trusted online casino malaysia
Svanfríður Jónasdóttir 15/07/2014

Eru landsbyggðirnar minnihlutahópur?

Í 65. gr. gildandi stjórnarskrár lýðveldisins segir: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Þarna eru þeir taldir upp hverra réttindi er talin ástæða til að gæta sérstaklega að, þeir sem oft eru skilgreindir sem minnihlutahópar, þeir sem gæta þarf að hverra hlutur verði ekki fyrir borð borinn, jafnvel að viðhafa einhverskonar jákvæðra mismunun til að tryggja jafnstöðu.

Í því frv. til nýrra stjórnskipunarlaga frá Stjórnlagaráði sem Alþingi vann með veturinn 2012- 13 var m.a. búið að bæta því við að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar vegna búsetu! Það er nýtt og ástæða til að gefa gaum að þessari breytingu. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar orrahríðin var sem áköfust vegna yfirlýsinga um flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu, frá Hafnarfirði til Akureyrar.

Þegar við veltum þessu með búsetuna fyrir okkur er nefnilega áhugavert að velta því jafnframt fyrir sér hvort landsbyggðirnar séu þá minnihlutahópur. Og hvað er það þá sem einkennir meinta minnihlutahópa eins og þá sem taldir eru upp í 65. gr. stjórnarskrárinnar. Og ef niðurstaðan er sú að þær séu minnihlutahópur, eða beri mörg einkenni minnihlutahóps, hvort þau meðul sem aðrir minnihlutahópar hafa beitt dugi þeim þá líka til árangurs.

Á sínum tíma buðu færri af landsbyggðunum sig fram til stjórnlagaþings en af höfuðborgarsvæðinu. Rétt eins og konurnar; það vill brenna við að færri bjóði sig fram, eða, það var einkum þannig áður en þær tóku til sinna ráða og fóru að trúa því að þær hefðu líka eitthvað til málanna að leggja. Og eftir að tillögur stjórnlagaráðs lágu fyrir hófust deilur um það hvort tillögurnar væru ,,landsbyggðinni og minnihlutahópum í óhag.“

Elínborg Sturludóttir, sóknarprestur í Stafholti hefur velt því fyrir sér í bloggi hvort landsbyggðirnar séu minnihlutahópur og vísar þar til sérkennilegra spurninga sem hún hefur fengið um veru sína utan höfuðborgarsvæðisins, en hún er alin upp í Stykkishólmi og nú prestur í Borgarfirði. Á grundvelli þess setur hún fram þá staðhæfingu að síðustu ár hafi meðvitað og ómeðvitað verið unnið að því að brjóta niður sjálfsvirðingu fólks á landsyggðinni með niðrandi tali og fordómum í þeirra garð. Og hún bætir við: Ef þessi staðhæfing er rétt hjá mér eru fordómarnir sem eru ríkjandi í garð fólks af landsbyggðinni ískyggilega áþekkir þeim sem aðrir minnihlutahópar, s.s. gyðingar, blökkumenn, konur og samkynhneigðir hafa þurft að sitja undir í gegnum tíðina.“
Sjálfmynd landsbyggðafólks skiptir sannarlega máli þegar það skilgreinum stöðu sína og rétt og gerir kröfur fyrir hönd landsbyggðanna. En hvað er það þá sem einkennir minnihlutahópa. Hér er gagnlegt að nota þær pælingar sem notaðar hafa verið um konur/karla og ef á þarf að halda þær leiðir sem minnihlutahópurinn í því sambandi hefur kosið að fara, því þær hafa verið öðrum minnihlutahópum fyrirmynd.

Grundvöllur kynjamismununar er sannfæring um að annað kynið sé á einhvern hátt æðra eða betra en hitt. Sannarlega var það þannig og er enn víða um heim. Getur það átt við um landsbyggðirnar í samanburði við höfuðborgarsvæðið? Berum þetta saman og skoðum nokkrar spurningar/atriði sem e.t.v varpa ljósi á viðfangsefnið:
Er jafnstaða eða er mismunun í gangi? Hvar liggur valdið? Er launamunur? Hvar eru stjórnunarstöðurnar; áhrifastöðurnar? Hvernig er hlutfall í nefndum og ráðum? Hvað með aðgang að landsfjölmiðlum? Jafnvel RÚV? Eru fréttir af landsbyggðunum öðruvísi en frá höfuðborgavæðinu? Eru landsbyggðirnar og íbúar þeirra e.t.v. í hlutverki þeirra sem í sumum ríkjum eru skilgreindir sem innfæddir þegar ráðum er ráðið.

Það er óþægilega auðvelt að setja landsbyggðirnar inn í þetta skapalón og fá vonda niðurstöðu. Þær eru valdaminni, fátækari, launalægri, menntunarstigið er lægra, fólkið þar er síður í stjórnunarstöðum á landsvísu, þær eru allt of oft í stöðu þolandans, og fjölmiðlar á landsvísu virðast ekki beita sama fréttamati á landsbyggðir og höfuðborgarsvæði. Vorið 2011 skilaði Ingveldur Geirsdóttir meistaraprófsritgerð sinni: Er landsbyggðin í fréttum? og komst að þeirri niðurstöðu að Íslandskort fjölmiðlaheimsins er suðvesturhornið. M.a. er fjallað um fréttnæmi og hvað hefur áhrif á fréttaval, en vald og nálægð virðast vera stórir áhrifaþættir í því hvað ratar í fréttir. Þá kom fram að við fyrstu sýn virtust fréttir af landsbyggðinni annað hvort fjalla um gjaldþrot vinnustaða eða undarlegt fólk, svokallaðar furðufréttir.
Áberandi var hversu aftarlega í sjónvarpsfréttatímanum þær fréttir lentu sem unnar voru á landsbyggðinni (RÚV). Þær fremstu náðu ekki að vera nema áttunda frétt alla þá viku sem rannsókn Ingveldar stóð yfir en fréttatíminn samanstendur yfirleitt af um fjórtán til sextán fréttum, algengast virðist vera að tvær til þrjár þeirra séu af landsbyggðinni en þær voru frá núll upp í fjórar þessa viku í mars. Stundum voru allar öftustu fréttirnar landsbyggðarfréttir. Niðurstöður Ingveldar minna líka óþægilega á niðurstöður kannana á stöðu kvenna gagnvart fjölmiðlum!

Þetta er staðan. Viljum við hafa þetta svona? Ekki m.v. tillögur stjórnlagaráðs sem nutu umtalsverðs stuðnings. Og hvað er þá til ráða? Það er efni í aðra grein.

Flokkun : Pistlar
1,603