Furðulegt hátterni landans
Það er nú varla í frásögur færandi að hafa komið yfir Hellisheiði að austan á laugardaginn var. Vorum í átta ára afmæli á Hvolsvelli og heimsóttum systur mína á Selfossi. Skilaði reyndar 88 ára gömlum foreldrum mínum til systur minnar sem dvöldu þar í yfirlæti góðu meðan við Katla renndum á Hvols.
Komum aftur á Selfoss um fjögur leitið og vorum drifin í áframhaldandi veislu þar enda mágur minn einstakur höfðingi heim að sækja. Samt lögðum við af stað um fimm í bæinn enda hafði maður það svona í huga að vera á undan veðrinu. Sem gekk ekki eftir.
Um leið og við klifum upp Kambana fór skyggni að minnka en það var ekki orðið verulega slæmt fyrr en á háheiðinni. Rétt áður en við komum í Hveradalabrekkuna sáum við að jeppi og snjóruðningstæki höfðu lent í árekstri. Það var ekkert vandamál að komast framhjá þar og greinilega búið að sinna þeirri hjálp sem þurfti.
Bílaröðin fór hægt á þessum tímapunkti. Komin niður í 20-30 km á klst. Maður kippti sér ekkert upp við það. Þakkaði fyrir að sjá rauð afturljós sem auðveldar allan akstur. Var feginn að vera ekki fyrsti bíll.
Svo bjóst maður við að skyggnið myndi lagast þegar maður kæmi niður af háheiðinni. En ekki varð það. Það sást varla á milli stika en á 2+1 kaflanum hjálpaði að sjá í vegriðið.
Nema þá byrjaði vitleysan. Á tveggja akreina kaflanum fóru bílar að þjösnast framhjá mér og fleiri bílum. Og maður hugsaði, hverju í andskotanum ætla þeir að ná fram? Það sást ekki út úr augum og vonlaust að keyra eitthvað hraðar. Og hvað ætluðu þeir að gera við þessar aðstæður, fara fram úr 10-15 bílum eða jafnvel 20? Því maður sá bara ekkert hvað voru margir bílar á undan.
Einn rauk meira að segja fram úr hægra megin.
Þegar við komum lengra niður, niður Draughlíðarbrekkuna, að Litlu kaffistofunni, brást sú von að skyggnið myndi aukast. Þá var búið að leggja snjóruðningstæki fyrir akreinina upp heiðina. Og greinilega nóg að gera í kaffisölunni.
En á tvöfalda kaflanum héldu menn áfram að fara fram úr og einn og einn komst fram úr einum og einum bíl. En nú jókst hættan verulega. Því þótt ekki væri mikill snjór á veginum, heldur bara blint fjúk og skafrenningur, var aðeins farið að taka í skafla. Litla skafla samt, af því að tækin gátu ekki lengur athafnað sig í að ryðja veginn. Þannig að í framúrakstri gátu menn svo sem vitað að þeir vissu bara ekkert hvað þeir væru að fara út í, að fara að gefa í til að komast framhjá einum eða tveimur og sjá ekkert hver maður væri að fara. En það slapp reyndar – það sem ég sá.
Við mættum svo tugum bíla á leiðinni og þeir ökumenn og farþegar voru ekki öfundsverðir, áttu eftir að komast upp að Litlu kaffistofu aðeins til þess að snúa við. Og þar hefur allt örugglega verið komið í eina kös, því skyggnið var bara ekkert og það þarf ekki mikið til að festa einn bíl og stoppa allt.
En við lulluðum þetta í rólegheitunum á 20 km/klst alveg áhyggjulaus. Mamma var reyndar alltaf svolítið glöð þegar hún sá í stiku.
Og skyggnið lagaðist ekkert þótt maður kæmi nær Reykjavík, eða lítið. En trú mann á Íslendingum minnkaði til muna. Þegar við komuð að hringtorginu fyrsta þar sem lokunarhliðið er þá blikkuðu þar blá ljós. Það sáum við löngu á undan. Lögreglubílnum var lagt þvert á akreinina og fór ekkert á milli mála til hvers. En það kom samt ekki í veg fyrir að smájepplingur var að þröngva sér framhjá löggubílnum. Auminga lögreglumaðurinn svipti sér út úr bílnum og ætlaði greinileag að freista þess að stöðva þennan vitleysing en varð að hætta við því bíllinn á eftir ætlaði bara að fylgja á eftir jepplingum, þannig að löggan varð að beina honum annað og láta hinn sleppa.
Við höfðum líka á leiðinni séð bílastrollu á leið eftir veginum í Almannadal, greinilega að fara framhjá lokuninni.
Ég á bara ekki til orð. Ekki fleiri að minnsta kosti en þessi.
- Stjórnarmyndun – hvað nú?! - 07/11/2017
- Tæp stjórnarmyndun! - 05/11/2017
- Sigurvegarar kosninganna – eða ekki! - 29/10/2017