trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 11/04/2014

„Ég er ekki að þessu að gamni mínu“: Persónulegt ferðalag með Helga Hóseassyni (II)

Eftir Karl Th. BirgissonHelgi Hó

Það liðu tvö ár frá árangurslausum „sáttafundi“ í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þangað til Helgi fór niður í bæjardóm með stefnu á hendur biskupnum. Pétur lögfræðingur hafði útbúið stefnuna og önnur málsgögn, en efnislega var hún um að Sigurbjörn biskup yrði, fyrir hönd guðs, skikkaður til að ónýta skírnarsáttmála Helga og sjá til þess að ónýtingin yrði skráð í þjóðskrá.

Til þess að stefnan yrði gefin út þurfti hins vegar áritun dómara og hinn 14. nóvember 1964 settist Helgi fyrir framan Hákon Guðmundsson yfirborgardómara og átti við hann einkar athyglisvert samtal um stefnuna og málavexti.

Hákon undraðist fyrst efni málsins og þótti þetta óþarfa rekistefna út af litlu, en benti Helga líka á að engin lög væru til sem skylduðu biskupinn til að ógilda skírnarsáttmálann. Hér er brot úr samtali þeirra, eftir lýsingu Helga (og með hans stafsetningu), og lýsir kjarnanum í málstað hans fyrr og síðar:

„ [Helgi:] – Í lögum stendur: Forsenda samningsfrelsis er að báðir aðilar standi jafnt að vígi. En jafnvel þótt því sé sleigið föstu, að sanngjarnt sé og löglegt að gera formlegan sáttmála við mig, reifabarn annarsvegar, en hóp af Himnaverum hinsvegar, þá er ekki trúfrelsi í landi, ef landsfeður meina mér að ónýta hann, þegar ég óska þess.

[Hákon:] – Þó þér unið við þenna samning, er hann ekki til trafala fyrir yður á nokkurn hátt; þér getið unnið hvaða vinnu sem vera skal og tekið að yður hvaða starf sem yður sýnist þessvegna, og afkoma yðar er trygg fyrir því, að einginn ýfist við yður, þótt þér séuð játandi þeirra Gvuðs og Ésú.

– Það er meinlegur misskilningur hjá þér að ætla, að mér gángi matarsjónarmið til, að ónýta skírnarsáttmálann; ástæðan er nokkuð nærtækari: Skjalafölsun ríkisvaldsins á mér í þjóðskrá varðar sóma minn; því skoða ég hana ekki út frá þörfum munns og maga, heldur sem siðferðisatriði.

Skráning mín, sem játanda Éhóva gamla Einskítssonar [orðalag Helga í stað „einskis sonar“ og vísar til þess að guð á sér ekkert upphaf], Heilagsanda Éhóvasonar og Ésú hálfbróður hans, er skammarleg fyrir mig; hún sýnir lognar upplýsingar um mig og gefur til kynna að ég sé heimskingi, óupplýstur um einföldustu grundvallaratriði í líffræði, landafræði og algeing náttúrulögmál. […]

– Hvað sem öllu þessu líður, er algerlega vonlaust fyrir yður, að vera að kelka við byshoppinn um þetta, það nær aldrei fram að gánga; því þessi samningur, ef samning skyldi kalla, er ekki bindandi fyrir yður á nokkurn hátt.“

Þessu óvenjulega samtali lauk með því að Hákon yfirborgardómari skrifaði þetta á stefnuna: „Eins og efni þessarar stefnu er háttað, verður hún eigi gefin út.“

Helgi áfrýjaði til hæstaréttar, sem staðfesti ákvörðun bæjarþings skömmu síðar, með þessum rökum: „Lög og landsréttur taka ekki til sakarefnis þess, sem hér liggur fyrir.“

———-

Eftir þetta skrifaði Helgi þingmönnum („þingsetum“), ráðherrum og meira að segja forsetanum mörg bréf og leitaði liðsinnis, en uppskar ýmist höfnun eða þögn, langoftast hið síðarnefnda.

Þegar samanlögð stjórnvöld – forseti, ráðherrar, alþingi og dómstólar – þverskölluðust við kröfu hans, ákvað Helgi að grípa til annarra ráða.

Tækifærið fann hann í messu í dómkirkjunni 16. október 1966. Þar hafði séra Jón Auðuns börn í fermingarundirbúningi og kirkjugestir gengu til altaris, fengu semsagt að innbyrða líkama og blóð Krists, „Ésúslátur“ og „blóð úr skrokki hans.“

Lýsing Helga á atburðum er hér með hans hætti og rétt er að hafa í huga við lesturinn að hann hafði alla ævi ímugust á áfengi og öðrum fíkniefnum. Honum voru líka ofarlega í huga sýklar og hvernig þeir breiddust út:

„Börnin voru glöð og ánægð undir talentutali klárksins og skemmtu sér með grettum, tittlingadrápi og túnguskotum; þau hlökkuðu sýnilega til gleðskapar og gjafa, eftir áfermingu Ésúslátursins. Að líkindum hafa þessi börn smakkað sitt fyrsta brennivín þarna úr könnu Jóns, – brennivín úr búki tvöþúsundára araba!

[…] Börnin átu arabaslátrið þarna úr lúkunum á Jóni; hann tók eitt kjötstykkið milli þumals síns og sleikis [vísifingurs] og stakk því upp í efra op meltingarfæranna á mér, og þannveg handlángaði hann, með berum höndunum, slátrið af Ésú að munni þess næsta, og rak það upp í hann. Ég dró minn skerf strax útúr mér og lét hann koma í lófa minn.

Blóðið úr skrokki Ésú bar Jón fram í stampi stórum og steypti úr honum í aðra minni, sem hvur fékk í hönd, til að hann drykki ofan í sig blóðið; – mannaátshættir og brennivínsbrúkun berstrípuðust þarna.

En ég fór með blóðstampinn og kjötstykkið fram á upphækkaða pallskörina og sýndi viðstöðdum vitnum hvort tveggja; frammi fyrir augliti áhorfenda tók ég úr vasa mínum sorppoka úr glæru plasti, merktan sem slíkan, tók opið sundur, og lét kjötið af arabanum falla ofan í hann; þar á eftir dembdi ég dreyranum úr stampinum.

Til þess að aldagamall óþverrinn ekki seytlaði útúr sorppokanum, tók ég opið á honum saman og knýtti kyrfilega fyrir það með sterkum spottaenda.

Frammi fyrir fólkinu flutti ég þetta ávarp:

Áheyrendur mínir.

Þið eruð vottar þess að ég, Helgi Hóseasson, Skipasundi 48, Reykjavík, kasta blóði og kjöti Ésú í þenna belg, sem er merktur SORP, til staðfestingar því, að ég ónýti hér með skírnarsáttmála þann, sem gerður var fyrir mína hönd, reifabarns, og ég vélaður til að játa á mig 13 ára við þá Éhóva, Ésú og Heilagananda, alla til heimilis á himnum og nú hér staðda. Enn fremur vottið þið, að nafn mitt Helgi, er ekki teingt Himnafeðgum né Heilögumanda, ég er laus allra skuldbindinga við þá og mótmæli þeim mannhaturssjónarmiðum sem eru uppistaða þess endemis kristins dóms.

Þakk fyrir.“

Þar með hafði Helgi Hóeasson einhliða rift skírnarsáttmála sínum, að himnafeðgum og heilögum anda viðstöddum, ef marka mátti boðskap hans og prestsins.

Þetta var hins vegar aðeins eitt skref af mörgum. Það sem á eftir fór er saga af manni sem varð smám saman slæmri þráhyggju að bráð.

———-

Það er kominn menntaskóli. Við höfðum látið kjósa okkur ritnefnd Skólablaðs Menntaskólans í Reykjavík og nú er haustið 1981. Ég var ritstjóri, en með mér voru Hafliði Helgason, Helga Kristín Einarsdóttir, Aðalsteinn Þórarinsson og Halldór Halldórsson. Dóri sagði sig fljótlega úr ritnefndinni út af einhverjum stórmálum sem ég man ekki lengur hver voru. Andrés Magnússon fyllti strax í skarðið enda lipur að skrifa í götin.

Við vorum kosin út á tvennt: Frábært tilboð sem ég fékk í fjölritun blaðsins frá einhverri prentsmiðju á Hverfisgötunni og að gefa út skemmtilegri blöð en fyrri ritnefndir. Þar var reyndar ekki úr neinum söðli að detta.

En kosningaloforð eru kosningaloforð. Þau þarf að efna.

Hugmynd ritstjóra: Tökum viðtal við Helga Hó. Hann er að berjast fyrir prinsippmáli. Okkur finnst það flott, er það ekki? Eru prinsippmál ekki frábær? Ha, krakkar?

Þau hin í ritnefndarskúrnum umluðu, ég hringdi inn í Skipasund, náði tali af Helga og við mæltum okkur mót þar.

Húsið reisulega, sem Helgi hafði byggt fyrir sig og sína, hafði látið mikið á sjá. Það hafði kvarnazt úr tröppunum, múrinn var skellóttur og alls konar spýtnadrasl var á víð og dreif í garðinum.

Jóhanna tók mér vel og hjartanlega eins og fyrr, en það var einhver sorgmæðusvipur í andlitinu. Í honum fólst að hún hefði gjarna viljað að hann Kalli, sem hún hafði fóstrað og haft hjá sér af mikilli elsku, hefði komið í heimsókn af einhverju öðru tilefni.

Ekki bara til að tala við þráablóðið hann Helga um málið sem hafði heltekið huga hans og valdið henni sjálfri svo miklum ama og angri núna í tuttugu ár. Ég fékk kærkomið maltextrakt og banana.

———-

Eftir að Helgi ónýtti skírnarsáttmálann upp á sitt eindæmi í dómkirkjunni haustið 1966 hélt hann áfram að skrifa ráðamönnum af öllum sortum, en nú beindist aðalkrafa hans ekki lengur að kirkjunni heldur ríkinu. Hann vildi fá ógildinguna skráða í þjóðskrána, „einu persónuheimildina um mig.“

Það var orðalag sem hann þrástagaðist á.

Í erindum, sem eru of mörg og margorð til að rekja hér, hamaðist Helgi í Klemenz Tryggvasyni hagstofustjóra og öðrum embættismönnum í því skyni að fá ógildinguna staðfesta í þjóðskrá, rétt eins og skírnin og fermingin höfðu verið skráð þar.

Embættismönnum var vorkunn, en svör kerfisins voru líka aum: Það eru engin eyðublöð, enginn dálkur til að skrifa svonalagað í, þetta hefur aldrei verið gert áður og af hverju ertu með þessi vandræði? Það vita allir núna hvað þér finnst um himnafeðgana og hvaða máli skiptir þá hvað stendur í þjóðskránni?

En Helgi ætlaði ekki að láta „mútuþræla ríós“ kúga sig og undirbjó frekari mótmæli.

Fyrst sendi hann þó ríkisstjórninni, þingmönnum og fleirum svohljóðandi viðvörun í ábyrgðarpósti:

„Yfirlýsing;

– viðvörun til landsfeðra –

Hin opinbera persónuheimild mín í þjóðskránni er vísvitandi fölsuð af íslendska ríkisvaldinu, þar sem það lýgur mig játanda Éhóva, Ésú og Heilagsanda til heimilis á Himnum; meðan svo standa sakir, mun ég mótmæla á ábyrgð þess.

Þetta tilkynnist hér með.“

Mun ég mótmæla á ábyrgð þess. Það varð næsta leiðarstef Helga Hóseassonar.

Sunnudaginn 23. marz 1969 var útvarpsmessa í Langholtskirkju. Þar flutti séra Árelíus Níelsson fermingarbörnum og öðrum fagnaðarerindið um getnað Jésúsar, eða eins og Helgi orðaði það sjálfur:

„Tuttugastaogþriðja marts, fimmþúsundníuhundruðþrjátíuogsjö árum eftir gerð Jarðar, var auglýst samtal milli Árelíuss Níelssonar og Éhóva Einskítssonar, í kyrku á Hálogalandi í Reykavík, um fángið, sem Éhóvi forðum vann þann dag á Maríu Spursdóttur, og gerði á henni Gvuðsspjöll, fyrir Jósep trésmiði, festarkarli hennar.

Ég ákvað að vera þar staðdur, með á letraðan borða.“

Helgi settist á aftasta kirkjubekk og hlýddi á messuna, m.a. þegar Árelíus „tók æfisöguþátt Éhóva gamla og las kaflann, þegar skósveinn hans skilaði til Maríu, sem báðir vissu að var föstnuð Jósepi, að Éhóvi væri á næstu grösum, uppstæltur og albúinn að gera henni barn.

María sat heima, ein síns liðs, og vænti festarkarls síns. Éhóvi galdraði Jósep önnum kafinn við smíði sitt, meðan hann sjálfur smollinkríaði konu hans. Höfundur þessa þáttar af Éhóva er nefndur Lúkas.“

Helgi hlustaði á séra Árelíus lengi vel lýsa getnaði Jesúsar, en lét svo til skarar skríða:

„Ég nennti ekki leingur að sitja undir þeim ríkisfyrirskipaða forheimskunarvaðli, heldur hóf að andæfa þeirri Djöfuls mannvondsku, sem er í kúgunardómum og skjalafölsun ríkisvaldsins á mér.

Ég skundaði uppá pallinn undir skápnum [prédikunarstólnum] og sagði í útvarpshljóðnemann og annan til:

Hér talar Helgi Hóseasson.

Mikið Jósep mátti smíða,

María var heitin rekk;

Éhóvi með jarlinn stríða

Ésú komið undir fékk.

Ég var nærri búinn að þrítaka vísuna, þegar einn af vikapiltum Éhóva reif, með erfiðismunum, annan hljóðnemann úr sambandi.“

Helgi breiddi svo út borðann með vísunni á og fékk eftir nokkur átök, en að fyrirmælum Árelíusar, að standa með hann þar „þá stund sem mér líkaði.“ Eftir á kom til harkalegra orðaskipta hans og kirkjunnar manna fyrir utan.

Helgi hélt áfram mótmælum, lét sér reyndar nægja að standa með borðann fyrir utan Langholtskirkju sunnudaginn næsta, en ákvað svo að fara í dómkirkjuna á skírdag, 3. apríl, þar sem „Simbi höfuðheimskari,“ Sigurbjörn biskup, skyldi vígja prest til þjónustu kirkjunnar. Aftur komst Helgi í hljóðnemann og fór með mótmælavísu sína, en hans biðu öllu óblíðari móttökur utan dyra.

Hann var handtekinn, fluttur á lögreglustöðina í Pósthússtræti, þar sem heldur illa stemmdur varðstjóri lét hann dúsa í klefa. Svo var Helgi fluttur í Síðumúlafangelsið, þar sem hann var afklæddur að mestu og honum stungið í einangrunarklefa.

Þar var honum sagt að fyrir dyrum stæði að senda hann í geðrannsókn og innilokun á Kleppi, en svo fékk hann aftur fötin sín og var ekið heim í Skipasund í lögreglubíl. Þar fylgdi lögreglan honum inn og „ræddi við heimilisfólk“ í hálftíma.

Hér er, vel að merkja, fylgt frásögn Helga sjálfs að mestu og formálalaust, því að þrátt fyrir allt sem má um hann segja hefur enginn, mér vitanlega, staðið Helga að ósannsögli.

Hann var orðstór, einþykkur, einsýnn og oft hreinlega ruglaður í eigin þráhyggju, en ég hef hvorki heyrt né lesið stakt orð eftir hann sem hægt væri að telja ósatt.

En lögregluþjónarnir gerðu sig sumsé heimakomna í Skipasundinu í  hálftíma í fyrsta skiptið sem Helgi var handtekinn, á meðan Svarta María malaði fyrir utan. Það hefur verið dáskemmtilegt fyrir Jóhönnu, fósturbörnin þeirra og gömlu hjónin í risinu.

Þessum heimsóknum hinna einkennisklæddu átti bara eftir að fjölga.

———-

Lögreglan hafði viðbúnað daginn eftir, á föstudaginn langa, þegar Helgi ákvað að gera sér ferð að hálfbyggðri Hallgrímskirkju þaðan sem enn átti að útvarpa messu.

Hann var með mótmælaborða, en við dyrnar tóku á móti honum „tveir þróttugir, fullvaxnir piltúngar. Annar þagði, en hinn þandi sig án þess að kasta kveðju:

– Hér ferðu ekki inn!

– Hví ekki?

– Þú veitst hvað þú ert búinn að gera áður.

– Eru það nema kraftaídjót, sem hindra ferðafrelsi án tilefnis?

– Tilefnið hefur þú gefið áður, og lögregluvarðstjórinn sendi okkur til að hindra þig. Viltu koma oná stöð og hitta hann?

– Ég samþykki það, ef það er skipun.“

Þarna voru komnir óeinkennisklæddir lögregluþjónar, að skipun lögreglustjórans í Reykjavík, til að stöðva Helga og handtaka fyrir meint ólöglegt athæfi, sem þó hafði hvergi verið framið.

Á lögreglustöðinni vildi Helgi vita hvert brot hans væri, hver hefði kært hann, vildi bóka andmæli sín, mótmælti þjófnaði á eigum sínum (mótmælaborðum og skiltum) og svo framvegis. Þá sjaldan hann fékk svör voru þau allajafna skætingur. Og í fangaklefa fór hann.

Þetta gerðist hartnær tuttugu sinnum. Já, tuttugu sinnum næstu misserin.

Aldrei voru gefnar út formlegar handtökuskipanir, hvað þá ákærur.

En áfram hélt löggan að handtaka hann og gera fjölskyldunni vont.

Þeir gátu þetta af því að Helgi var „klikkaður“ og málstaður hans var skrýtinn, og allir voru einhvern veginn sammála um það. Fáir þorðu annað en að hlæja að honum.

Enginn vafi leikur á að Helgi var beittur harðræði, bæði andlegu og líkamlegu, í þessum aðgerðum lögreglunnar. Árið 1969 var ekki búið að finna upp almenn mannréttindi á Íslandi.

———-

Helgi hélt áfram að mótmæla og þar kom að hann gekk lengra og mótmælti „á ábyrgð ríós,“ ríkisvalds íslenzkra óþokka.

Og mark sitt setti hann á Íslandssöguna þegar hann sæmdi þingheim, biskup og forseta skyri við þingsetninguna þriðjudaginn 10. október 1972.

Þetta var annað og meira en að mótmæla við kirkjur og hertaka hljóðnema í útvarpsmessum. Helga þóttu önnur úrræði fullreynd, en í eðli sínu voru þessi mótmæli saklaus. Skyrblandan var mjúk og meiddi engan.

Samt var þetta algerlega fordæmalaus aðgerð. Íslendingar höfðu kynnzt fjöldamótmælum stöku sinnum, en aldrei slíku einstaklingsframtaki.

Helgi hafði semsagt hrært skyr í stóran dall, farið í grágrænu skinnúlpuna sína og haldið af stað með strætó niður í bæ. Í vösunum hafði hann gúmmívettlinga og í þann hægri hafði hann saumað svolitla pjötlu eða lepp.

Vettlingurinn varð þannig að eins konar ausu sem gerði Helga kleift koma frá sér sem mestu skyri á sem skemmstum tíma.

Það tókst. Honum tókst að gera þá tuttugu, sem fremstir fóru í prósessíunni frá dómkirkjunni til þinghússins, svo illa útbíaða að ekki nokkur leið var að hreinsa föt þeirra áður en til þingsetningar kom skömmu síðar. Þetta átti við um forsetann, biskupinn, forseta þings og flesta ráðherra.

Nokkrum skyrlítrum of seint rankaði heiðursvörður löggunnar við sér, hljóp á Helga og keyrði hann niður. Þeir höfðu ekki beinlínis átt von á þessu.

En þeir handtóku Helga, færðu hann fyrst inn á Hótel Borg, svo í Hegningarhúsið og fluttu loks á Klepp.

Hann fór strax í hungurverkfall og neitaði að nærast.

Aftur verður að stytta söguna, en skyrslettuaðgerð Helga heppnaðist að sínu leyti. Öndvert við það sem almennt er talið, þá náði hann nefnilega fram helzta markmiði sínu með skyrslettunum við þinghúsið þarna um haustið.

Eftir þessa niðurlægingu helztu ráðamanna landsins úr vettlingaklæddum höndum smiðsins úr Skipasundi gafst Ríkisvald íslenzkra óþokka upp.

Föstudaginn 13. október var Klemenz Tryggvason hagstofustjóri sendur inn á Klepp að hitta Helga og gera honum tilboð: Við erum til í að setja yfirlýsingu þína um ógildingu skírnar og fermingar í þjóðskrána. Eru þá ekki allir sáttir?

Þetta var þvert á áralangar og margítrekaðar neitanir ríkisins, og voru náttúrlega stórtíðindi fyrir Helga. Hann varð hvumsa við í fyrstu, en þegar Klemenz rétti honum textann ákvað Helgi að samþykkja.

Textinn fór inn í þjóðskrá og er svona:

„Ég, Helgi Hóseasson, fór í dómkirkjuna 16. október 1966 og lýsti því þar yfir meðan á messu stóð, að ég væri leystur frá skírnarsáttmálanum og frá staðfestingu hans í fermingunni.

Ég tel, að með þessu hafi aðstaða mín orðið hin sama og þeirra, sem eru óskírðir og ófermdir.“

Þetta virtist vera fullnaðarsigur. Yfirlýsingin og staðfestingin – um að hann hefði ógilt skírnarsáttmála sinn og staðfestingu hans í fermingunni – allt, sem hann hafði barizt fyrir árum saman, fékkst loks birt í þjóðskrá, „einu persónuheimildinni“ um hann, ótvírætt og fyrirvaralaust.

Þetta samþykkti Helgi. Að svo búnu fór hann heim í Skipasund.

Helgi sagði þó í viðtali við Tímann þegar þetta var ljóst, að ýmislegt þyrfti nú enn að ræða:

„Ég mun knýja á með það, að fá græfa jörð, þar sem ég yrði huslaður dauður, án allrar íhlutunar þeirra á himnum.“

Hann vildi semsagt fá tryggingu ríkisins fyrir því að hann yrði jarðsettur utan garðs, og vildi ennfremur bætur vegna þeirrar smánar og hneisu, auk fyrirhafnar og kostnaðar, sem hann hefði orðið fyrir af ríkisvaldsins hálfu.

Seinna skipti Helgi um skoðun og þótti yfirlýsingin í þjóðskrá ekki nógu afdráttarlaus – hann heimtaði að skráð yrði þar að hann hefði ógilt skírnarsáttmálann, ekki bara að hann „teldi sig“ hafa gert það.

Sum barátta tekur engan endi.

Ári eftir skyrsletturnar tilkynnti ríkissaksóknari að Helgi yrði ekki saksóttur „að fenginni rannsókn á geðheilbrigði hans.“

Helgi var semsagt ekki talinn sakhæfur – hann væri of klikkaður.

 

(Annar hluti af þremur. Fyrsti hluti er hér.)

1,348