfarið. Eina leiðin. Þetta vita allir. Auðvitað. En einhvern veginn má ekki tala um það. Af hverju er það? Kata Jak vill samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild, gott og vel. En samt er það svo að liðlega helmingur kjósenda Vinstri-grænna vill ekki bara sækja um aðild heldur vill aðild að Evrópusambandinu. Og hefur ekki einu sinni séð samning. En vill samt ganga í Evrópusambandið. Það hlýtur nú að vera íhugunarefni fyrir forystu Vinstri-grænna.
Það er stórt mál að losna við krónuna. Það lækkar vextina, gerir verðtrygginguna einfaldlega
óþarfa, það þarf þá ekkert að banna hana. Skiptir miklu máli fyrir velferð heimilanna. Síðan er það náttúrulega þannig að við erum Evrópubúar, við trúum á gildi Evrópu. ESB snýst fyrst og síðast um frið í Evrópu. Það er gert með því að einfalda viðskipti, einfalda ferðir milli landa, einfalda líf Evrópubúa. Snýst um að vinna saman, snýst um að auka jöfnuð, milli þjóða og milli fólks. Ríku þjóðirnar borga meira en þær fá og fátækari þjóðir fá meira en þær borga til sambandsins. Skil hreinlega ekki andstöðu Vinstri-grænna.
Lykilatriði. En síðan kann ég líka vel við að sjá Guðmund Andra Thorsson efstan á lista og vin minn Finn Beck með honum í fjórða sæti, Finni treysti ég manna best til allra góðra verka. Traustur maður. Það er reyndar fullt af góðu fólki á fullt af listum. Og aftur, hér er þörf á meiri samvinnu, það þurfa þingmennirnir okkar að læra. Vinna í því sem við erum sammála um – láta hitt ekki eyðileggja góð verk.
En það er grundvallarmunur. Samfylkingin stendur fyrst og fremst fyrir jöfnuði, er enda jafnaðarmannaflokkur. Sjálfstæðisflokkurinn stendur enn fyrir frjálshyggju, skattalækkunum og minna eftirliti, vill leyfa fólki að hagnast nánast sama hvað það kostar, setur það í fyrsta sæti. Almenningur á að vera í fyrsta sæti. Fjöldinn ekki fáir. Það sést enda á því að vilja fara með skattprósentuna í 35%. Venjulegur launamaður fær sáralítið út úr þeirri skattalækkun en þeir sem eru með hæst kaupið fá böns af monní einsog skáldið sagði.
Ég vil hinsvegar frekar hækka skatta. Ég er alinn upp af föður sem var stoltur af því að greiða skattana sína, sem vildi ekkert sérstaklega sækja undanþágur til að fá skattana sína lækkaða, því það var stoltið af því að vera gegn þjóðfélagsþegn og leggja sitt af mörkum. Hvar er sú hugsun? Hvar er stoltið af því að leggja sitt af mörkum til að gera Ísland enn betra en það er? Hver drap þá hugsun?
Ég er alveg tilbúinn til þess að borga nokkra þúsundkalla, jafnvel slatta af þeim, á mánuði til viðbótar við það sem ég geri nú í hærri skatta til að bæta heilbrigðiskerfið, efla menntakerfið og styrkja almennt innviðina til framtíðar. En auðvitað eiga hinir ríku að borga mest, en ekki minnst til samfélagsins. Það er jöfnuður, það vil ég.
Enginn efi í þetta sinn. Kjósið með hjartanu. Það er best.
- Stjórnarmyndun – hvað nú?! - 07/11/2017
- Tæp stjórnarmyndun! - 05/11/2017
- Sigurvegarar kosninganna – eða ekki! - 29/10/2017