Forgangur
Það þarf ekki augu verkfræðings til þess að sjá að húsakynni Landsspítalans eru óhagkvæm fyrir nútíma sjúkrahúsrekstur og að þau eru að niðurlotum komin. Það þarf ekki augu sérfræðings til þess að vita að mörg tæki spítalans eru úrelt, að starfsfólkið er langþreytt vegna vinnu, að það þarf að bæta þar úr á öllum sviðum til þess að halda sjúkráhúsinu gangandi. Heilsugæsla er ein af grunnstoðum íslensks menningarsamfélags.
En það eru ekki til peningar í þetta, segir ríkisstjórnin.
Nú er nýlokið leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins. Þetta var stríðsæsingafundur. Hann sóttu tveir íslenskir framsóknarmenn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Þar tilkynnti forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld ætli að efla þátttöku sína og framlög í þágu eigin varna og Atlantshafsbandalagsins. Þetta á að gera með því að fjölga borgaralegum sérfræðingum í störfum bandalagsins og auka fjárframlög í einstök verkefni þess, þar á meðal til að kinda undir ófriðarbál í Úkraínu með stríðsrekstur í huga.
Það eru til peningar í þetta, segir forsætisráðherra í nafni ríkisstjórnarinnar.