trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 01/05/2017

Er jafnaðarstefnan dauð?

Rós

1. maí hefur alltaf verið tilefni til fagnaðar, en í dag er rok og rigning í hjörtum jafnaðarmanna. Víða um hinn vestræna heim eru jafnaðarmenn að tapa fylgi. Nú síðast í Frakklandi hlaut frambjóðandi Sósialistaflokksins í forsetakosningum 6 % atkvæða. Nýlega hlaut verkamannaflokkurinn í Hollandi svipuð örlög (5,7%). Jafnaðarmenn í Svíþjóð, sem höfðu aldrei fengið minna en 30% fylgi síðan 1921, mældust nýlega með 21% fylgi, og Demókratar í Bandaríkjunum töpuðu fyrir versta forsetaframbjóðanda í sögu Bandarískra stjórnmála. Nú síðast á Íslandi fékk Samfylkingin versta útkomu úr kosningum síðan hún var stofnuð, og fréttir berast nú af enn einum klofningi á vinsti vængnum, með stofnun Sosíalistaflokksins að frumkvæði Gunnars Smára Egilssonar.

Allt ber að sama brunni: jafnaðarmenn víða um hinn vestræna heim eru í djúpri tilvistarkreppu og eru að missa sína tryggustu kjósendur, verkamennina, í hendur lýðskrumara, hvort sem um er að ræða öfga-hægri flokkar í Norður-Evrópu eða öfga-vinstrið í Suður-Evrópu.

En hvað veldur? Er þetta afleiðing af misheppnaðri stefnu þessara flokka eða er þetta óhjákvæmileg söguleg þróun?

Í dag er 1. maí. Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Nánast 130 ár eru liðin síðan sá dagur var fyrst haldinn hátíðlegan árið 1889, þegar fulltrúar alþjóðasamtaka kommúnista hittust á ráðstefnu í París. Það var gert í tilefni af því að hundrað ár væru liðin frá því að Parísarbúar tóku Bastilluna.

Þá var gullöld sósíalismans framundan. Sú pólítísk hreyfing átti rætur sínar að rekja í iðnvæðingunni, þegar nýr og fjölmennur samfélagshópur gerði sér grein fyrir því að með samvinnu, samstöðu og skipulagðri baráttu gæti hann náð fram umtalsverðar samfélagsbreytingar. Sósialisminn á Vesturlöndum var reyndar lengi klofinn í tvennt: annars vegar voru kommúnistarnir sem aðhyllust róttækum breytingum og jafnvel vopnaðri byltingu, og hins vegar hinir hófsamari sósial-demókratar sem aðhyllust samfélagslegum umbótum innan kapitalíska kerfisins með áherslu á lýðræðislegum aðferðum. Þessar tvær fylkingar elduðu gjarnan grátt silfur en byggðu þó á sama grunninum: uppgangi verkamannastéttarinnar. Kommúnisminn átti hins vegar undir högg að sækja eftir fall Sovíetríkjanna og eftir það áttu sósíaldemókratar meira og minna sviðið.

En á síðustum árátugum hafa Jafnaðarmannaflokkar tapað fylgi, og gjarnan verið gagnrýndir fyrir að stefna í sífellt meira mæli til hægri, og jafnvel daðra við nýfrjálshyggjuna, með Tony Blair og Bill Clinton í broddi fylkingar. „Miðjumoð“ eins og Gunnar Smári kallar það. Sú gagnrýni á fullkomlega rétt á sér, en það sem gagnrýnendur virðast oft horfa framhjá er að þessi stefnubreyting var að miklu leyti sjálfsbjargarviðleitni frekar en meðvituð svik á upprunalegum áherslum hreyfingarinnar.

Samfélagsgerðin í dag er einfaldlega allt öðruvísi en hún var þegar sósialdemókrata-flokkarnir voru stofnaðir. Þá var láglaunastéttin afar fjölmenn. Hún var að mestu eignalaus, hafði því ekkert að tapa og hræddist ekki róttækum aðgerðum. Hún var sæmilega heilsteypt og hafði auðvelt með að sameinast. Launþegahreyfingin varð því öflug og áhrifamikil. Jafnaðarmannaflokkarnir voru límið sem fékk verkamannastétt og lægri millistétt til að hreyfast í takt og berjast fyrir betri lífskjör og öflugt velferðarkerfi fyrir alla, óháð efnahag. Þetta bandalag tveggja samfélagshópa var pólítíska aflið sem færði okkur norræna velferðarkerfið.

En límið heldur ekki lengur. Það hefur reynst æ erfiðara að sameina þessa tvo hópa. Fyrir því er einföld ástæða: stór hluti verkamannastéttarninnar hefur efnast, þökk sé þessum félagslegum framförum, og um leið hefur hún fjarlægst verkalýðshreyfingunni. Hún er orðin að millistétt og upplifir sig ekki lengur sem alþýða. Gamaldags tal um „við alþýðan“ á móti „þeim kapitalistunum“ bítur ekki lengur í eyra þessarar stéttar, vegna þess að sjálfur meðal-Jón er orðinn kapítalisti: hann á hús, bíl, flatskjá og krómhúðað gasgrill með innbyggðum gaskveikjara og bláu Led-ljósi. Það eru breyttir tímar þegar Bubbi Morthens, sjálft alþýðuskáldið, gerist spákaupmaður fyrir 160 milljónir á verðbréfamarkaðnum. Það eru breyttir tímar þegar sjálf launþegahreyfingin, í gegnum lífeyrisþjóðakerfið, er orðin einn helsti kapítalisti á íslenskum fjárfestingarmarkaðnum. Og hvernig ætlar Gunnar Smári að berja á „vondu kapitalistana“ þegar hann hagar sér sjálfur eins og hinn týpiski ósvífni kapítalisti, stofnandi ehf félög hér og þar, sem safna að sér skuldum, en hleypur svo á brott og skilur launþega eftir í súpunni um leið og spilaborgin hrynur?

Hvernig er hægt að sigrast á kapitalistunum þegar allir eru orðnir kapitalistar, meira að segja anti-kapitalistarnir? Að því leyti hefur jafnaðarmannahreyfingin orðið fórnarlamb eigins velgengnis: sigrar hennar voru um leið hennar dauði.

Tuttugasta og fyrsta öldin er öld millistéttarinnar. Láglaunastéttin er orðinn lítill minnihluti, og getur aldrei aftur orðið grunnur að öflugri stjórnmálahreyfingu, nema sem hluti af miklu stærra bandalagi. Það var auðvelt að sannfæra eignalausa verkalýðurinn um að taka þátt í baráttunni fyrir félagslegt réttlæti, vegna þess að hann hafði beina fjárhagslega hagsmuni af þeirri baráttu. En öðru máli gegnir um hina allsráðandi millistétt sem ræður nú ríkjum: hún hefur mjög takmarkaðan áhuga á félagslegt réttlæti vegna þess að hún hagnast lítið sem ekkert á því, og upplifir vinstri flokka í æ meira mæli sem afskiptasama skattpínara. Í orði eru allir jafnaðarmenn, allir vilja bæta hag þeirra lægst settu, útrýma fátækt og efla velferðarkerfið, en þegar í kjörklefann er komið vill enginn borga brúsann, og menn kjósa með buddunni, falla fyrir peningagjöfum hægri flokka í formi lægri skatta eða „skuldaleiðréttingar“ sem gagnast fyrst og fremst milli- og efri stéttum.

Þetta er vandi jafnaðarmanna í dag: bilið á milli láglaunstéttar og millistéttar hefur breikkað svo, að nú er orðið miklu erfiðara að sameina þessa tvo ólíku samfélagshópa vegna ólíkra hagsmuna, menningar og sjálfsmyndar. Þetta finna klókir stjórnmálamenn, og freistast til þess að gefast upp á verkalýðsarminum og einbeita sér í staðinn að hinni menntaðri, efnaðri og fjölmennu millistétt, með þeim afleiðingum að láglaunastéttin verður sem munaðarlaust barn, auðveld bráð fyrir lýðskrumshrægamma á hægri vængnum sem boða nostalgíu, þjóðernishyggju og einangrunarstefnu með einræðistilhneygingu, eins og raunin varð í Bandaríkjunum.

Ef jafnaðarmenn halla sér hins vegar til vinstri og einbeita sér að láglaunastéttinni og hinum lægst settu, er það ávísun á bjórfylgi, vegna þess að samúð með þeim hópi er af skornum skammti hjá millistéttinni.

Kannski er niðurstaðan sú að baráttan fyrir réttlátara samfélag verður einfaldega aldrei aftur eins auðveld og hún var þegar alþýðan var allslaus og saklaus, og við það verða jafnaðarmenn að sættast. Í staðinn verða þeir að beita meiri klókindum og finna nýjar leiðir til að sameina ólíka þjóðfélagshópa, stofna til nýrra bandalaga og freista þess að sannfæra millistéttina um að ávinningurinn af því að byggja upp réttlátara samfélag er miklu meiri en bara fjárhagslegur. Það er hægara sagt en gert, í heimi þar sem tilfinningar og peningar hafa miklu meiri áhrif á afstöðu kjósenda heldur en rök sem byggjast á staðreyndum.

En enginn sagði nokkurn tímann að jafnaðarmennska væri dans á rósum.

Umfram allt skulum við að forðast lýðskrum. Lýðskrum er oft nefnt í sambandi við öfga-hægri flokka sem hafa skorað hátt víða í vestræna heiminum eftir efnahagskreppunni 2008. En lýðskrum er ekki bundið við öfga-hægrið með sinni útlendingaandúð. Lýðskrum er líka hætta á vinstri vængnum.

Í stuttu máli eru þeir lýðskrumarar sem boða einföld lausn við flókin vandamál. Vandi sósíaldemókrata er flókinn og margþættur, og við hann er engin einföld lausn, sérstaklega ekki sú að stofna nýjan sósíalistaflokk og ferðast með honum 100 ár aftur í tímann. Gullöld verkalýðsbaráttunar tilheyrir einfaldlega fortíðinni. Málflutingur sem byggist á nostalgíu og endurvakningu á 19. aldar sósíalisma er engin lausn.

Það er bara vinsti-lýðskrum.

 

Flokkun : Pistlar
1,317