trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 18/04/2014

„Ég er ekki að þessu að gamni mínu“: Persónulegt ferðalag með Helga Hóseassyni (III)

Eftir Karl Th. BirgissonHelgi Hó

Viðtalið við Helga fyrir Skólablaðið haustið 1981 var það fyrsta sem ég skrifaði sem kalla mætti blaðamennsku. Fyrirsögnin var: „Ég er ekki að þessu að gamni mínu.“

Þar var saga hans rakin í stórum dráttum, en þar komu einnig fram í fyrsta skipti – jafnvel eina skiptið, svo ég viti – sögur frá yngri árum Helga sem varpa ljósi á skaphöfn hans.

Hann rakti fyrir mér tvær sögur, sem hann sagði geðlækni hafa haft til marks um að hann væri of bilaður að sæta ákæru.

Sú fyrri var frá Eiðaskóla þar sem hann var við smíðanám. Seinni vetur sinn þar var hann jafnframt smíðakennari, líklega átján ára gamall, og lenti í útistöðum við skólastjórann. Sá átaldi Helga fyrir að hafa gefið drengjunum frí úr tíma – þótt það skyldi bætt upp síðar – til að horfa á stúlkurnar í skólanum keppa í handbolta.

Skólastjórinn hafði líka neitað Helga um greiðslu vegna viðhaldsverkefna á skólahúsinu sem Helgi tók að sér. Loks sakaði hann Helga um að fara of snemma úr tímum.

Þeim lenti saman. Skólastjórinn vísaði Helga út af tveggja manna fundi, en „ég var rétt kominn út á hlað þegar hann stakk sínum svarta hausi út um einn gluggann á skólanum og sagði mér að koma inn til sín.

Ég minnti hann á, að hann væri rétt búinn að reka mig út, og hefði fyrirgert rétti sínum til að bjóða mér inn aftur.“

Helgi var ekki endilega sáttfús maður.

Á fundi í skólanum sló í brýnu, Helgi bauð skólastjóranum að „éta þessa lygi ofan í sig,“ en þá vildi sá ekkert kannast við ummælin. Átökunum lauk með því að Helgi sagði starfi sínu lausu og fór frá Eiðum.

Þaðan lá leiðin til Akureyrar þar sem hann hugðist ljúka smíðanáminu, en aftur kom til ágreinings.

Þar mislíkaði Helga að „kennarar gengu reykjandi um ganga og einn þeirra var iðulega undir áhrifum áfengis við kennslu.“ Hann vakti máls á þessu á fundi í bindindisfélagi skólans, en gagnrýni hans var ekki vel tekið.

Eftir nokkra rekistefnu ákvað skólanefndin að vísa Helga úr skóla. Þá fór hann til Reykjavíkur og lauk námi sínu þar.

En „þessi tvö atriði eru meðal þeirra, sem talin eru sönnun þess, að ég sé ekkert smáklikkaður,“ sagði Helgi í viðtalinu. „Gott og vel, sé ég klikkaður. En ég vildi gjarna að einhverjir fleiri vottuðu það en einn strákdjöfull á Kleppi, sem umgengst meira og minna gallað fólk alla daga.“

Ég spurði hvort hann hygðist herða baráttu sína með einhverjum hætti:

„ – Ég hef nú látið þau orð falla að ég myndi forðast í lengstu lög að nota skotvopn…

– Á fólk?

– Já, á ríó, því það er ekki vopn berandi á svoleiðis skrímsl. Í gamla daga skirrðust heiðarlegir víkingar við að bera vopn á vanmetakindur. Þær voru barðar grjóti.“

Þetta voru mannalæti og bara í nösunum á Helga. Hann hefði aldrei beitt ofbeldi eða meitt fólk. Það var svo víðs fjarri öllu því sem Helgi var.

Ég var ánægður með viðtalið í Skólablaðinu, en það dró óvæntan dilk á eftir sér í skólanum sjálfum. Þótt ég væri ritstjóri var ábyrgðarmaður blaðsins í blaðhausnum skráður Jón S. Guðmundsson íslenzkukennari – Jón Gúmm – góðleg manneskja og ágætur lærifaðir.

Þetta var gömul hefð og ég hafði aldrei leitt hugann að þessu formsatriði, enda var okkur treyst fyrir blaðinu án þess að neinn fylgdist sérstaklega með því.

Ekki var blaðið samt fyrr komið út en Guðni rektor kallaði mig upp á skrifstofu og tilkynnti mér að Jón Gúmm hefði sagt af sér sem ábyrgðarmaður blaðsins. „Yður tókst að ofbjóða honum, Kalli,“ sagði rektor.

Mér brá, ég gruflaði í hratt í hausnum á mér, en fann ekkert sem ég hafði gert af mér og spurði: „Hvernig þá?“

„Nú, með þessari viðurstyggilegu teikningu sem þér ákváðuð að birta í Skólablaðinu sem hann ber ábyrgð á,“ sagði Guðni, en ég sá á glottinu að honum fannst þessi teikning alls ekkert viðurstyggileg. Sem hún var ekki. Hann var bara að sinna sínu hlutverki og tilkynna mér þetta.

SmollinkríunGuðni hafði þann veikleika að þegar hann þéraði en sagði svo „Kalli“ í sömu setningu, þá vissi maður að honum var ekki mikil alvara.

Teikningin var eftir Helga og tekin beint úr bók hans, Ríó og rögn þess. Hún sýnir getnað Jesúsar, þ.e. Maríu á bakinu og heilagan anda í líki hvítrar dúfu í klofinu á henni. Við dyrnar stendur engill, sem varar þau við: „Flýtið ykkur, Jósep er að koma.“

Mér fannst teikningin fyndin þá og finnst hún það soldið enn, en einkum er hún þó lýsandi fyrir þann praktískt þenkjandi mann, Helga Hóseasson, sem reyndi með henni að gera sér í hugarlund hvernig getnaður Jesúsar hefði eiginlega farið fram.

Jón Gúmm hélt áfram að reyna að kenna mér íslenzku með sinni mjúku rödd, en nefndi afsögn sína eða þetta atvik aldrei einu orði við mig. Sumt þarf ekki að tala um.

———-

Helgi Hó hélt áfram að mótmæla eftir skyrsletturnar. Hann tjargaði Stjórnarráðið og braut tvær rúður í alþingishúsinu, en þó ekki fyrr en hann hafði árið áður málað einn stein á framhlið hússins í rólegheitunum.

„Ég málaði einu sinni einn stein þar,“ sagði hann í Skólablaðinu.

„En landsfeðurnir virða ekki þá háttvísi mína að sletta ekki allt húsið út. Ég gat það alveg eins og að dunda við að mála einn stein. Það tekur ekki nema eins og eina mínútu að sletta alla framhliðina út. En þetta skilja ekki þessi kvikindi. Mér fannst það bara skemmd á húsinu að mála meira.“

Árið 1973 birti Helgi þessa auglýsingu í dagblöðunum:

Mig vantar lögfræðing á ríkisvaldið. Helgi Hóseasson, Skipasundi 48, R.“

Hann vildi líka verða forseti og auglýsti árið 1976 eftir umboðsmönnum í öllum fjórðungum. Það gekk ekki. Og svo framvegis.

Hinn 17. júní 1982 brann gamla kirkjan að Heydölum í Breiðdal til kaldra kola. Hún hafði verið afhelguð 1975 og afhent Þjóðminjasafninu til varðveizlu og fyrirhugaðrar lagfæringar.

Með kirkjunni brunnu altari og prédikunarstóll, líklega jafngamall kirkjunni frá 1856, og klukka frá seinni hluta sautjándu aldar. Þetta var mikið tjón, þótt kirkjan sjálf hafi verið orðin hrörleg.

Kristinn Hóseasson, bróðir Helga, var enn prestur í Heydölum á þessum tíma og svo vildi til að Helgi var staddur þar líka til að sinna ýmsum smíðaverkefnum, og jafnvel að heilsa upp á gamla sveitunga í leiðinni.

Helgi var einn heima á Heydölum þegar bruninn varð – prestshjónin höfðu brugðið sér út í þorp til að fagna þjóðhátíðardeginum ásamt sóknarbörnunum. Ekkert rafmagn var tengt við kirkjuna og því var talið nokkuð víst að kveikt hefði verið í henni.

Í ljósi þessa og forsögunnar var Helgi vitaskuld umsvifalaust handtekinn og færður til yfirheyrslu í Reykjavík. Hver annar var líklegri til að hafa kveikt í gamla guðshúsinu en hann?

Rannsókn málsins leiddi ekkert í ljós og enn er ekki vitað hvernig kviknaði í gömlu kirkjunni að Heydölum. Við yfirheyrslur neitaði Helgi að segja aukatekið orð um málið.

Aðspurður sagðist hann síðar ekkert vita um brunann, en benti þó á að það væri varla utan færis himnafeðganna – með alla þeirra galdrakrafta sem sagt væri frá í Biblíunni – að kveikja í einu kirkjuskrifli austur í Breiðdal.

Í kvæðabókinni Þrælar og himnadraugar (þar sem Helgi skrifar sig Ingibjargarson) er þessi vísa, sem heitir Eimdalaeldur:

Ésú – faðir Satans sjálfs,

sí-étna dauðyflið,

bar frá Himnum bana Hálfs;

brenndi kyrkuskriflið?

Svona gekk þetta hjá Helga og gekk á ýmsu.

En smám saman fjaraði barátta Helga út, líkt og hann sjálfur fjaraði út. Hann festist í eigin hugmyndaheimi og varð eftir því sem árin liðu fangi eigin ranghugmynda, sem hann gæddi þó sinni innri lógík.

Flestir muna hann núna alskeggjaðan og tinandi með skiltin sín á horni Langholtsvegar og Holtavegar. Sum voru um sýklana sem guð skapaði, önnur um Davíð, Dóra og Bush, og enn önnur um reykingar.

———

Haustið 2003 var frumsýnd heimildamyndin Mótmælandi Íslands eftir Þóru Fjeldsted og Jón Karl Helgason. Ég sannfærði mömmu um að við yrðum að sjá þessa mynd, sótti hana og saman fórum við í Regnbogann.

Mömmu fannst erfitt að horfa á myndina og það undraði mig ekki. Þetta var ekki sá Helgi sem við höfðum þekkt; hann var gráfúlskeggjaður og furðulegur. Sérstaklega tók á okkur – og eflaust alla aðra – að horfa á Helga gráta þegar Jóhanna, eiginkona hans, dó. Hann vissi hversu þungbært henni hafði verið allt hans stand í marga áratugi.

Við mamma vissum líka hversu óendanlega þolgóð og umburðarlynd „Jóhanna mamma“ hafði verið. Og hversu mikið Helgi hafði lagt á hana. Oft af hreinni þvermóðsku, hleypidómum og vitleysu.

En myndin var frábær. Um það vorum við mamma sammála.

Ég skrifaði pistil í Fréttablaðið af þessu tilefni, hrósaði myndinni, skammaði ríki og kirkju fyrir meðferðina á Helga, en stillti mig um að skamma hann sjálfan, þótt hann ætti það líka skilið.

Svo fékk ég símtal. Frá Ingibjörgu Guðmundsdóttur (sem sum okkar þekkja bara í samhenginu „BG og Ingibjörg“) sem var stoð og stytta Helga og fjölskyldunnar árum saman.

Hún sagði að Helgi vildi hitta mig. Út af pistlinum í Fréttablaðinu.

Ég hafði skrifstofu í Austurstræti og við mæltum okkur mót. Helgi var orðinn lúinn til gangs, svo að ég fór út og hitti þau í bílnum hjá Ingibjörgu.

Nú voru liðin rúmlega tuttugu ár frá því að ég tók viðtalið við Helga fyrir Skólablaðið og hann gaf mér banana og maltextrakt. Um leið og ég settist í bílinn var hins vegar ljóst að hann hafði ekki hugmynd um að ég væri hann Kalli litli.

Hann heilsaði með sinni venjubundnu kveðju: „Helgi.“ Hann sagði aldrei „sæll“ og ennþá síður „blessaður,“ af skiljanlegum ástæðum.

Við skiptumst á nokkrum setningum, hann var fjarrænn og fámáll, en svo prófaði ég að opna rás:

„Þú manst líklega ekki eftir mér?“ – Nei, svaraði Helgi.

„Ég er sonur hennar Stefaníu í Hamri, og Birgis.“

Það liðu nokkrar sekúndur og svo kviknaði ljós í andliti gamla mannsins.

„Hún Stefanía var góð kona. Og ósköp sem hún var falleg stúlka. Ég var alltaf hrifinn af henni. En hún vildi mig ekki.“

Þetta var satt að segja dálítið sjokk. Hérna sat Helgi Hó, sem ég hafði hitt oftar en ég mundi frá barnæsku og hafði þegið af alls kyns gæzku og mannhlýju, og sagði mér í óspurðum fréttum hvað hann hefði verið skotinn í mömmu minni þegar þau voru ung.

Ég reyndi að vera fullorðinn: „Já, henni er nú líka afskaplega hlýtt til þín ennþá og ykkar allra. Og hún bað fyrir góða kveðju til þín.“

„Ég reyndi svolítið að fá hana til félags við mig, en ég hef líklega verið of gamall fyrir hana. Hún vildi mig aldrei,“ sagði Helgi.

Ég veit ekki hvenær maður verður nógu þroskaður til að finnast svonalagað ekki óþægilegt. Þarna hlustaði ég, fertugur maðurinn, á 84 ára gamlan mann lýsa því hvað hann hefði mikið reynt við mömmu mína, fimm árum yngri.

Þetta var samt svo innilegt, einlægt, hreinskilnislegt og fallegt. Helgi var enda falleg manneskja inn að beini, þrátt fyrir alla sína óþolandi galla.

Og orðalagið lýsti Helga einkar vel: „Reyndi að fá hana til félags við mig.“

Ekki til ástar, kynlífs eða vináttu, eða hvað það nú er sem á að vera forsenda eins hjónabands. Til félags.

Enda kallaði hann Jóhönnu mömmu aldrei eiginkonu sína eða sambýliskonu, heldur alltaf „félaga minn.“

Hann gaf mér bækurnar sínar að skilnaði, rétt eins og hann hafði gert 1981, og kvaddi með kunnuglegu orði:

„Þakk.“

Ég nefndi ummæli Helga við mömmu. Hún fór hjá sér og fussaði. „Sér er nú hver vitleysan.“ Það var ekki rætt frekar.

———-

Það er haustið 2007. Mamma er dáin. Ólíkt útför pabba man ég að ég grét mikið. En aftur skyldi Helgi minna á sig, þótt með öðrum hætti væri. Í erfið kom sumsé bróðir hans, séra Kristinn Hóseasson í Heydölum, þá rúmlega níræður. Einn Breiðdælingur að fylgja öðrum síðustu metrana.

Séra Kristinn var orðinn hrumur, var í hjólastól, handahreyfingar veiklulegar. Ég þakkaði honum fyrir komuna, en miklu lengra náði það samtal ekki.

———-

Helgi lézt haustið 2009, rétt að verða níræður. Útförin fór fram í litlum sal utan umráðasvæðis kirkjunnar, líkið var brennt og öskunni dreift á afrétti upp af Breiðdal, eftir óskum hans sjálfs.

Hann hafði, af ýmsum innbyggðum göllum sínum en líka mjög sterkri réttlætiskennd, ekki gert sér lífið auðvelt. Og gert flestum sínum nánustu lífið mjög erfitt.

Helgi var í raun og sann klikkaður í öllum venjulegum skilningi þess orðs – það var ekki nokkur leið að eiga við hann orðastað um neitt annað en hans eigin hugmyndaheim, sem laut öðrum lögmálum en okkar hinna flestra.

En hann var líka góð manneskja og hann hafði góðan málstað að verja.

Þess vegna var hann ekki að þessu að gamni sínu.

(Fyrsti hluti þessarar greinar er hér, annar hlutinn hér.)

1,867