trusted online casino malaysia
Ritstjórn 31/07/2014

Hugmyndir um varalið lögreglu: Rauður þráður frá rússnesku byltingunni (II)

Eftir Guðna Th. JóhannessonBjörn Bjarnason hershöfðingi

Verkföll og varalið

Þeim Bjarna Benediktssyni, Hermanni Jónassyni og mörgum öðrum ráðamönnum var sérstaklega umhugað að efla ríkisvaldið um þessar mundir; megnið af desember 1952 hafði mesta verkfall Íslandssögunnar lamað daglegt líf í Reykjavík, Hafnarfirði, á Akureyri og víðar.* Verkfallsverðir gættu þess vandlega að nauðsynjavörur bærust ekki til bæjanna utan af landi og stundum urðu slagsmál við götuvígi þeirra. Að því kom líka að samúðarverkfall var boðað í frystihúsum og útlit var fyrir að mikil verðmæti myndu þá fara í súginn. Ríkisstjórnin hugðist skipa lögreglu að standa vörð um frystihúsin svo „skemmdarverkamönnum yrði ekki greiður aðgangur þangað“, eins og Hermann Jónasson sagði. Það bætti svo gráu ofan á svart að sum matvæli var tekið að skorta á Keflavíkurflugvelli og haft var fyrir satt að sett yrðu bráðabirgðalög sem heimiluðu bandarískum hermönnum að skipa upp vörum í Reykjavíkurhöfn. En fimm dögum fyrir jól náðust samningar og alvarlegum átökum var eflaust afstýrt.

Þótt báðir hefðu orðið að gefa eftir í lokin var ljóst að ríkisvaldið hafði orðið að taka tillit til þess hve harðsnúnar sveitir verkfallsmanna voru. Hefði varalið komið að gagni? Enn bönnuðu lög um stéttarfélög og vinnudeilur að lögreglu væri beitt í verkfallsátökum en á hinn bóginn var lögreglu vissulega heimilt að „afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum“ eins og sagði í lögunum.

Vorið 1955 varð aftur viðamikið verkfall í landinu. Í bæjarstjórn Reykjavíkur kröfðust fulltrúar Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks þess að samið yrði við verkalýðsfélögin en meirihluti sjálfstæðismanna léði ekki máls á því. Hiti var í mönnum og í það minnsta einu sinni taldi Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri nauðsynlegt að „hafa vakandi auga með bæjarstjórninni, einkum þar sem Þjóðviljinn hvatti menn mjög til að mæta á bæjarstjórnarfundinum“. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins sögðu það óþarft en Sigurjón ákvað að láta fjóra lögregluþjóna sitja „sívilklædda“ á áheyrendapöllum. Auk þess létu allmargir „Óðinshanar“ – dyggir sjálfstæðismenn í flokksfélaginu Óðni – sjá sig þar. Óformlegt „varalið“ var því vissulega til staðar ef á reyndi.

Allt fór fram með friði og spekt á bæjarstjórnarfundinum (þessi ár voru þeir haldnir í húsi Eimskipafélagsins) en líkt og gerst hafði þremur árum fyrr lentu frystihúsin aftur í eldlínunni áður en verkfallið leystist. Brynjólfur Bjarnason, einn helsti leiðtogi sósíalista, sagði „alveg víst“ að lögreglu hefði verið ætlað að standa vörð um þau og þá hefðu bardagar auðvitað getað blossað upp. Sem betur fór leystist þetta verkfall þó áður en svo illa færi.

Sumarið 1961 var enn einu sinni blásið til mikils verkfalls. Í þetta sinn ákvað Viðreisnarstjórnin – samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks – að setja bráðabirgðalög sem bönnuðu alla truflun á millilandaflugi. Verkfallsmenn brugðust ókvæða við og Bjarna Benediktssyni dómsmálaráðherra fannst nauðsynlegt að kalla á liðsstyrk úr röðum sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, um þúsund manns „sem kveðja mætti til hjálpar lögreglunni á skömmum tíma með sérstöku símboðunarkerfi“, eins og Þór Whitehead sagnfræðingur hefur lýst. Ekki reyndi á þennan liðsafnað sem var undir forystu yfirmanns úr Landhelgisgæslunni en áfram sannaðist að við sérstakar aðstæður var hægt að koma upp nokkurs konar „varaliði“ lögreglu úr röðum reykvískra sjálfstæðismanna.

Almannavarnir og „borgaraleg skylda“

Árið 1962 voru Almannavarnir ríkisins stofnaðar og var þeim ætlað að skipuleggja varnir og viðbrögð við hernaðarvá. Að hluta til áttu þær því að fylla upp í það skarð í innri vörnum landsins sem hlaust af því að hér var ekkert heimavarnarlið, þjóðvarnarlið eða varalögregla. Lögin um almannavarnir sögðu það „borgaralega skyldu“ allra landsmanna á aldrinum 18-65 ára að gegna endurgjaldslaust starfi í þágu almannavarna á stríðstímum eftir nánari fyrirmælum lögreglustjóra og óheimilt væri að hverfa af vettvangi án leyfis. Þá var unnt að skylda fólk til þátttöku í námskeiðum og æfingum eftir þörfum. Á þennan hátt yrði til „varalögregla“ sem kæmi lögreglu, slökkviliði, læknum og öðru sérþjálfuðu starfsfólki til aðstoðar.

Fyrst um sinn nutu Almannavarnir ríkisins frekar lítils stuðnings í samfélaginu og líklega var það rétt sem Þjóðviljinn hélt fram snemma árs 1967 að „í heild bera lögin sterkan herskyldukeim, sem mönnum geðjast ekki“. Þetta ár var lögum um Almannavarnir einmitt breytt þannig að þær tækju einnig til varna við náttúruhamförum. Nokkru síðar – í Vestmannaeyjagosinu og öðrum stóráföllum – kom á daginn hve skynsamleg sú breyting var. Íslendingar trúðu ekki á varnir við hernaðarvá en ógnir elds og ísa þekktu þeir vel. Og þessu tvennu vildu þeir helst ekki blanda saman.

„Víetnamskt ástand“

Herlógó XDÞótt björgunar- og slysavarnasveitir stæðu fyrir sínu var ríkisvaldið sem fyrr án heimavarnar- eða þjóðvarðliðs. Bjarni Benediktsson (sem var nú orðinn forsætisráðherra) vildi enn að Íslendingar stofnuðu eigin varnarsveitir sem gætu með tíð og tíma tekið að einhverju leyti við hlutverki Bandaríkjahers hér á landi, og taldi hann að styðjast mætti við Landhelgisgæsluna við uppbyggingu slíks liðs. Að mati Bjarna gat Ísland vart talist sjálfstætt ríki ef það tæki ekki beinan þátt í eigin vörnum og „dvöl erlends herliðs á Íslandi til langframa væri að nokkru leyti niðurlægjandi (humiliating) fyrir íslenzku þjóðina“, eins og hann sagði í viðræðum við embættismenn Atlantshafsbandalagsins. Bandamenn Íslendinga töldu aftur á móti afar ólíklegt að hér væri hægt að stofna varnarlið sem stæði undir nafni og því síður var eindreginn vilji til þess í þjóðfélaginu, eins og Bjarni gerði sér vel grein fyrir.

Áfram var staðan því sú að hér var ekki einu sinni skipulegt varalið lögreglu sem gæti verið til taks við fjöldafundi, heimsóknir erlendra gesta eða uppþot og óeirðir. Sumarið 1968 urðu þáttaskil hér á landi líkt og víðast annars staðar í Vestur-Evrópu: Ungt fólk og róttækt fór að mótmæla ríkjandi þjóðskipulagi og skarst þá stundum í odda með því og lögreglu. Fyrir kom að allir tiltækir lögregluþjónar voru kallaðir út en máttu samt varla við margnum. Lögregluyfirvöld þurftu að bregðast við hinum nýju tímum og leituðu meðal annars fyrir sér með kaup á óeirðahjálmum og öðrum búnaði sem kæmi að gagni í átökum við mótmælendur.

Aldrei kom til þess að fólk slasaðist alvarlega þegar kastaðist í kekki og aldrei varð einhvers konar upplausnarástand í landinu. Knýjandi rök fyrir stofnun varalögreglu voru því tæplega fyrir hendi. Vanmáttur ríkisins olli engu að síður ótta meðal sumra ráðamanna; sumarið 1971 sagði Geir Hallgrímsson, nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, við Matthías Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, „að víetnamskt ástand gæti skapazt hér á landi ef vopnuð „þjóðfrelsissveit“ réði niðurlögum lögreglunnar, varnarliðið skærist í leikinn, en kommúnistar kölluðu Rússa til hjálpar“.

Leiðtogafundir

Dómsdagsspá Geirs Hallgrímssonar rættist auðvitað ekki og sem fyrr reyndist aðeins nauðsynlegt að efla lögreglu landsins við sérstaka viðburði. Árið 1972 vörnuðu námsmenn og aðrir róttæklingar William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, leið að handritasafninu í Árnagarði og fámenn lögreglan fékk ekki rönd við reist. Vorið 1973 stóð leiðtogafundur forsetanna Richards Nixons og Georges Pompidous svo fyrir dyrum í Reykjavík. Kommúnistar hugðust efna til mótmæla og þótt hin ýmsu samtök þeirra væru afar fámenn var allur varinn góður að mati yfirvalda, ekki síst vegna fýluferðar Rogers að Árnagarði árið áður. Þar að auki þurfti að sinna almennri öryggisgæslu; halda forvitnum vegfarendum í öruggri fjarlægð frá hinum tignu gestum, beina umferð í réttar áttir og þar fram eftir götunum.

Allt þetta var hinu reglulega lögregluliði ofviða því um þetta leyti töldust aðeins um 300 lögregluþjónar á landinu öllu. Á leiðtogafundinum voru tæplega tveir þriðju þeirra bundnir við löggæslu og þeim til fulltingis var svo um 200 manna varalið; félagar hjálpar- og björgunarsveita, íþróttakappar, tollþjónar og fleiri sem yfirvöld treystu. Vopn báru þeir ekki en klæddust einkennisfötum varalögreglu – dökkbláum samfestingi – og báru eins lita bátahúfu með lögreglumerkinu.

Fundur þeirra Nixons og Pompidous fór vel fram og varaliðið stóð fyrir sínu. Til dæmis fylgdu yfir fimmtíu varaliðar, þeirra á meðal fílefldir lyftingakappar úr Ármanni, mótmælagöngu KSML (Kommúnistasamtakanna marxistanna-lenínistanna) frá Lækjartorgi vestur í Slipp og við fundarstað forsetanna á Kjarvalsstöðum „afvopnuðu“ tveir varaliðar félaga úr Fylkingunni sem stóð þar með svartbaksegg í höndum sér.

Reynslan af þessum viðbúnaði kom að góðum notum 13 árum síðar þegar Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov hittust í Reykjavík. Öryggisgæsla var enn viðameiri í það sinn. Mörgum götum var lokað um lengri eða skemmri tíma, hluti hafnarinnar var bannsvæði og aðeins þeir sem áttu skýrt erindi fengu að vera nærri fundarstaðnum við Höfða. Aftur þurfti Reykjavíkurlögreglan því að leita liðveislu utan eigin raða. Þegar upp var staðið höfðu hátt á áttunda hundrað manns gætt öryggis leiðtoganna tveggja með einum eða öðrum hætti; lögreglumenn hvaðanæva af landinu auk hjálpar- og björgunarsveitarmanna sem voru gjarnan „ysta vörn þeirra svæða sem teljast öryggissvæði“, eins og Böðvar Bragason lögreglustjóri komst að orði.

Að leiðtogafundinum loknum var ekki annað að heyra á fulltrúum risaveldanna tveggja og yfirmönnum löggæslumála hér á landi en íslensk stjórnvöld hefðu verið vandanum vaxin. Þetta mikla verkefni varð alls ekki til þess að landinn færi að ræða um nauðsyn skipulegrar varalögreglu, hvað þá heimavarnarliðs, þótt einhverjir björgunarsveitarmenn sem tóku þátt í öryggisgæslunni hefðu vissulega dregið þá reynslu af henni að það gengi ekki „að það þurfi stöðugt ad hoc reddingar hjá okkar fólki í svona tilfellum“.

Næstu ár reyndi á lögreglu, almannavarnir og björgunarsveitir á ýmsa vegu; þannig voru fjölmennar hátíðir haldnar á Þingvöllum og mannskæð snjóflóð dundu yfir á Vestfjörðum. Í hvert skipti sást að sitthvað mátti betur fara en þegar á heildina var litið sýndist stjórnvöldum að málum væri hér ágætlega skipað. „Íslendingar hafa komið sér upp afar skilvirku öryggiskerfi sem byggt er á íslenskum aðstæðum og íslenskri reynslu,“ sagði Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra til að mynda vorið 2001. „Við höfum ekki herlið eða þjóðvarðlið sem við heyrum um í fréttum að sent hafi verið til að mæta vá af völdum náttúru eða stórslysa. Við byggjum kerfi okkar á öflugu liði sjálfboðaliða sem leggja á sig fórnfúst starf í almannaþágu og uppskera fyrir þakklæti alþjóðar.“ Auk þess stæðu atvinnumenn í löggæslu, landhelgisgæslu, brunavörnum og heilbrigðisþjónustu vitaskuld fyrir sínu.

Varnir við náttúruvá voru því yfirleitt sagðar í góðu lagi en hvað með ógnir af manna völdum? Þessi spurning hlaut að verða áleitnari við þau miklu tímamót sem urðu síðar þetta ár þegar íslamskir hryðjuverkamenn réðust á Tvíburaturnana og önnur skotmörk í Bandaríkjunum. En þess mátti þá líka vænta að svörin yrðu afar mismunandi.

Nýir mótmælendur

Atburðirnir 11. september 2001 vöktu vitaskuld ugg með yfirmönnum löggæslumála á Íslandi. Unnt var að halda því fram að landið væri veikasti hlekkurinn í keðju Atlantshafsbandalagsríkjanna en á móti mátti reyndar segja að íslömskum öfgamönnum væri einna minnstur akkur í því að ráðast til atlögu í fámennasta og afskekktasta ríki bandalagsins. Rök vógust á og hugmyndir um varalögreglu eða annars konar fastalið blönduðust í þá umræðu.Björn Bjarnason flotaforingi

Við breytingu á lögreglulögum sumarið 1996 höfðu ákvæði um varalögreglu verið felld niður. Í athugasemdum við lagafrumvarpið var bent á að þau hefðu ekki verið nýtt um lengri tíma og löggjafinn var greinilega á þeirri skoðun að hér þyrfti ekki að vera varalið að staðaldri. Ári síðar var embætti ríkislögreglustjóra stofnað og í verkahring þess varð meðal annars að „annast viðfangsefni sem vegna aðstæðna kalla á samhæfingu á landsvísu“, tryggja öryggi erlendra fyrirmenna á ferðum um Ísland og stýra aðgerðum „vegna hermdarverka eða þegar almannavá eða hættuástand ber að höndum“. Þessi verkefni voru öll af því tagi að varaliðs gæti verið þörf og sumarið 2002 gerðist það að ríkislögreglustjórinn átti í mestu vandræðum með að rækja skyldur sínar, í og með vegna manneklu.

Vandann mátti rekja til opinberrar heimsóknar Jiangs Zemins, forseta Kína. Félagar í Falun Gong, friðsömum samtökum sem höfðu engu að síður verið bönnuð í einræðisríkinu eystra, hugðust fjölmenna til Íslands og sýna Zemin þá andúð og fyrirlitningu sem þeim fannst hann eiga skilið. Laust fyrir komu Kínaforseta var lögreglu ljóst að liðsmenn Falun Gong ætluðu ekki að hlýða þeim fyrirmælum að mótmæla aðeins á tilteknum stöðum, og þá voru góð ráð dýr. Stjórnvöld ákváðu að meina fólkinu að ferðast hingað eða dveljast hér á landi, án þess að fyrir því væru fullnægjandi heimildir í lögum og reglugerðum. En nauðsyn braut lög að mati ráðamanna; þeir óttuðust „að við hefðum ekki mannafla til að halda aftur af öllum þessum fjölda ef til alvarlegra mótmæla kæmi eða með hvaða hætti þau færu fram“, rifjaði Björn Bjarnason ráðherra síðar upp, og hafði hann þó undrast þegar von var á Zemin að nauðsynlegt væri að grípa til þetta víðtækra öryggisráðstafana.

Næstu ár létu umhverfisverndarsinnar nokkuð að sér kveða, einkum liðsmenn samtakanna „Saving Iceland“ sem hlekkjuðu sig gjarnan við tæki og tól til að stöðva vinnu við virkjanir og álver og reyndu á annan hátt að hamla framkvæmdum. Til varnar gátu yfirvöld látið duga að lögregluþjónar og sérsveitarmenn fylgdust með hverju fótmáli mótmælendanna, legðu stein í götu þeirra og hótuðu brottvísun úr landi. Aftur voru viðbrögð yfirvalda stundum við mörk hins löglega, rétt eins og aðgerðir umhverfisverndarsinna. Þær urðu þó aldrei þess eðlis að lögregla þyrfti á sérstöku aðstoðarliði að halda; eini raunverulegi fjöldafundurinn fólst í afar friðsamri göngu niður Laugaveg, með Vigdísi Finnbogadóttur og Ómar Ragnarsson í broddi fylkingar.

„Her Björns Bjarnasonar“

Vorið 2003 varð Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra. Hann var sömu skoðunar og faðir hans Bjarni Benediktsson hafði verið á sinni tíð; að Íslendingar ættu að efla eigin varnir eftir bestu getu. Snemma árs 1995 (þegar Björn gegndi embætti menntamálaráðherra) hafði hann vakið máls á þessu svo eftir var tekið. Lúxemborg var ein fyrirmynd líkt og fyrri daginn. Þar var þúsund manna her, að sögn Björns, og á Íslandi ætti að vera 500-1.000 manna lið undir vopnum sem sæi síðan um að þjálfa fjölmennara varalið. Þær sveitir gætu eflt öryggi „á lykilstöðum á landinu án þess að kveðja þyrfti til liðsauka frá Bandaríkjunum í stöðu, sem ekki flokkaðist undir hernaðarlegt neyðarástand, og … einnig styrkt þær almannavarnir, sem fyrir eru, og björgunaraðgerðir vegna náttúruhamfara“.

Óskir Björns Bjarnasonar um íslenskt þjóðvarðlið eða heimavarnarsveitir fengu ekki hljómgrunn innan þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat. Hann var þó fráleitt af baki dottinn og þegar bandarískt herlið hvarf af landinu árið 2006 fannst honum að alveg ný viðhorf hefðu skapast. Í mars næsta ár kynnti Björn hugmyndir um 240 manna launað varalið lögreglu og almannavarna. Liðsmennirnir skyldu koma úr röðum björgunarsveita, slökkviliðs, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögregluþjóna. Þeir myndu gæta landamæra og mikilvægra staða þegar á þyrfti að halda, stýra mannfjölda, verja tigna gesti og sinna „almennum löggæsluverkefnum, umferðarstjórn og sérstökum verkefnum“. Búnaður liðsins var ekki nefndur en tekið fram að embætti ríkislögreglustjóra myndi halda utan um hann og liðið í heild sinni.

Þessi fyrirhugaða bylting í lögreglumálum landsins hlaut að valda deilum í samfélaginu. Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, tók manna dýpst í árinni, talaði um „tindátaleik fyrir fullorðna“ og sagðist sjá að Sjálfstæðisflokkurinn vildi koma upp „íslenskum, vopnuðum her“. Kosningar voru fram undan og að þeim loknum settust þessir tveir stjórnmálaflokkar saman í ríkisstjórn. Oft getur afstaða manna breyst við stökkið úr stjórnarandstöðu í stjórn (og á hinn veginn) en í þessu tilfelli á það þá enn eftir að koma í ljós. Reyndar eru frekar teikn á lofti um hið gagnstæða; að ágreiningur sé enn milli áhrifamanna í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu um varalögreglu á Íslandi.

„Er þetta heimavarnarlið? – Nei, nei, nei, nei!“

Í lok október 2007 greindi Ríkisútvarpið frá því að þingmönnum Samfylkingarinnar þætti „lýðræði og mannréttindi gjalda fyrir öryggissjónarmið“ í frumvarpi um breytingar á lögum um almannavarnir sem Björn Bjarnason hafði lagt fyrir ríkisstjórnina. Forsaga þess var sú að laust fyrir stjórnarskiptin um vorið hafði Björn kynnt frumvarpið fyrir þeirri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem þá sat. Þá hafði hann líka greint frá því á opinberum vettvangi að frumvarpinu fylgdi tillaga hans um heimild til „að bæta við varalögreglumönnum til að gæta öryggis“. Um miðjan nóvember mælti Björn Bjarnason svo fyrir frumvarpinu en minntist ekki á varalögreglu og eflaust hafði ágreiningur við Samfylkingu þar sitt að segja. Hitt er þó tekið fram í frumvarpinu, líkt og í öllum fyrri lögum um almannavarnir, að það skuli vera „borgaraleg skylda“ 18-65 ára Íslendinga að gegna starfi í þágu almannavarna „á hættustundu“. Í frumvarpinu segir jafnframt að embætti ríkislögreglustjóra skuli vega og meta hvort og hvenær slíkt neyðarástand „er líklegt, er yfirvofandi eða ríkir“. Dómsmálaráðherra beri síðan að gefa út reglur um almannavarnastig eftir ráði ríkislögreglustjóra.

Almannavarnafrumvarpið er til umfjöllunar í allsherjarnefnd Alþingis þegar þetta er skrifað og bíður annarrar umræðu á þingi. Frumvarpið fyrirhugaða um varalið lögreglu ætti einnig að vera kynnt í þingsal innan tíðar, eins og Björn Bjarnason lýsti yfir laust fyrir jól. Þá kemur í ljós hvað í því felst en á vef dómsmálaráðuneytis er reyndar að finna frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum – með athugasemdum sem eru að mestu frá ríkislögreglustjóra auk fylgiskjals frá fjármálaráðuneyti – þar sem rök fyrir stofnun varaliðsins eru rakin til hlítar. Fyrir utan landamæragæslu og önnur verkefni sem Björn Bjarnason hafði rætt um í mars 2007 er minnst á „ofbeldisfull mótmæli“ og „hækkun vástigs vegna almannavarnaástands“. Þjálfun liðsmannanna 240 verði að miðast við öll þessi verkefni og búnaður sömuleiðis: einkennisfatnaður, hjálmar, skildir og fjórar óeirðabifreiðir, svokallaðar. Kylfur eru ekki nefndar en þurfa þó væntanlega að vera til taks, og ætlast er til að „uppbygging og þjálfun varaliðs verði þannig hluti af sérstöku skipulagi ríkislögreglustjóra, sem tryggi samhæfða uppbyggingu sérsveitar, mannfjöldastjórnunarliðs lögreglu, almennrar lögreglu og varaliðs“.

Stofnkostnaður varaliðs er talinn nema um 244 milljónum króna (þar af 40 vegna óeirðabifreiðanna) og árlegur rekstrarkostnaður um 222 milljónir. Þá gerir dómsmálaráðuneyti ráð fyrir að varaliðum verði greidd þóknun fyrir hvert útkall, hugsanlega um 15.000 krónur á dag til hvers og eins.

Verði varalið af þessu tagi að veruleika mun það ekki bera skotvopn eða skýla sér bak við vopnaðra bryndreka. Þetta varalið verður ekki her. En það verður ekki heldur aðeins hópur vinalegra laganna varða að stýra umferð og stilla til friðar á mannamótum. Til þess þarf ekki hjálma, skildi og óeirðabifreiðir.

En er það kannski ekki þetta frumvarp sem Björn Bjarnason ætlar að leggja fram á Alþingi? Í Silfri Egils sunnudaginn 3. febrúar sagði hann af og frá að á „óeirðabíla“ væri minnst í frumvarpi sínu og því síður yrði þar kveðið á um fjölda varaliða. Þar að auki lýsti dómsmálaráðherra væntanlegu varaliði á þann veg að því yrði aðeins ætlað að hlaupa í skarðið „við mannfjöldastjórnun, við almannavarnaástand og við slíkar sérstakar aðstæður; að þá geti hinir venjulegu lögreglumenn, hefðbundnu lögreglumenn, fastaliðið, farið í að sinna hinum erfiðu verkefnum en til sé liðsafli sem geti komið þá og sinnt þessum daglegu störfum sem lögreglan þarf að halda gangandi líka“.

Eitthvað virðist því hafa breyst frá því að það frumvarp var samið sem finna má á vef dómsmálaráðuneytis; varaliðið er orðið mun veigaminna og sú spurning gæti jafnvel vaknað hvort tiltæk lög heimili ekki þann takmarkaða liðsstyrk sem dómsmálaráðherra vill að sé til staðar. Lög um almannavarnir er hæglega hægt að túlka á þann hátt þegar „almannavarnaástand“ vofir yfir eða er skollið á, og samkvæmt lögreglulögum geta lögreglustjórar nú þegar ráðið „héraðslögreglumenn“ (sem gætu þess vegna verið björgunarsveitarmenn og aðrir væntanlegir varaliðar) til þess að „gegna almennum löggæslustörfum þegar á þarf að halda, þar á meðal að halda uppi lögum og reglu á mannfundum og skemmtunum undir stjórn lögreglumanna“.

Og svo lítið í sniðum skal hið fyrirhugaða varalið verða, að sögn Björns Bjarnasonar í Silfrinu, að það mun alls ekkert eiga skylt við þær vopnuðu sveitir sem hann og aðrir hafa stundum talið brýnt að stofna hér á landi, eins og hefur verið rakið í þessari grein. „Er þetta heimavarnarlið?“ spurði Egill Helgason í þætti sínum og dómsmálaráðherrann var skjótur til svara: „Nei, nei, nei, nei!“ Þá spurði Egill áfram: „Myndirðu vilja stofna heimavarnarlið líka?“ Eitt er auðvitað að vilja, annað að lýsa því yfir, og allt hefur sinn tíma í pólitík eins og svar Björns Bjarnasonar sýndi: „Heyrðu, það er allt önnur umræða. Hermálin eru allt önnur umræða.“

„Ofbeldi gegn lýðræðinu“

Björn hershöfðingiEn nú er að sjá hvort Samfylking og Sjálfstæðisflokkur standa saman að stofnun varaliðs lögreglu á Íslandi. Það yrðu söguleg tíðindi, rúmum 70 árum eftir að Alþýðuflokkurinn setti það skýra skilyrði fyrir setu í „Stjórn hinna vinnandi stétta“ að varalögregla yrði lögð niður.

Þá voru vissulega breyttir tímar en með góðum vilja (eða illum!) má samt sjá líkindi milli sögu og samtíðar. Þeim rauða þræði frá rússnesku byltingunni, sem hér hefur verið rakinn, lýkur í ráðhúsi Reykjavíkur. Fimmtudaginn 24. janúar 2008 stóðu liðsmenn úr ungliðasamtökum Framsóknarflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og ýmsir aðrir reiðir borgarbúar fyrir háværum mótmælum á áheyrendapöllum ráðhússins. Fólkið söng, púaði og hrópaði slagorð – jafnvel ókvæðisorð – þegar til stóð að nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar tæki við völdum í borginni og Ólafur yrði kjörinn borgarstjóri. Svo fór að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna og nýkjörinn forseti borgarstjórnar, afréð að fresta fundi uns mótmælendur féllust á að hverfa á braut með friði.

Ekki hafði þurft að grípa til slíks ráðs „síðan í Gúttó“ eins og 24 stundir slógu upp á forsíðu sinni, með vísun í Gúttóslaginn í nóvember 1932. Það var í sjálfu sér rétt þótt ólíku væri annars saman að jafna. En kannski munaði litlu að lögregla skærist í leikinn í ráðhúsinu; að mati Björns Bjarnasonar réð ráðsnilld Hönnu Birnu því „að fólkið hélt af pöllunum, án þess að beita þyrfti lögregluvaldi“. Í fjölmiðlum og netheimum gætti síðan ýmissa skoðana á atganginum en sjónarmið þeirra, sem höfðu skömm á honum, komu einna skýrast fram í forystugreinum Morgunblaðsins – þar sagði meðal annars að „skrílslætin“ hefðu verið „ofbeldi gegn lýðræðinu“.

Að minnsta kosti einn þekktur bloggari og álitsgjafi sá líka fyrir sér að þeir sem styðja stofnun varaliðs lögreglu myndu nýta „hin sögulegu ólæti“ því máli til framdráttar. Reynist sá grunur á rökum reistur verður fróðlegt að sjá hvernig það gerist en reyndar ber að varast of miklar getsakir um framtíðina svo lesendur þessarar greinar geti ekki hrópað síðar að höfundinum: „Þú ert enginn fokkings spámaður“.

(Seinni hluti – fyrst birt í mars 2008. Fyrri hluti er hér.)

∗ Tilvísanir í heimildir fylgja ekki þessari grein en þeir sem vilja sjá hana með þeim neðanmáls geta haft samband við höfund í netfangið gudnith@hi.is.

1,645