Hin tæra snilld
Snilld er ekki öllum gefin. Hún er fágæt. Af og til brýst hún þó fram. Og við eigum snillinga, Íslendingar. Einn þeirra er fjármálaráðherra. Hann var að ræða stöðu Ríkisútvarpsins sem skuldar 5,5 miljarða og gat ekki greitt 190 miljónir á gjalddaga. Útvarpið er að hluta til rekið fyrir skattfé, nefskattinn útvarpsgjald, 19.400 krónur á mann árlega. Af honum hirðir ríkissjóður 500 miljónir króna í ár, 310 miljónum króna meir en gjaldfallna skuldin, sem er við lífeyrissjóðs starfsmanna Útvarpsins. Ráðherrann mætti til viðtals í Sjónvarpið, lýsti því yfir að staðan væri „augljóslega ekki góð“. Það væri unnið að því að „trappa niður“ það sem ríkið tæki til sín af gjaldinu þar til Útvarpið fengi það allt.
Þarna er nauðsynlegt að taka kúnstpásu því að nú er komið að snilldinni, ráðinu til þess að „laga“ skuldastöðuna.
Útvarpsgjaldið verður lækkað „um nokkur þúsund“, sagði herrann, því að „umfang starfsseminnar er ekki einhver fasti“. Þetta er það sem kallað var tær snilld á Bóluárunum.
En Palli er ekki einn í heiminum frekar en fyrri daginn. Heilbrigðisráðherra hefur séð til foringja síns og þótt vera kominn tími á að sýna sig, en hann hefur verið í felum á meðan heilbrigðiskerfið grotnar í sundur. Hann mætti í Sjónvarpið sólarhring á eftir foringjanum og ræddi heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri Evrópu sem Íslendingar fá aðgang að á vori komanda. Hann lýsti því yfir að hann héldi að við þetta kæmu Íslendingar ekki til með að sækja frekar út til lækninga, en þetta „eykur möguleika þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu hér á landi til þess að afla sér nýrra sjúklinga eða viðskiptavina. … Ég vona það svo heitt og innilega að við getum staðið vörð um það þjónustustig sem við höfum náð hér og … bætt það.“
Er hægt að lesa nokkuð annað út úr þessu en að sjúklingar sem verða „viðskiptavinir“ eigi að koma á einkaklínikur með sinn vanda, því að hvorki er hægt að vernda né bæta „þjónustustig“ heilbrigðiskerfisins við þann fjársvelti sem þjónustunni er haldið í af ríkisstjórninni; jafnvel þó að menn „voni það heitt og innilega.“