Fyrirgefningin
Eins og skýrt var frá í pistlinum Tál hér á Herðubreið nú vikunni leiðrétti forstjóri Landsspítalans, í fréttabréfi til starfsfólks hans, rangfærslur Vígdísar Hauksdóttur formanns fjárlaganefndar alþings og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar varamanns hennar um fjárveitingar til sjúkrahússins. Þar sagði meðal annars:
„Staðreyndin er sú að í ár fær Landspítali um 10% minna fé til reksturs en hann fékk árið 2008, miðað við fast verðlag. Síðan þá hefur ekki einungis verið hagrætt gríðarlega í starfseminni (…) heldur einnig bætt við miklum verkefnum. Eigi spítalinn að rækja þau verkefni sem löggjafinn ætlar honum þarf 4% hið minnsta til viðbótar í rekstrargrunn hans.“
Í lok skrifa sinna bað forstjórinn um að fram færi „uppbyggilegt samtal við fjárveitingavaldið um verkefni spítalans og fjármögnun þeirra. Það samtal verður að byggja á staðreyndum en ekki fullyrðingum sem standast ekki...“
Vigdís Hauksdóttir mætti til samtals í Vikulokum Ríkisútvarpsins klukkan 11 í morgun. Eftir að hún hafði endurtekið fyrri rangfærslur og fimbulfambað um stórauknar fjárveitingar til Landsspítalans var hún spurð út í skrif forstjórans. Hún sagðist vera leið yfir því að hann skyldi hafa látið þetta frá sér fara. Síðan sagði hún orðrétt: „Svo er ég ekkert viss um að hann hafi sjálfur skrifað þennan pistil.“
Þó að Vigdís virðist ekki fullfær um að taka þátt í uppbyggilegu samtali er þetta væn manneskja og kristilega víðsýn eins og sést á því að hún lauk umfjölluninni um skrif forstjórans með orðunum: „En honum er alveg fyrirgefið.“