Höddi bjargar deginum
Þegar við neyðumst til að horfa á leiðindi eins og úrslitaleik í meistaradeildinni kemur einn maður til bjargar: Höddi Magg.
Um það bil sem ég var að sofna yfir Messi, Pogba, Suarez, Vidal, Pirlo, Neymar og Buffon var einn maður sem vakti mig alltaf: Höddi Magg.
Það er bara einn Höddi Magg:
„Það er öruggt að þessi bikar kemur ekki á…“
[Þögn. Fær sér sopa.]
„… silfurfæti.“
[Kyngir.]
„Er Juventus að gefa Barcelona…“
[Þögn. Fær sér líklega Pepsi.]
„… leik sem enginn átti von á að neinn myndi sjá?“
„Lichtsteiner er þreyttasti maður heimsfótboltans.“ Heimsfótboltans. Góð greining. Þreyttari en Blatter.
Og „gamla frúin hefur ekki sungið sitt síðasta.“ Og „líklega myndi aldrei neinn ekki velja hann í ellefu manna lið.“
Með það dottaði ég. Heyrði þó í svefnrofunum: „Þvílíkur leikur sem fótboltinn hefur gefið okkur, heiminum sem á svo miklu betra skilið, heiminum sem hefur samt gefið okkur Pirlo, sem fer í sumar til Kaliforníu til að sleikja tærnar.“
Líklega var mig að dreyma. Og þó. Mjög hugsanlega ekki.
Höddi er ástæðan fyrir því að við horfum á fótbolta. Eða eins og þulurinn sagði:
„Það er bara einn maður. Bara einn maður.“
[Þögn. Fær sér líklega sódavatn.]
„Sem er hann.“
[Þögn. Sofnar.]
- Klefinn hér og þar - 23/01/2016
- Selja Árna Pál. Ókei þá: Gefa hann - 03/01/2016
- 176 sentimetrar af hreinum hæfileikum - 13/06/2015