Hamskipti
Það er ekki aðeins atgangur ríkisstjórnarinnar við að eyðileggja undirstöður samfélagsins og gælur hennar við peningafurstana sem rænt hefur hana trausti. Litlu atriðin gera það líka: Vinargreiðarnir, sem áttu að fara leynt, skríða fram í dagsjósið og narta í fylgið.
Þegar Geir Jón Þórisson starfaði við löggæslu í Reykjavík þótti mörgum nokkuð til hans koma. Hann hafði róandi áhrif á þá sem hlustuðu á hann, virtist sanngjarn í málflutningi og ódómgjarn. Í augum ærið margra var hann Lögregluþjónninn í Reykjavík.
Svo fór hann á eftirlaun, flutti út í Eyjar með það Búsáhaldabyltinguna í eftirlaunapokanum. Þar samdi hann skýrslu um það hvernig hún kom honum fyrir sjónir. Og það bar fleira til tíðinda í lífi hans á þessum tímamótum. Hann opinberaði með Sjálfstæðisflokknum og bauð sig fram til varaformanns á landsfundi. En náði ekki kjöri. Við þessa pólitísku afhjúpun varð gæflyndi maðurinn að umskiptingi, fór hamförum í málflutningi og glataði trúðverðugleikanum. Og dómgreindinni. En hann hélt vinnuseminni og skrifaði skýrslu.
Það fór fyrir Geir Jóni eins og mörgum rithöfundi fyrr og síðar: Hann varð hrifinn af sjálfum sér, lét engan fara yfir skrifin sín og tók að lesa þau upp á fundum Flokksins. Svo vel líkaði sjálfstæðismönnum lesturinn að höfundurinn ákvað að bjóða sig fram til alþings fyrir þá og náði kjöri sem varaþingmaður.
Næst gerðist það að fréttir af upplestrinum bárust út fyrir raðir flokksins. Fjölmiðlar vildu fá skýrsluna. Þá var því lýst yfir að þetta væri leyniplagg. Því vildi ein kona ekki una og krafðist skýrslunnar fyrir dómi. Og fékk hana. Og fjölmargir aðrir. Vegna mistaka. Og í ljós kom herjans mikið plagg þar sem höfundur geipar um fjöldann allan, fer með dylgjur, setur dóm og sakfellir.
Það er siður stjórnarherranna þessa daga að óskapast yfir skýrslugerð og kostnaði við þær. Mætti þá ekki spyrja, svona til þess að tolla í tískunni, hvað varaþingmaðurinn fékk í höfundarlaun? Hver borgaði þau? Og þó að ljóst sé hver er dreifingaraðili að plagginu, er rétt að spyrja: Hver er útgefandi?