Fimmþúsundkallinn
Ég horfði á „góðlátlegt viðtal“ á stöð 2 á föstudaginn og sá matinn sem forsætisráðherrann boraði í hádeginu: Feitt két og baunir og uppstúf og súpu og tvær pulsur með öllu og ís í eftirrétt.
Vegna þess að ríkisstjórnin hefur reiknað það út að hver máltíð kosti einstaklinginn 248 krónur fékk ég mér göngutúr um Skólavörðustíginn í leit að samskonar eða svipuðum hádegismat og ráðherrann fékk sér á skjánum til þess að komast að því hvort kostnaðaráætlun stjórnarinnar stæðist ekki alveg áreiðanlega því að ráðherrarnir eru með svo marga aðstoðarmenn sem eru góðir í reikningi. Niðurstaðan var þessi:
(Feitt) két með uppstúf (ekkigrænum baunum) 2.490 krónur. (Hvorki dýrasti né ódýrasti skammtur.)
Súpa (líkust því sem ráðherrann spændi í sig) 1.490 krónur.
Tvær pylsur með öllu 2 x 360 = 720 krónur.
Ís í brauðformi (stór, án litarefna og skrauts) 500 krónur.
Sum sé: Eitt hádegi, ein rífleg kviðfylli, krónur 5.200. Og dagurinn varla hálfnaður. Eigi að síður eiga 248 krónur að duga okkur, almennum skattgreiðendum, fyrir mat og næringu allan liðlangan daginn. Nema ég hafi misskilið þetta og maður eigi að geta borðað tvisvar á dag. Þá hefði hver og einn 496 krónur til ráðstöfunar. Það er huggun hungri gegn.
Eftir skrift:
Samkvæmt Vísi.is eru komnar fram nýjar tölur um það hvað maðurinn má eyða: Þar segir, „samkvæmt viðmiðunum hefur hver einstaklingur í fjögurra manna fjölskyldu 750 krónur til ráðstöfunar til matarkaupa á dag“. Þetta er jákvætt. Nægir fyrir „tveimur með öllu“ og 30 krónur í sparnað. Þetta er allt að lagast.