trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 18/03/2016

Draugarnir fimm á Breiðavaði. Kunnu Íslendingar sjónhverfingar um miðja nítjándu öld?

Fyrir skömmu kom út bókin Örlagaþættir, þar sem safnað er saman flestum áhrifaríkustu frásögnum sem Sverrir Kristjánsson skrifaði í bókaflokknum Íslenzkir örlagaþættir á árunum 1964-1973.Draugur

Herðubreið hefur áður birt þátt úr bókinni og birtir hér annan. Sá er sýnu þekkilegri og virðist benda til þess að Jósep Gíslason vinnumaður á Breiðavaði í Húnavatnssýslu hafi kunnað sitthvað fyrir sér í sjónhverfingum.

Nema draugarnir á Breiðavaði hafi ekki verið nein sjónhverfing.

———-

Það er sagt að draugar birtist helzt í myrkri skammdegisins, en stundum bregða þeir á leik í ljósaskiptum vetrar og vors eins og sú saga hermir er hér verður sögð og studd er framburði margra vitna. Þessi saga gerðist á Breiðavaði í Húnavatnssýslu um sumarmálaleytið árið 1849.

Þá bjó að Breiðavaði í Langadal bóndi sá er Jónas hét Jóhannsson. Kona hans var Sigríður Vigfúsdóttir, en dætur Sigríður og Áslaug. Var Sigríður 14 vetra gömul, en Áslaug nokkru yngri. Á vist með þeim hjónum var ungur Skagfirðingur, Jósep Gíslason að nafni. Hafði hann komið sumarið 1848 að Breiðavaði og var þá vegalaus, og ílentist hann um veturinn hjá Jónasi bónda.

Tvíbýli var á Breiðavaði og tvær baðstofur. Var sambýliskona þeirra hjóna, Jónasar og Sigríðar, ekkja ein að nafni Sigríður Guðmundsdóttir, en sonur hennar hét Guðmundur Helgason, unglingsmaður ekki tvítugur. Guðmundur þessi var mjög myrkhræddur. Á heimili ekkjunnar voru einnig á vist tveir karlmenn og kerlingar tvær gamlar.

Svo bar við í síðustu viku marzmánaðar 1849 að Jónas bóndi Jóhannsson var að heiman, hafði farið fram að Geitaskarði til jarðamats og var hans ekki von um nóttina. Var liðið nokkuð á kvöld og húsfreyja háttuð ásamt dætrum sínum, en Jósep og Guðmundur Helgason, unglingurinn, sátu á rúmum tveim og kváðu vísur sér til gamans. Leið svo kvöldið. Þá vildi Guðmundur ganga til baðstofu móður sinnar og taka á sig náðir. En fyrir myrkfælni sakir bað hann Jósep að fylgja sér heim í baðstofu, en um dimman gang var að fara, og gerði Jósep það. Síðan háttaði Guðmundur Helgason í rúm sitt og sofnaði. Jósep gekk einnig til náða. Baðstofa þeirra hjóna, Jónasar og Sigríðar Vigfúsdóttur, var þriggja stafgólfa. Í fremsta stafgólfi stóð vefstóll uppi og var þar spýtnarusl og lausar fjalir, en í þriðja stafgólfi var rúm þeirra hjóna, og svaf Jósep Gíslason á móti þeim. Þetta var aðfaranótt 24. marz og dimmt í baðstofunni.

Allt var hljótt, nema þegar hrotur og svefnlæti heimafólksins rufu kyrrðina. En skammt var liðið á er næturfriður baðstofufólksins á Breiðavaði var allur. Sigríður húsfreyja vaknar með andfælum við það að spýta skellur á baðstofugaflinum með miklum dyn rétt hjá höfðalagi hennar. Hún segir hræðslufull: „Hvað er þetta?“ Jósep Gíslason, sem einnig hafði vaknað við hávaðann, svaraði húsmóður sinni og sagðist ekki vita hverju þetta sætti. Konan kúrði sig þá aftur niður undir sængina og reyndi að sofna, en ekki hafði hún fest blund áður en hún hrökk upp við enn hærri skell á baðstofugaflinum, reyndist það vera rúmfjöl er legið hafði hjá vefstólnum í fremsta stafgólfi. Vöknuðu nú allir í baðstofunni nötrandi af angist yfir þessum óskiljanlegu tíðindum. Stuttu síðar brakaði í hverju tré í baðstofunni er kistill hjá miðrúminu endasentist um hálfa aðra alin inn eftir pallinum.

Þá reis Sigríður húsfreyja upp í rúminu og sagði: „Á, er það svona! Hvað er þetta, er það vofa?“ Jósep svarar: „Ei ber ég á móti því að eitthvað er það þess kyns.“ Þá segir húsfreyja: „Er það þér sent, Jósep?“ „Eigi mun svo vera,“ svarar hann, „heldur mun það sent einhverjum öðrum.“ „Er mér sent það eða okkur?“ spyr húsfreyja. „Að heldur mundi það vera,“ svarar hann, „en vera mætti að þetta gæti drepið Jónas bónda og hans fólk ellegar orðið ættarfylgja hans og barna hans.“ Konan lagðist aftur á bak í rúm sitt nærri sturluð af hræðslu. Hún vissi að Jósep átti til ófreskra að telja, faðir hans, Gísli Magnússon, sem nú var vinnumaður á Hnjúkum, var rammskyggn. Nú reis Sigríður, eldri dóttir þeirra hjóna, upp í rúmi sínu og æpti upp yfir sig, sagðist sjá „glóru“ hjá vefstólnum, og er Sigríður húsfreyja leit fram eftir baðstofunni sá hún glæringar í myrkrinu í námunda við vefstólinn.

Jósep Gíslason var nú klæddur og kominn á stjá. Hann gekk fram og aftur um pallinn og reyndi að sefa kvenfólkið. Hann var rólegur í fasi, talaði til kvennanna og kvaðst mundu geta bægt frá þessari óvætt svo að hún gerði ekki stóran skaða, enda mundi þess við þurfa. Hann gekk um gólf í baðstofunni um stund, fór síðan að rúmi sínu og tók langspil er hann átti ofan af vegg, settist niður og tók að leika á þetta hljóðfæri. Var það hvort tveggja að hann vildi hafa ofan af fyrir hinum hræddu konum og draga mátt úr þeirri veru sem spillt hafði næturfriði fólksins á Breiðavaði; sagði hann húsfreyju að hljómlist kæmi oft að góðum notum þegar eitthvað óhreint væri á sveimi. Þegar hann var enn að leika á langspilið gekk hann um gólf og hughreysti kvenfólkið sem lá titrandi af ótta undir rekkjuvoðunum. Leið svo nóttin, en á dægramótum, um það bil er lýsa tók af degi, kom hamar fljúgandi í þilið yfir höfði Sigríðar húsfreyju og féll niður hjá öxl hennar án þess þó að henni yrði meint af. Varð konan nú hálfu hræddari en Jósep huggaði og fullvissaði hana um að meðan hann væri innanhúss skyldi hún eða hennar fólk ekki hljóta neinn miska af þessum aðköstum.

En það er af fólkinu í hinni baðstofunni að segja að Guðmundur Helgason unglingspiltur vaknaði við hávaðann inni hjá nágrönnum sínum. Varð hann svo hræddur að hann þoldi ekki við í rúmi sínu, en flýði upp í til Halldóru kerlingar Vigfúsdóttur er var húskona afgömul þar á bæ, en hún var orðin afvön því að liggja hjá yngissveinum og skreið úr rúmi sínu upp í til Sigríðar Guðmundsdóttur, húsmóður sinnar. Var nú fólk allt vaknað á Breiðavaði og kom engum blundur á brá það sem eftir lifði nætur.

Þegar lýsti af degi gafst heldur en ekki á að líta í baðstofunni: spýtnarusl og fjalir lágu við baðstofugaflinn og kistillinn færður langt úr sínum stað. Þau Sigríður Guðmundsdóttir, ekkjan, og Guðmundur Helgason, sonur hennar, komu nú til baðstofu og spurðu tíðinda. Var þeim sagt allt af létta. Varð ekkjan þá svo hrædd að hún kvaðst mundu fara af bænum þegar í stað með allt sitt fólk. En Jósep Gíslason talaði í hana kjark og sagði að hann vissi það með sannindum að sending sú sem gert hefði þennan usla í baðstofu þeirra Jónasar bónda og Sigríðar konu hans væri ekki send henni né því fólki er væri á hennar vegum. Í annan stað hefði hann nú allt vald á hinni óhreinu veru.

Hresstist ekkjan mjög við orð Jóseps og hugði ekki framar á flótta. En Jósep sneri sér að Guðmundi syni hennar og bað hann ganga fram í bæ með sér og hafa með sér ljós. Gegndi Guðmundur því, og fór Jósep fyrir honum fram bæinn og benti fingrum sínum að öllum dyrum á leiðinni, skipaði piltinum síðan að staðnæmast með ljósið fyrir innan stofudyrnar í bæjargöngunum og standa þar í sömu sporum, hvað sem hann heyrði á ganga, en kalla til sín ef eitthvað færi fram hjá honum eða ætlaði að ráðast á hann. Síðan gekk Jósep út úr bænum. Guðmundur Helgason gerði svo sem fyrir hann var lagt og hélt á ljósinu skjálfandi höndum. Litlu síðar heyrir hann hlúnk mikinn uppi á þekjunni rétt yfir höfði sér. Var hann þá kominn á fremsta hlunn að hlaupa til baðstofu, en harkaði af sér. Stuttu seinna kom Jósep aftur að utan og þakkaði Guðmundi fyrir að hafa staðið kyrr með ljósið og sagði að hann hefði verið trúr.

Nú var kominn laugardagsmorgunn og allt með kyrrleikum. Þær nöfnur og húsfreyjur á Breiðavaði, Sigríður Vigfúsdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir ekkja, höfðu nú náð sér nokkuð eftir fyrstu hræðsluna, enda hafði hin rólega framkoma og atgerðir Jóseps Gíslasonar vakið þeim traust. En nú datt þeim í hug til frekara öryggis að ná fundi Gísla Magnússonar, föður hans, sem kunnur var að mikilli ófreskisgáfu. Þær sendu því Guðmund litla Helgason heim að Hnjúkum þar sem Gísli var í vinnumennsku, að biðja húsbónda hans að leyfa honum að bregða sér að Breiðavaði áríðandi erinda. Ekki gat Guðmundur þess á Hnjúkum hvert erindið væri, en á leiðinni að Breiðavaði sagði hann Gísla allt af létta. Þær Breiðavaðshúsfreyjur fögnuðu Gísla Magnússyni vel og sögðust vita hann bæði einbeittan mann og skyggnan. Gísli lét lítt yfir, en mælti þó að sjaldan hefði neitt óhreint leynzt sjónum sínum, ef í návist væri. Báðu þær hann að taka sér stöðu hjá stofudyrunum og hleypa engum og engu fram hjá sér, og mætti hann ekki ljúka upp bænum fyrir neinum nema Jósep syni sínum sem mundi verða úti staddur. Meðan konurnar ræddu við Gísla bar Jósep þar að og heilsaði hann föður sínum og sagði honum að draugur væri í stofuhorninu. Síðan gekk hann fram bæjargöngin út á hlað og lokaði bænum á eftir sér.

Gísli tók sér stöðu hjá stofudyrunum og renndi gömlum, alvísum, skyggnum augum að stofuhorninu. Gat hafði komið á þekjuna og snjóaði í stofuhornið. Jú, eitthvað lifandi var í stofunni, það var hann viss um, en þó brást honum skyggnin í þetta skipti, því að hann sá ekki neitt. En því meira heyrði hann. Meðan hann stóð eins og hermaður á verði hjá stofudyrunum heyrðust miklir dynkir uppi á stofuþakinu og brakaði í hverju tré. Eftir drykklanga stund kom Jósep að bæjardyrunum og hleypti Gísli honum inn. Gengu þeir feðgar þá til baðstofu. Heimafólk allt á tvíbýlinu sat þar á rúmum sínum og beið frétta. Jósep hélt á skrifuðu blaði sem hann hafði haft með sér þegar hann gekk út úr bænum. Hann brá eldi í blaðið og brenndi til ösku. Síðan sagði hann heimamönnum að sending sú sem riðið hefði húsum á Breiðavaði væri nú komin í þann stað hvaðan hún ekki kæmi aftur. Varð þá léttara yfir heimafólki og það tók aftur gleði sína. Þá var dagur að kvöldi kominn og gengu allir til náða, en Gísli Magnússon hélt aftur heim að Hnjúkum.

Degi síðar en þessi tíðindi gerðust kom Jónas bóndi Jóhannsson heim að Breiðavaði. Var honum þá sagt allt af létta hvað gerzt hafði meðan hann hafði verið í burtu. Bóndi tók þá strax að ræða það hvaðan sending þessi gæti verið komin, og gat upp á einum eða öðrum lauslega, en kenndi þó engum um þetta öðrum fremur. Jónas Breiðavaðsbóndi var varkár íslenzkur almúgamaður og mælti að lokum: „Villtur er sá er geta skal.“ Jósep Gíslason latti einnig bónda getsakanna, því að grunur gæti fallið á saklausan.

Þegar heimafólk á Breiðavaði ræddi þessi tíðindi um kvöldið í baðstofunni sagði Jósep að þar sem hann hefði komið fyrir þessum eina draug þá mundi nú allt vera kyrrt á bænum um stund því að annar draugur gæti aldrei komið fyrr en á 4. nóttu hér frá. „Sending getur ekki komið fyrr og hefur ei lyst á því,“ bætti hann við alvarlegur í bragði. Jónas bóndi leit á þennan hugrakka vinnumann sinn og undraðist mjög vísdóm hans og þekkingu á þessum torræðu hlutum. Þó kenndi hann nokkurs efa í þessu efni, hafði litla trú á að óhreinar sendingar mundu framar angra hann og hans hús. En hann varð brátt reynslunni ríkari.

Fjórum nóttum eftir hina fyrstu reimleika svaf allt heimafólk í baðstofu Jónasar bónda og naut draumfara sinna. Skyndilega vöknuðu allir við geysilegan skell. Tuttugu punda eikarplanka, sem notaður hafði verið sem hefilbekkur og lá fyrir framan vefstólinn, hafði verið hent um tvö stafgólf inn eftir baðstofunni. Stuttu síðar fór snældustóllinn sömu leið og enn kom álnarlöng spýta í þilið hjá höfðagaflinum á rúmi Jónasar og konu hans og datt hóglega ofan á fætur bóndans. Sigríður húsfreyja hljóðaði upp yfir sig og hét á Jósep Gíslason að bregða nú fljótt við og reka þennan nýkomna draug út úr bænum.

Jósep lét ekki lengi eggja sig til stórræðanna. Hann þaut út úr rúminu að vefstólnum og tókst á við vofuna, og varð af mikið hark. Við þessi átök jagaðist vefstóllinn sundur, en Jósep ávarpaði drauginn og kvenkenndi hann og skipaði henni að vera kyrri. Urðu nú með þeim miklar sviptingar, og heyrðu menn að Jósep heimtaði ljós og þóttist ekki lengur geta staðið hana af sér, en ef hann missti tak á henni mundi hún gera Jónasi bónda og fólki hans mikið mein. Kallaði hann hárri röddu á Sigríði ekkju Guðmundsdóttur og skipaði henni að fara niður og kveikja ljós, en ekkjan kvaðst ekki þora. Varð Jósep þá svo reiður að hann sagði: „Ég skal drepa ykkur!“

Þorði ekkjan þá ekki annað en hlýða og fór til eldhúss ásamt Guðmundi syni sínum og kveikti ljós. Sást þá að vefstóllinn var allur brotinn, en Jósep móður og þrekaður. Sagði hann að enginn úr baðstofu Jónasar bónda hefði mátt kveikja ljós, það hefði getað orðið hans bani. Lifðu nú þrjú ljós í baðstofu Jónasar það sem eftir var nætur og bar ekkert til tíðinda. En um morguninn lét Jósep byrgja alla glugga og allar smugur á baðstofunni. Síðan gekk hann út úr bænum og stuttu síðar heyrðist hljóð eins og byssuhvellur. Leið svo nokkur stund, og gekk Jósep þá til baðstofu og kvaðst hafa komið draugnum fyrir, og þyrfti Jónas bóndi ekki að óttast hann framar. Þökkuðu hjónin, Jónas og Sigríður Vigfúsdóttir, Jósep hjálpina með mörgum fögrum orðum og buðu honum gjafir, en hann vildi eigi þiggja.

Stuttu eftir hina síðari reimleika kom páskahelgin, og var þá allt með kyrrum kjörum á Breiðavaði. Jósep sagði það Jónasi bónda og konu hans að á svo mikilli hátíð þyrfti ekki að óttast sendingar, hins vegar yrðu þau að vera við því búin að sú þriðja kæmi heldur fyrr en seinna. Og aftur varð Jósep Gíslason sannspár. Það var síðasta þriðjudag í vetri, þann 16. apríl, að þær Sigríður ekkja Guðmundsdóttir og Sigríður litla, dóttir Jónasar bónda, voru úti í fjósi. Þangað kom Jósep Gíslason, sagðist hafa hugboð um að ekki væri allt með felldu, og kvaðst vilja vera þeim til varnar við mjaltirnar, ef eitthvað bæri að höndum. Þegar þau voru öll þrjú að ræðast við í flórnum, laust steini allstórum niður milli þeirra, en ekkert þeirra sakaði. Mjaltakonurnar urðu að sjálfsögðu mjög felmtsfullar og flýttu sér að ljúka fjósverkunum til að hafa sig á brott, og réð Jósep þeim til þess og sagði að hér mundi eigi deigum vært, en fimm steinum rigndi úr loftinu niður í flórinn, áður en kvenfólkið komst inn í bæ. En Jósep varð eftir og var úti góða stund. Þegar hann kom inn sagðist hann hafa verið að verja bæinn fyrir draugnum, og mundi ekki stafa af honum neinn háski framar.

Nú liðu nokkrar nætur, og bar ekkert til tíðinda, en þá var það kvöld eitt að grjótkast hófst aftur í fjósinu á Breiðavaði. Voru þau þá stödd þar ein, Sigríður Jónasdóttir bónda og Jósep. Réð Jósep stúlkunni að flýja sem skjótast inn í bæ, enda mundi sending þessi sér send til að hefna fyrir að hafa komið hinum draugunum fyrir. Sagði hann í gamni við Sigríði litlu að þetta mundi vera sumargjöfin sín. Stuttu síðar kom Jósep sjálfur í bæinn og bjóst til að koma fyrir þessum fjórða draug er sækti Breiðavað heim. Hann fór í fleiri flíkur, tók penna og pappír, gerði þar á nokkur strik og myndir. Jónas bóndi horfði á þetta og hélt að hér letraði Jósep kraftarúnir. Því næst bað Jósep Jónas bónda taka ljós sér í hönd og bera það fram í bæjardyr og standa þar kyrran í sömu sporum. Sjálfur fór hann út og lét aftur bæjarhurðina. Heyrði Jónas bóndi þá hark mikið úti fyrir, og barst það upp á bæjarþekjuna yfir höfði hans, en hann stóð með ljósið í sömu sporum svo sem Jósep hafði lagt fyrir hann.

Eftir litla stund kom Jósep inn aftur og kvaðst hafa vísað draugnum til sinna heimkynna og til þess sem hafði sent hann. Hann gat þess samt um leið að vera kynni að hann kæmi aftur. Var nú allt kyrrt þessa nótt, en báðir lágu þeir Jónas og Jósep í fötunum og létu lifa ljós. Næstu nótt fór svo sem Jósep hafði grunað: Draugurinn kom aftur á bæinn, og Jósep bjóst til að ganga út og koma honum fyrir að fullu. Um leið og Jósep var að ganga út úr baðstofunni, rétti hann fram höndina og tók draugurinn í handlegg hans. Í þetta sinn var Jósep úti á hlaði aðeins stundarkorn. Og nú heyrðist ekkert hark að utan og ekki brakaði í rjáfri. Þegar Jósep kom inn aftur sagði hann glottandi að hann hefði komið honum fyrir með hægð.

Nokkru eftir að þetta varð stungu þau hjón, Jónas og Sigríður, upp á því að kveðja Gísla, föður Jóseps, á nýjan leik að Breiðavaði og vita hvort hann yrði ekki einhvers áskynja. Jósep var þess alls ekki letjandi og kom Gísli þangað um leið og hann var kallaður. En svo virtist sem skyggnigáfa gamla mannsins dapraðist að sama skapi og Jósep, sonur hans, kom fleiri draugum fyrir. Hann sá ekki neitt. Var hann þó á Breiðavaði fjórðu nótt frá síðustu heimsókn fjórða draugsins. Hélt Gísli heim til sín daginn eftir og var dálítið beiskur í skapi er hann hafði fremur haft erfiði en erindi.

Dagar almanaksins halda áfram sinni háttbundnu för og áður en nokkur veit er kominn sumardagurinn fyrsti. Þessi gamli og mikli hátíðisdagur íslenzks almúga er þó oftar en ekki meiri sumarvon en sumarveruleiki. En það þykir sjálfsagður hlutur að mórar og skottur hypji sig á brott úr mannheimi þegar sumardagurinn fyrsti er genginn í garð. Fólkið á Breiðavaði varp öndinni léttar: sumarið var komið og draugar og skottur og mórar og fjörulallar flúnir eitthvað út í buskann. En það er ekki sumarlegt um að litast í Húnavatnssýslu daginn eftir sumardaginn fyrsta árið 1849, helfrosin jörð, og Magnús Pálsson, húsmaður á Breiðavaði, verður að pjakka klakann hjá brunnhúsinu, en honum eru ekki draugar í hug því að sumardagurinn fyrsti var í gær.

En sem hann er að pjakka klakann flýgur allt í einu steinn út úr brunnhúsinu og stöðvast við fætur hans. Hann stendur um stund alveg stjarfur, á dauða sínum átti hann von, en ekki þessu. Magnús tekur til fótanna og rásar heim að bæ og segir fólkinu tíðindin: Draugur er kominn í brunnhúsið! Allir heimamenn eru sem steini lostnir, ekki sízt Jósep sem hlustaði á sögu Magnúsar húsmanns inni í baðstofu. Hann spyr Magnús náið um öll atvik í sambandi við steinkastið úr brunnhúsinu. Þegar hann hafði heyrt alla söguna, bjó hann sig til útgöngu og kvaðst ætla að verja fjósið svo að kúnum yrði ekki meint af þessari aðsókn. Þegar hann kom út á hlaðið stóð þar Sigurbjörg Benediktsdóttir, bústýra í Bakkakoti. Þau taka tal saman, og fyrr en nokkurn varir kemur hellusteinn úr lofti og fellur til jarðar rétt fyrir aftan hana. Virtist hann koma ofan af bænum, að minnsta kosti sýndist Sigurbjörgu svo og öðru vitni, Sigríði ekkju Guðmundsdóttur, sem stóð í bæjardyrunum og sá steininn falla til jarðar. Um leið kallaði hún til Sigurbjargar og bað hana vara sig. Jósep sagði þá við aðkomukonuna: „Það er bezt fyrir þig að hraða þér af stað.“ Konan var orðin dauðhrædd og sagðist ekki vita, hvort hún kæmist klakklaust af. „Ég skal sjá til þess,“ svaraði hann og gekk fram og aftur fyrir framan bæjardyrnar. Konan beið þá ekki boðanna og hraðaði sér á brott.

Jósep gekk nú aftur til baðstofu, og hafði Sigríður ekkja þá borið heimafólkinu söguna um hellusteininn sem henni sýndist koma ofan af þakinu. Hafði nú miklum óhug slegið á alla. Það var orðið áliðið kvölds, en Jósep kvaðst ekki mega annað en verja fjósið og fór út sem skjótast. Eftir nokkra stund kom hann aftur til baðstofu og sagði þau tíðindi að tarfkálfurinn hefði legið upp í loft og afvelta á básnum, en nú væri fjósinu borgið, draugurinn gæti ekki gert þar af sér neina bölvun og svo hefði hann lúskrað á honum að draugsi gæti ekki gert neitt til meins meðan hann væri hér í baðstofunni og byggi sig til útgöngu. Gerði Jósep nú nokkrar rispur og strik á blað og gekk síðan snúðugt út.

Allt heimafólkið kúrði á rúmum sínum og tvö ljós lifðu í baðstofunni. Fólkið lagði við hlustir og brátt heyrðist mikið hark úti á hlaði, en barst því næst upp á baðstofuna og var sem gengið væri þungum fótum eftir þekjunni. Það brakaði í rjáfrinu og fjöl næst baðstofuglugganum brotnaði í tvennt. Hrollur fór um þá sem hímdu inni í baðstofunni meðan tveir áttust við sína dauðaglímu uppi á þekjunni. Smám saman dró úr djöfulganginum uppi yfir fólkinu, og síðan varð allt hljótt. Fólkið í baðstofunni hrærði ekki legg né lið. Loks var fingri drepið á baðstofugluggann. Það var Jósep sem bað Jónas bónda að koma út og hjálpa sér inn í bæ. Þegar Breiðavaðsbóndinn kom að var svo af Jósep dregið að hann mátti ekki hræra legg né lið og varla mæla. Jónas tók hann í fangið og bar hann inn í bæ, og lagðist hann strax fyrir í rúm sitt. Bóndinn og allt fólkið vakti við ljós yfir hinum þrekaða manni sem glímt hafði við fimm drauga og komið þeim öllum fyrir.

Næsta morgun var Jósep Gíslason málhress. Sagði hann Jónasi bónda að þessi draugur hefði verið mestur fyrir sér allra þeirra er hann hefði komizt í kast við. En nú gæti hann trúað honum fyrir því að þetta væri síðasti draugurinn. Aldrei síðar mundi draugur ríða húsum að Breiðavaði. Jónas bóndi varð bæði glaður og klökkur við þessi tíðindi. Tók hann upp úr pússi sínum tóbakspontu silfurbúna og vildi gefa Jósepi Gíslasyni í þakkarskyni fyrir unnin afrek. En Jósep kvaðst ekki mundu þiggja pontuna né neinar aðrar gjafir fyrir það sem hann hafði gert. Síðan lokaði hann augunum og sofnaði.

Sagan um draugana fimm á Breiðavaði og afrek Jóseps Gíslasonar flaug um alla Húnavatnssýslu eins og fiskisaga í hallæri, og luku flestir Húnvetningar upp einum munni um það að slíkur maður sem Jósep Gíslason hefði ekki borinn verið á Íslandi síðan Gretti Ásmundsson leið. Sagan barst einnig til eyrna konunglegu yfirvaldi Húnavatnssýslu, Arnóri Árnasyni, og honum þótti hún forvitnileg. Svo forvitnileg þótti sýslumanni sagan að í byrjun maímánaðar 1849 lét hann handtaka Jósep Gíslason og stefna honum fyrir rétt. Áminntur um sannsögli kveðst Jósep Gíslason hafa flogizt á við eitthvað á Breiðavaði sem hann hafi haldið vera draug og ekki vitað annað. Hann sagði sýslumanni að hann hefði orðið fyrir grjótkasti í fjósinu á Breiðavaði, og hefðu steinamir „komið út úr fjósveggnum“. Þegar hér var komið yfirheyrslunni, standa þessi orð í dómsmálabók Húnavatnssýslu: „Dómarinn benti honum til að meira yrði ei bókað af slíkri vitleysu.“

Hinn 29. maí 1849 gafst Jósep Gíslason upp fyrir þrákelkni sýslumanns og játaði án allra undanbragða að hann hefði logið öllum þessum draugasögum upp frá rótum, staðið sjálfur að reimleikanum í baðstofunni og fjósinu að Breiðavaði, kastað spýtunum í rúmstæði húsbænda sinna, steinunum í fjósinu, brunnhúsinu og á hlaðinu á Breiðavaði og leikið sjálfur af mikilli list fimm fíleflda drauga. Réttarhöldin í máli hans stóðu langt fram á sumar, og allir sem við voru riðnir málið voru yfirheyrðir og sögðu sína sögu. Öll þessi vitni báru það að þeim hefði aldrei dottið í hug að efast um tilveru þeirra fimm drauga sem Jósep Gíslason hefði komið fyrir af svo miklu harðfengi. Og réttarhöldin bera þess greinileg merki að þetta fólk hefur verið sært holundarsári er játning Jóseps Gíslasonar svipti það trúnni á Breiðavaðsdraugana fimm. Raunar virðist það ljóst að Jósep Gíslason hlýtur að hafa verið gæddur ríkri sjónhverfingagáfu, að öðrum kosti hefði hann til að mynda aldrei getað blekkt þetta fólk með grjótkastsbrellum sínum. Oft hefur orðið vart aðsóknar af minna tilefni í myrkfælnu fásinni íslenzkra sveita, og Jósep Gíslason varð ekki sóttur til saka þó að hann hefði leikið sér að ímyndunarafli heimilisfólksins á Breiðavaði og haft það og hálfa Húnavatnssýslu að ginningarfíflum. Mál hans var látið niður falla.

Ósagt skal látið hvort Jósep Gíslason á Breiðavaði hafi drepið draugatrú í Húnavatnssýslu. En ein var sú manneskja sem ekki trúði játningu hans. Það var móðir hans, gömul kerling sem komin var á sveit þegar þetta var. Henni varð það að orði er hún spurði tíðindin um málaferlin: „Hann Jósep minn lýgur þessu öllu upp á sig. Víst hefur hann komið fyrir fimm draugum!“

(Mannlífsmyndir, 1969)

 

 

 

1,907