trusted online casino malaysia
Ritstjórn 30/03/2014

Ekkert samfélag, bara hagsmunir?

Eftir Ásdísi Thoroddsen

Kvöld eitt seint á níunda áratugnum grúfði ég mig með vinum mínum yfir fréttamyndir í dagblaði, þær voru frá Torgi hins himneska friðar í Kína, af stúdentum sitjandi á skriðdrekum, veifandi fánum, hetjumyndir af ungu fólki sem krafðist lýðræðis og það var svo augljóst að þetta var glötuð barátta, að þeir áttu við ofurefli að etja.Ásdís Thoroddsen

Þá segir vinkona mín ein við borðið þar sem við sitjum: „Gætuð þið hugsað ykkur að deyja fyrir fulltrúalýðræðið?“ Við hin fórum að hlæja.

Það fór sem fór með stúdentana á torginu friðsæla, en spurningin grófst í hugann og breytti sýn. Alla áratugina síðan vinkonan skellti fram brandaranum mæti ég á kjörstað, alvarleg og glöð í senn, ekki laus við spaugilegan hátíðleika.

Einu sinni á fjögurra ára fresti veljum við um þá flokka sem ákveða fyrir okkar hönd hvað verður um okkur. Við höfum aðeins við eitt að styðjast í þessu afdrifaríka vali og það eru loforðin sem okkur eru gefin áður en gengið er til atkvæða.

Þeim ráðherrum sem hreppa valdastóla af sínum flokki ber að hafa í huga þegar þeir fá sér þar sæti að þeir eru samfélagsþjónar, sitjandi þar til að framfylgja því, sem þeir lofuðu okkur.

Víða annars staðar þar sem lýðræðið er þroskaðra en hjá okkur, fá kjósendur að styðjast við fleiri breytur til að auðvelda þeim valið; flokkar gefa út yfirlýsingar, með hvaða öðrum flokkum þeim hugnast að starfa að loknum kosningum og hverjum ekki; þeir ganga bundnir til kosninga. En því er ekki að heilsa hér á landi og því veit kjósandi í raun ekki hvað hann er að kjósa. Þeim mun mikilvægara er fyrir hinn íslenska kjósanda að geta treyst sértækum loforðum stjórnmálamanna sem gefin eru fyrir kosningar.

Þeir sem nú sitja í ráðherradómi hlutu þann sess vegna mjög sértækra loforða, og eitt þeirra var, að kosið yrði um framhald aðildarviðræðna við Evrópubandalagið. Það ætla þeir sér ekki að efna og það eru tær svik við umbjóðendur þeirra.

Nú gætu sumir sagt: „Hvorki kaustu Sjálfstæðisflokk né Framsókn. Þér ætti að vera slétt sama hvort kjósendur þeirra flokka séu sviknir eða ekki.“ En það er röng afstaða, því það eitt að kjósendur séu hafðir að háði og spotti, í hvaða flokki sem þeir standa, er hættulegt lýðræðinu, sáttmálanum, sem samfélag okkar byggir á. Niðurstaðan er siðrof.

Hvers vegna ætla þeir svíkja loforð sín, ráðherrarnir? Jú, þeir eru andstæðingar Evrópubandalagsins og telja það ómögulegt að sætta sig við niðurstöður kosninga, verði þær á þá lund, að sótt verði um aðild. Óásættanlegt, segja þeir, jafnvel þótt niðurstaðan leiddi aðeins til þess að alþjóð fengi að lesa samninginn til að kjósa um hann síðar.

Þessi rök lýsa fullkominni fyrirlitningu á lýðræðinu. Að ekki sé hægt að leyfa kosningu af því að niðurstaðan gæti orðið ósamhljóða vilja þeirra. Ef það stendur þvert í þeim að framfylgja úrslitum kosninga, þá stigi þeir til hliðar.

Ég er ein þeirra sem hafa ekki tekið afstöðu til Evrópubandalagsins og það er með vilja gert, því að það er prinsípmál að ég sem kjósandi viti um hvað ég kýs. Þess vegna var ég hlynnt því að sótt yrði um aðild. Ég get hins vegar sætt mig við það, að aðildarumsókn sé borin undir þjóðaratkvæði, því að þegar maður býr við lýðræði þá lítur maður til óska þeirra sem eru manni ósammála og reynir að finna málamiðlun. En með öllu óþolandi er að klíka valdamanna ætli að keyra í gegn vilja sinn með svikum. Með öðrum orðum ætla þeir að að taka af okkur borgurum ómakið að kjósa um tilvist okkar og eitt mikilvægasta málið í þessum heimshluta. Með slíku háttalagi segjast þeir verja hagsmuni Íslendinga. En lítum á gerðir þeirra: Valdaklíkur og klúbbar koma sínum mönnum að í æðstu embætti og ryðja hindrunum úr vegi sem eru þeirra eigin hagsmunum til trafala. Þeir láta sem þeir hafi aðeins skyldum að gegna við landsfund síns flokks. Þetta er svo rangt. Þeir hafa skyldum að gegna við allt samfélagið og sáttmálann sem við beygjum okkur undir, lýðræðið. Ég finn óþef af gerræði og valdníðslu.

„There is no such thing as society“, sagði Margaret Thatcher einn af andlegum leiðtogum þeirra afla sem fóru með forystu á Íslandi síðustu tvo áratugi fyrir efnahagshrun, afla sem eru nú aftur komin til valda. „Það er ekki til neitt samfélag“, er bein þýðing á orðum hennar. Er það hugsun lituð af þessum orðum sem kallar kjósendur, „hagsmunaaðila“?

Án samfélags eru engir siðir, þá er gengið bak orða sinna eða orðin afbökuð, þá eru kjósendur sviknir, þá ráða ríkir hagsmunaaðilar á bak við tjöldin. Við erum hér saman komin til þess að ítreka það að til sé nokkuð sem heitir samfélag manna; þar sem orð skulu standa og lýðræðið virt.

Við sem borgarar krefjumst þess að ráðherrar ríkisstjórnar haldi orð sín og efni til þjóðaratkvæðis um framhald aðildarviðræðna á kjörtímabilinu.

Ræða flutt á samstöðufundi á Austurvelli, 29. mars 2014

1,605