Fyrir og eftir kosningar — svik eða hvað?
Átti leið framhjá Höfðatorgi og húsnæðinu þar sem Viðreisn var með kosningaskrifstofu. Kosningarnar eru jú löngu búnar en slagorðin má enn sjá í gluggunum þótt enginn sé lengur innan dyra. „Almannahagsmunir framar sérhagsmunum“, segir þar. Gott slagorð og mikilvægt en það var ljóst að með því slagorði og þeirri áherslu vildi Viðreisn skilja sig ákveðið frá Sjálfstæðisflokknum. Þetta var áhersla á að Viðreisn væri ekki Sjálfstæðisflokkurinn og að eitt stærsta vandamálið á Íslandi væri einmitt sérhagsmunir sem eru teknir framar almannahagsmunum. Og það er viðhorf sem er ríkjandi meðal miklu fleiri en kjósenda Viðreisnar. Eiginlega er það viðtekin skoðun í samfélaginu, sem er látin ómómælt, að Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sérhagsmuna. Afstaðan til fiskveiðilöggjafarinnar, kvótagreifanna, til stjórnarskráarinnar, búvörusamningsins og síðast en ekki síst Evrópusambandsins sýnir svo ekki verður um villst, varðstöðuna um sérhagsmunina. Og þetta er almennt viðurkennt. Afstaðan til aðildar að Evrópusambandinu fer t.d. gegn stefnu flokksins í gegnum áratugi varðandi vestræna samvinnu og gegn stefnu svipaðra flokka í Evrópu. Því nú krefjast sérhagsmunirnir þess.
Þannig lagði Viðreisn upp málið fyrir kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn stæði fyrir það sem væri andstætt Viðreisn, Sjálstæðisflokkurinn að einhverju marki var því aðalandstæðingurinn. Slagorðið bendir til þessa en Viðreisn tók ekki afgerandi skref í þessa átt sem hefði verið að taka sér stæti með stjórnarandstöðuflokkunum á Lækjarbrekku. Framsókn var samt auðveldlega teiknuð upp sem aðalandstæðingur enda kæmi ekki til greina að starfa með þessum tveimur flokkum – saman – og þannig framlengja líf ríkisstjórnarinnar, sagði formaðurinn.
Björt framtíð tók Lækjarbrekku skrefið og sæti við það borð. En atkvæðin skiluðu sér ekki nægilega vel til þessara fjögurra flokka. Það er einsog kjósendur vilji ekki vita hvaða ríkisstjórn þeir fái eftir kosningar heldur séu samþykkir og ánægðir með það leikrit sem fer í gang eftir kosningar. Sem nú spilast fyrir fullu húsi.
Björt framtíð með Óttar Proppé í forsvari gagnrýndi aðkomu íslenskra stjórnmálamanna í Panamaskjölunum, en ákveður eigi að síður, og þrátt fyrir Lækjarbrekku, að fara í formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn með Viðreisn. Þrátt fyrir viðveru ekki færri en tveggja ráðherra í Panamaskjölunum.
Þetta hafa margir gagnrýnt. Maður les að gagnrýnin sé harkaleg, talað sé um svik og þaðan af verra og jafnvel talað um níð, að níðst sé á mönnum persónulega fyrir að standa í þessum stjórnarmyndunarviðræður. Ég hef ekki séð níð þótt það sé vel hugsanlega að finna. En áánægju og gagnrýni sér maður víða.
Miðað við hvernig menn lögðu upp kosningabaráttuna, hvaða áherslur voru fyrir kosningar, þá hlýtur það nú að vera ljóst að margir kjósendur þessara tveggja flokka líti svo á að þeir hafi ekki verið að kjósa Sjáfstæðisflokkinn til valda, heldur einmitt að koma í veg fyrir það með því að kasta atkvæði sínu á þessa tvo flokka. Ekki allir kjósendur þeirra, heldur margir.
Það kemur því ekki á óvart að margir í þeim hópi séu óánægðir og það jafnvel meira en lítið.
Það er nefnilega orðið ansi þreytandi að sama hvað maður kýs að þá er það alltaf Sjáfstæðisflokkurinn sem heldur völdum, eða nánast alltaf. Það þarf allsherjar hrun samfélagsins til þess að það breytist en þá bara í eitt kjörtímabil. Og niðurstaðan verður helst sú að þeir sem byggja upp eftir að allt var í rúst lagt beri ábyrgð á allsherjarvandanum.
Sama hvað þeim kjósendum fækkar, kosningar eftir kosningar, sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn, samt skal flokkurinn alltaf í ríkisstjórn, samt skal sá sem best sinnir sérhagsmununum og almannahagsmunum minnst, mestu ráða í íslensku samfélagi. Samt kaus 71 prósent eitthvað annað að þessu sinni og fylgi Sjálfstæðisflokksins með minnsta móti þótt það hafi eitthvað aukist milli kosninga.
Er ekki kominn tími til að meirihlutinn ráði?
Og er ekki skiljanlegt að allavega hluti þess meirihluta sé argur, svo ekki sé meira sagt, að þeir sem sögðust ætla að breyta þessu – núna – virðist engu ætla að breyta heldur einmitt tryggja áframhald sérhagsmunanna? Tryggja minnihlutanum valdið, möguleikanum til að hygla sínum.
Einu sinni enn.
- Stjórnarmyndun – hvað nú?! - 07/11/2017
- Tæp stjórnarmyndun! - 05/11/2017
- Sigurvegarar kosninganna – eða ekki! - 29/10/2017