trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 21/07/2014

Frétt eða fimbulfamb?

Fyrir tæpum þremur mánuðum birtist frétt í Morgunblaðinu um að ríkinu hefði verið boðið að kaupa upplýsingar um hvaða Íslendingar hefur svikið fé undan skatti og komið því fyrir í skattaskjólum heimsins. Fréttin fór lágt; var einn dag í Mogganum, heyrðist vart í útvarpi eða sjónvarpi og nam varla staðar á netmiðlum nema Herðubreið þar sem útlegging á henni var á forsíðu í tvo eða þrjá daga undir fyrirsögninni Þjóðfar í paradís.

Þegar fréttin birtist spurði Morgunblaðið fjármálaráðherra um kaup á upplýsingunum, sem margar þjóðir höfðu þegar gert, og hafði eftir honum sem svar að ekkert væri vitað hvað í gögnunum væri. Hann bætti því við að það væri „ekki gott fordæmi að menn geti gert sér það að féþúfu að selja gögn sem jafnvel er komist yfir með ólögmætum hætti og hefur verið aflað fyrir skattfé í öðrum ríkjum og gæti í kjölfarið torveldað samskipti Íslands við þau ríki sem eiga að halda utan um slíkar upplýsingar.“ Ráðherrann vill sem sagt ekki að það sé upplýst hvaða Íslendingar stálu hve mest undan skatti og hversu miklu. Þjófarnir eiga að fá frið. Það á að fara vel um þá í paradís.

Samkvæmt örfrétt í Vísi.is í morgun, 21. júlí , skýrði Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra frá því í viðtali í útvarpsþættinum á Sprengisandi að ríkisstjórnin muni halda áfram að lækka skatta. Þetta er athyglisverð yfirlýsing. Hún staðfestir að ríkissjóður ætlar ekki að kaupa upplýsingar um skattsvikaranna og sækja réttmætar tekjur sínar í felusjóði þjófanna. Þeir eiga að vera skattfrjálsir. Ríkissjóður þarf ekki heldur frekari tekjur en hann hefur nú þegar. Þar er sum sé nóg fé til þess að greiða niður erlendar skuldir og borga vexti af eftirstöðvunum. Samkvæmt sömu orðum er þar líka nóg fé til þess að reka almannatryggingakerfið, sjúkráhúsin, menntakerfið, drífa aðra opinbera þjónustu, flytja Fiskistofu til Akureyrar og borga okurleigu undir hana til vildarvina.

Yfirlýsingin merkir líka að það eigi ekki að bæta heilbrigðiskerfið, menntakerfið og almennatryggingar. Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að þessar grunnstoðir samfélagsins hafi þegar úr nógu að spila. Almenningur veit hins vegar að svo er ekki, veit að þær eru að hruni komnar. Annað hvort hefur ríkisstjórnin ekki hugmynd um það, lætur sér á sama standa eða ætlar að láta stoðirnar grotna áfram og hrynja. Þetta er hrottalegt. Og óhugnanlegt.

En

Það er líka rétt að rifja það upp að þarna er á ferðinni eilífðar kosningaslagorð Sjálfstæðisflokksins: Að lækka skatta. Og þá er ekki ósanngjarnt að spurt sé: Er að draga til tíðinda? Er stjórnarsamstarfið að gliðna og kosningabarátta að hefjast? En svo gæti þetta einungis verið innihaldslaust blaður í ráðherranum. Það væri þá ekki nýlunda.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
2,663