trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/02/2016

Glæpur með lögheimili í kolsvörtum myrkviði sálsýkisfræðinnar: Kaldrifjuð morð á hvítvoðungum

Fyrir skömmu kom út hjá Forlaginu bókin Örlagaþættir. Hún rekur nafn sitt til bókaraðarinnar Íslenzkir örlagaþættir, sem kom út á árunum 1964-1973 og naut mikilla vinsælda.Sverrir Kristjánsson

Höfundar bókanna voru Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur og Tómas Guðmundsson skáld. Í þessari útgáfu hefur Guðmundur Andri Thorsson valið marga af best skrifuðu og um leið áhrifaríkustu sagnaþáttum Sverris og fylgir þeim úr hlaði með inngangi.

Með góðfúslegu leyfi forlagsins birtir Herðubreið hér einn slíkan sagnaþátt.

Lesendur eru varaðir við – og þá meinum við alvarlega varaðir við: Sumar lýsingarnar sem hér fylgja eru ekki fyrir viðkvæma. Þær eru þeim mun erfiðari aflestrar sem þær eru dagsannar.

———-

Skárastaðamálið

Afbrotasaga Íslendinga hefur lítt verið könnuð til þessa, og er hún þó um margt æði forvitnileg. Meðan Íslendingar voru enn fátæk bændaþjóð í dreifbýlu landi skipa tvenns konar afbrot mestan sess á sakaskrá þeirra: sauðaþjófnaður og hórdómur. Ekki hefur það verið rannsakað hvar á landinu afbrot þessi voru algengust, en við flýtislega athugun virðast Húnvetningar vorir hafa verið æði djarftækir bæði til sauða og kvenna. Saga sú er hér verður sögð gerðist fyrir rúmum hundrað árum. Mannleg grimmd og mannlegur harmleikur fóru þar saman í þéttriðinn hnút, enda tók Skárastaðamálið langan tíma. Heima í héraði hófst rannsókn málsins 24. janúar 1864, en ekki dæmt í því fyrr en 12. nóvember s. á. Málið fór síðan rökbundna leið til landsyfirréttar sem dæmdi í því seinast í júní 1865, en hæstaréttardómur var kveðinn upp í því 5. desember 1866.

Við skulum fyrst líta á persónurnar í hinum harmræna sjónleik sem settur var á svið með þessu húnvetnska sveitafólki á öldinni sem leið. Bóndinn á Skárastöðum heitir Jón Einarsson, leiguliði, eigandi jarðarinnar býr suður á landi. Jón er sextugur að aldri og tvígiftur. Fyrri konu sína hefur hann misst, en átti með henni fimm börn, Einar, 26 ára, Guðmund, 24 ára, Margréti, 27 ára, og er hún bústýra hjá Jóni nokkrum Jónssyni bónda á Gilsbakka sem er afbýli frá Skárastöðum, þá Þóreyju, 18 ára og Mildríði 15, báðar í föðurgarði. Seinni kona Jóns á Skárastöðum heitir Guðrún Illugadóttir, 44 ára, með henni á hann tvær dætur ungar. Niðursetningur er á heimilinu, 11 ára drengur að nafni Guðni. Þá eru einnig á Skárastöðum húsmennskuhjón, Jóhann Jónsson og Ingibjörg Markúsdóttir, og búa þau í nyrðri enda baðstofunnar, og eru tvær hurðir milli baðstofuhlutanna. Í þjónustu Skárastaðaheimilisins eru tvær vinnukonur, Margrét Gunnlaugsdóttir, 28 ára, og Guðbjörg Guðmundsdóttir, 26 ára. Enn má telja kaupamanninn, Klemenz Bergmann Bjarnason, og vinnumanninn, Árna Árnason, en báðir þessir menn koma lítið við sögu, þó ekki með öllu afskiptir. Skárastaðabúið er kannski ekki mikið fyrirferðar miðað við stórbýli þeirra tíma, en þó er það síður en svo kotbýli. Jón Einarsson á Skárastöðum mundi að þeirrar tíðar hætti mega teljast bóndi í betra meðallagi, en þó hefur hann fyrr á ævinni gerzt sekur um hið klassíska afbrot íslenzkrar sakamálasögu: hann hefur verið bendlaður við sauðaþjófnað og sama máli gegnir um Guðmund son hans. En nú bar til stærri tíðinda á Skárastöðum, þótt saga okkar hefjist raunar á sauðaþjófnaði.

Það var í 14. viku sumars árið 1863 að Jón bóndi á Skárastöðum ætlaði að búa ferð sína suður á land til að flytja leigur af ábýlisjörð sinni. Hann hefur í huga að semja jafnvel um kaup á henni, svo að ekki hefur hann verið með öllu auralaus. En Jón bóndi vill ekki fara illa nestaður í þessa ferð og segir konu sinni að hann ætli að fá veturgamlan sauð að láni hjá Einari syni sínum, og skera sér til vegarnestis. Einar varð vel við þessu, sagði að sauðurinn gengi hér í kvíunum, og var hann sóttur þangað um kvöldið. Einar, sonur bónda, heimtaði þá trog af stjúpu sinni, Guðrúnu Illugadóttur, til að skera í sauðinn. Öll holdtrog húsfreyju voru undir mjólk, en trog það er hún mátti missa var lekt. Hún sótti þá fötu til að láta í blóðið, en þegar hún kom út á hlaðvarpann þar sem hún hugði vera slátrað fann hún hvergi þá feðga. Hún hélt þá að þeir mundu vera fyrir ofan bæinn og gekk þangað eftir kvíagötunni, en þar var þá ekki heldur að finna. Þá gekk hún inn sundið milli smiðjunnar og skemmunnar og heyrði mannamál. Voru það þeir feðgar, Jón og Einar, að skera sauðinn í skemmunni. Kastaði húsfreyja fötunni inn í skemmuna og gekk síðan inn í bæ.

Nokkru síðar kom Einar með sauðarkroppinn brytjaðan og sauð Guðrún kjötið um nóttina, en í býti um morguninn lagði Jón bóndi hennar af stað suður, vel nestaður. Þennan sama dag færði Einar henni innyflin úr kindinni og hausinn hornalausan. Húsfreyja tók þegar að svíða hausinn, en þegar hún var að skafa af honum sótið, tók hún eftir því að nýgerð sneiðing var aftan hægra á kindarhausnum, án þess þó blóð sæist á því, og hélt hún í fyrstu að þetta hefði orðið þegar hornin voru söguð af hausnum, en við nákvæmari athugun sá hún að framan á eyranu var gamalt mark, og á vinstra eyranu höfðu verið tveir bitar framan. Guðrún Illugadóttir vissi að þetta var ekki fjármark Einars Jónssonar. Hún skeytti þessu þó engu. En grunur hennar varð að vissu þegar hún tók að hreinsa ristilinn úr kindinni því að þá varð hún vör við að krókasteik var við ristilinn og var henni þá ljóst að þessi kind sem hún hafði soðið í nesti handa bónda sínum var gimbur, en ekki geldingur. Þegar hún var að hreinsa ristil „sauðarins“, gekk Einar stjúpsonur hennar fram hjá eldhúsdyrunum í þeim svifum, og kallaði hún þá til hans og sagði að það „væri fyndilegur sauður að tarna, fyrst í honum hefði verið krókasteik.“ Einar svaraði þessu engu og gekk þegjandi burtu.

Leið svo af sumarið og bar ekkert til tíðinda. En nokkru fyrir göngur var það eitt kvöld í miklu ofviðri að meiri hluta kvíaánna vantaði, en Guðni niðursetningur átti að smala. Guðrún Illugadóttir bað þá Einar stjúpson sinn að leita ánna og brást hann vel við og kom með þær allar von bráðar. Vegna veðurs voru ærnar látnar í hús og gengu stúlkurnar þangað til mjalta. Einar Jónsson kom þar í dyrnar og kallaði á Margréti Gunnlaugsdóttur vinnukonu og sagði henni að hann væri búinn að missa úr bráðapest tvævetran sauð sem hann hefði fengið hjá föður sínum vorinu áður. Þegar Margrét kom að hafði Einar þegar skorið höfuðið af kindinni en daginn eftir sauð hún innan úr henni svo og sviðin, og var maturinn borinn út í kofa, en þar var bækistöð Einars og Margrétar og Ingibjargar húskonu. Síðar um daginn kom Guðrún Illugadóttir húsfreyja út í kofann og sagði þá við Ingibjörgu að hér mætti sjá slátur, og tók upp annan kjammann af kindinni og leit á markið. Sá hún þá að þetta var hægri kjamminn og tvístýft framan á eyranu, en tvö neðri hnífsbrögðin á tvístýfingunni voru sýnilega gerð á kindinni dauðri, því að brjósk var hlaupið upp úr skinninu við suðuna. Guðrún var nú ekki í vafa um, hvers kyns var, brá kjammanum undir svuntu sína og fór með hann inn í búr. Þegar Margrét vinnukona kom heim um kvöldið, sýndi Guðrún henni markið. Margrét sagði að hún hefði ekki athugað markið á kindinni, en Einar hefði borðað hinn kjammann volgan. Felldu þær svo niður talið. En nokkru síðar var hægri sauðarkjamminn horfinn úr búri Guðrúnar Illugadóttur.

Húsfreyjan á Skárastöðum var gædd hinni glöggu athyglisgáfu íslenzku sveitakonunnar. Hún var ekki í neinum vafa um að Einar stjúpsonur hennar hefði stolið tveimur kindum á þessu sumri, að Jón bóndi hennar var bæði þjófsnautur og hylmari. En hún var ekki aðeins glögg á fjármörk. Athyglisgáfa hennar hafði einnig verið tamin við að horfa á vinnukonur heimilisins sem báðar höfðu gildnað undir belti hér um bil um sama leyti. Á Skárastöðum var ekki aðeins framinn sauðaþjófnaður. Þar gekk einnig á með hórdómi.

Hin fjölmenna stétt íslenzkra vinnuhjúa á 19. öld var ekki vön að skipta tímanum eftir almanaksárinu. Þeirra ár kallaðist krossmessuár, miðað við vinnuhjúaskildagann 14. maí. Um það leyti er krían kom frá Egyptalandi til að verpa á Íslandi tóku íslenzk hjú sig upp og höfðu vistaskipti, og þau skiptu oft um vistir. Þegar blaðað er í dómsmálabókum 19. aldar vekur það furðu lesandans hve íslenzk vinnuhjú eru víða í vistum, þau virðast vera á endalausu flakki milli húsbænda. Kannski var þetta eini munaðurinn sem fólk gat veitt sér innan vistarbandsins: að skipta um húsbændur á hverri krossmessu, kynnast nýju umhverfi, leita ævintýra í nýrri vist og afþreyingar frá venjubundnu striti vinnumennskunnar. Stúlka sú sem kom að Kárastöðum á krossmessu á vori 1862 var ein í hópi þeirra mörgu hjúa sem þá höfðu vistaskipti. Barn hafði hún verið í fóstri á ýmsum stöðum og síðan verið víða í vinnumennsku. Hún var einnig að leita ævintýrisins, kannski fyndi hún það á Skárastöðum, hver veit? Hún hét Guðbjörg Guðmundsdóttir og var 24 ára gömul.

Með komu Guðbjargar virðist allur friður hafa horfið af heimilinu á Skárastöðum. Bóndinn, Jón Einarsson, var sextugur að aldri, Guðrún, kona hans, 16 árum yngri, en þegar hin unga vinnustúlka er komin á heimilið halda karlinum engin bönd. Á grasafjalli um sumarið leggst vinnukonan með húsbónda sínum, og frá þeirri stundu er Guðrún Illugadóttir hornreka á heimili sínu. Hún verður jafnvel fyrir líkamlegum meiðingum. Eitt kvöld um haustið, þegar Jóhann Jónsson húsmaður var genginn til rekkju, kom Þórey, dóttir Jóns bónda, til hans og bað hann að hjálpa Guðrúnu, því að faðir sinn sé að berja hana. Hljóp Jóhann þá á fætur og út og sá hvar Guðrún lá flöt á götu suður á túninu, en maður hennar, Jón Einarsson, stóð yfir henni og var að sparka í hana.

Hin forsmáða eiginkona er þögull áhorfandi að ástaleik sextugs bónda síns og hinnar ungu vinnukonu. Hún segir aldrei neitt, en hefur augun hjá sér. Þegar líða tekur á haustið taka hin alsjáandi augu hennar eftir því að Guðbjörg er farin „að gildna eftir náttúrlegu eðli“, svo sem hún komst síðar að orði í réttarhöldunum. Á jólaföstu trúir Guðbjörg húsmóður sinni fyrir því að hún geti svarið fyrir alla karlmenn nema Jón bónda Einarsson á Skárastöðum. Um sama leyti kemur hún að máli við Ingibjörgu húskonu og segir að ef það kæmi á daga hennar að eiga barn þá skyldi hún aldrei lýsa föður að því annan en þann rétta. Í þeirri sömu andrá segist hún ekki hafa verið við annan karlmann kennd á Skárastöðum en Jón bónda.

Heimur íslenzku sveitabaðstofunnar á 19. öld var ekki stór, ástalíf manna fór ekki fram með mikilli leynd. Þær sofa allar þrjár í einu rúmi, heimasæturnar Þórey og Mildríður og Guðbjörg vinnukona. Dætur Jóns Einarssonar hafa tekið eftir því oftar en einu sinni að faðir þeirra læðist að næturlagi undir sængina hjá Guðbjörgu, og einu sinni gerist það slys að ástmaður hinnar ungu vinnukonu spyrnir hælnum í nefið á Mildríði dóttur sinni sem sefur til fóta svo að hún fær óstöðvandi blóðnasir. Dæturnar vita vel að Guðbjörg er ólétt eftir föður þeirra og þær segja þetta kaupamanninum að sunnan, Klemenz Bergmann Bjarnasyni, og hafa í flimtingum.

Þegar kemur fram á góu leggst Guðbjörg í rúmið og liggur í viku. Hún fær meðul við veikindunum, en getur ekki að sér gert að minnast á það við Guðrúnu Illugadóttur að ef til vill séu meðul þessi „leysandi“. Guðrún húsfreyja leggur þetta svo út að stúlkan óttist að henni leysist fóstur og að beiðni hennar fer húsfreyja höndum um bringspalir hennar og kvið beran, og þykist hún verða vör lífshræringa af fóstri. Þegar Guðbjörg er orðin rólfær leggst Jón bóndi Einarsson veikur og liggur í þrjár vikur. Þegar Guðrún kona hans ætlar að hjúkra honum, bera honum mat eða drykk, hreytir hann í hana fúkyrðum og þolir engum að vaka yfir sér eða hjúkra nema Guðbjörgu. Stundum leggst vinnukonan fyrir framan hjá húsbónda sínum, en fer þó ekki úr fötum, að því er vitni herma. En eftir að hafa hjúkrað Jóni bónda í sjúkralegunni bregður svo við að Guðbjörg harðneitar því í viðtali við húsfreyju að hún sé ólétt. Tók hún nú að klæða af sér þunga sinn, fór jafnan í sokka og úr þeim standandi, en það þótti heimasætunum harla kynlegt, og á annan hátt reyndi hún að láta líta svo út sem hún væri kona heil. Á góu var skorinn kálfur á Skárastöðum og var blóð úr honum látið í krukku sem geymd var í skáp uppi yfir rúmi Guðrúnar húsfreyju, en ekki vissi hún í hvaða tilgangi þetta var gert. En athygli hennar var sívökul og hún tók eftir því að smáminnkaði í krukkunni. Hana grunaði að Guðbjörg mundi nota blóðið til að rjóða með nærföt sín, svo að fólk héldi að hún væri kona er hefði á klæðum.

Þegar kominn var maímánuður var enginn á Skárastöðum í vafa um að Guðbjörg Guðmundsdóttir vinnukona væri komin langt á leið. En á næsta hjúaskildaga var vistráðum hennar lokið á Skárastöðum, og hún ræðst vinnukona að Ytri-Reykjum. Var þá sú kona farin af heimilinu sem mestum ófriði hafði valdið milli hjónanna um eins árs skeið. En þó batnaði samlíf þeirra lítt eða ekki.

Í 12. viku sumars 1863 bar gesti að garði á Skárastöðum. Þar var komin Guðbjörg Guðmundsdóttir ásamt öðrum kvenmanni frá Ytri-Reykjum og voru þær á leið til grasa. Jón bóndi Einarsson vildi þá sem ákafast fara með þeim til grasatekju, en þar sem hann var ekki þá þegar búinn til ferðar atvikaðist það svo að aðkomukonurnar frá Ytri-Reykjum voru þrjár nætur á Skárastöðum. Guðrúnu Illugadóttur brá mjög í brún er hún sá Guðbjörgu aftur. Fyrrverandi vinnukona hennar var orðin tággrönn! Sú kona sem borið hafði þunga sinn frá Skárastöðum fyrir nokkrum vikum gekk nú um létt og kvik í spori, og engar sögur fóru af því að hún hefði orðið léttari.

Guðrún Illugadóttir gekk til hennar og sagði alvarleg í bragði að hún skyldi ekki eiga þann vin er hún gerði þetta fyrir oftar. Guðbjörg sagðist þá vona til guðs að þess háttar mundi ekki koma fyrir sig og það hefði ekki verið sér að kenna, en fyrr skyldi hún drepa sig en hún játaði því öllu. Guðrún gekk þá á stúlkuna og innti hana eftir hvað hún meinti. En Guðbjörg vildi engu svara þar um, sneri sér við og gekk út í fjós og dvaldi þar nokkra stund, kom síðan út grátandi og fór inn til húshjónanna, settist á rúm, hnuggin og grátbólgin. Nokkru síðar lagði hún af stað til grasa ásamt stúlkunni frá Ytri-Reykjum og Jóni bónda.

Sagan af Guðbjörgu Guðmundsdóttur og fóstri hennar er gömul saga og algeng á 19. öld, svo sem víða má sjá í sakamálaskjölum frá þeim tíma, og hefur orðið viðkvæmum skáldum að yrkisefni. Guðbjörg kenndi þess þegar á áliðnu sumri, að hún fór kona ekki ein saman. Þegar liðið var fram á vetur sagði hún Jóni bónda frá því hvernig högum hennar var komið. Fyrstu viðbrögð hans voru þau að kannast ekki við að hann væri faðir að barni því er hún gengi með og taldi hana á að kenna það Árna Árnasyni, vinnumanni á Skárastöðum. Guðbjörg var ófáanleg til þess og sagði sem satt var, að hún hefði ekki hér á bæ kennt annarra karlmanna en húsbóndans. Þá brá Jón Einarsson á glens við hana og sagði að víst væri hún ekki ólétt, þetta væri allt hugarburður hennar. En þegar fram liðu stundir og þungi stúlkunnar óx með eðlilegum hætti og stúlkan hélt áfram að nauða á honum, réð hann henni til að „láta barnið ekki koma í ljós“. Hann varð viðskotaverri eftir því sem lengra leið, og eitt sinn sagði hann við hana að hún skyldi „hitta sig fyrir“ og að sér þætti ekki mikið fyrir að drepa sig, ef „barnið kæmi í ljós“. Guðbjörg virðist hafa unnað þessum aldurhnigna kvennamanni hugástum og hún varð mjög hrædd við þessi orð. Hún minntist þess að einu sinni hafði hann í reiðikasti hlaupið út með skegghníf sinn og ætlað að skera sig. Ekkert varð þó úr því og sjálfsmorðingjaefnið lét sér nægja að rista bitið úr rakhnífnum með því að reka hann í bæjarvegginn. Þá lagði Guðbjörg hendur um háls honum og bað hann vera góðan, en hann hótaði að drepa hana ef hún léti sig ekki kyrran. Jón bóndi Einarsson virðist hafa verið skapbráður maður og kunnað litla stjórn á geðsmununum. Þegar liðið var seint á vetur var Guðbjörg farin að íhuga í fullri alvöru að fyrirkoma barninu eftir síendurteknar fortölur Jóns bónda, barnsföður hennar, og var það orðinn ásetningur hennar um það leyti er hún fór vistferlum frá Skárastöðum á krossmessu 1863.

Á Ytri-Reykjum svaf Guðbjörg hjá vinnukonu sem hét Júlíana Ólafsdóttir. Þremur vikum eftir að hún kom þangað bar svo til eina nótt að hún kenndi fyrstu fæðingarhríðanna. Hún staulaðist á fætur og gekk út í haga og ól þar meybarn. Hún hafði engin verkfæri með sér og sleit naflastrenginn, og grét þá barnið. Hún vafði barnið í klútrýju án þess að binda fyrir og hélt svo á því í kjöltu sinni, þangað til það var dáið. Síðan gróf hún það í mold með berum höndunum.

Nokkrum dögum síðar kom hún aftur á staðinn og hafði nú með sér reku. Hún tók barnið upp og gróf það skammt í útnorður frá beitarhúsunum á Ytri-Reykjum. Kom þá yfir hana æði, svo að hún vissi ekki hve lengi hún var að þessu, né vissi heldur örugglega hvar hún hafði grafið það. Gröf þessa barns fannst raunar aldrei þrátt fyrir mikla leit.

Nokkru eftir að Guðbjörg hafði alið barnið kom Jón bóndi Einarsson að Ytri-Reykjum. Hann hafði orð á því með nokkrum hálfkæringi að hún væri orðin grennri. Hún svaraði að það væri eftir „náttúrlegheitum“ og hann mætti bezt vita um sína hagi. Hann svaraði fáu til um þetta, en gaf í skyn að fleiri mundu eiga þar aðild að en hann. Hvorki þá né síðar sagði hún honum frá því berum orðum hvað hún hefði gert af barninu. Um sumarið og veturinn næsta kom Jón oft að Ytri-Reykjum að hitta barnsmóður sína. Stundum var hann drukkinn og lagði þá hendur á hana og hratt henni og atyrti hana. En jafnan hafði hann þau orð um að hún væri sér ekki trú og voru vottar að tali hans. Guðbjörg tók sér þetta mjög nærri og vitnaði til guðs að hann hefði sig fyrir rangri sök og hún hefði gert of mikið fyrir hann til þess að hann ætlaði sér slíkt. Slíkir voru samfundir Guðbjargar og Jóns þegar hann kom að heimsækja hana á Ytri-Reykjum.

Um nýársleytið 1864 var Guðbjörg Guðmundsdóttir léð til vistar aftur að Skárastöðum. Eitt kvöld var Jón Einarsson ölvaður svo sem oft bar við og nokkuð laus tungan. Allt heimafólkið var í baðstofu og þá spurði Jón Guðbjörgu, hvort hún hefði kjaftað frá því í nokkurn að hún hefði verið ólétt, ef svo væri skyldi hún nú segja sér það, því að „ef þær Guðrún, kona mín, sem var, og Margrét Gunnlaugsdóttir bera það báðar þá er úti um okkur.“ Guðbjörg reyndi að sefa hinn ölvaða mann og sagði að hún hefði ekki sagt það, sem ekki hefði verið. Næsta dag komu yfirvöld sýslunnar til Skárastaða og settu Guðbjörgu Guðmundsdóttur í varðhald. Nokkru síðar var Jón Einarsson einnig fangi.

Í réttarhöldunum sagði Jón á Skárastöðum söguna um viðskipti hans og Guðbjargar nokkuð á annan veg en hér hefur verið sagt. Hann neitaði að hafa hvatt Guðbjörgu til að fyrirkoma barni því er hún gekk með. Þegar hann hafi talað við hana um að barnið „kæmi ekki í ljós“, hefði hann aðeins átt við að hún mundi ef til vill ala barnið í blóðlátum. En framburður hans er í þessu efni sem mörgum öðrum lítt trúverðugur.

Laugardaginn 12. nóvember 1864 var að Geitaskarði lesinn upp dómur yfir hinni ungu stúlku sem alið hafði barn sitt í haga og látið því blæða út í kjöltu sér og grafið það svo að aldrei fannst, og hinum aldraða húnvetnska bónda sem var jafndjarftækur til kvenna sem sauða. En á sakamannabekk Húnavatnssýslu sátu fjórir aðrir heimilismenn frá Skárastöðum: Einar, sonur Jóns bónda, og barnsmóðir hans, Margrét Gunnlaugsdóttir, bróðir hans, Guðmundur, og systir hans, Margrét Jónsdóttir, bústýra á Gilsbakka. Sakargift þessa fólks var barnsmorð og þjófnaður. Áður en dómur er kveðinn upp yfir þeim Guðbjörgu Guðmundsdóttur vinnukonu og Jóni bónda Einarssyni skal rakið afbrotamál þessa fólks.

II

Í kjölfar kynferðisafbrota og hinna ómannúðlegu refsinga sem við þeim voru lagðar á Íslandi sigldi oftar en ekki það sem verra var: fóstureyðingar og barnsfæðingar í dulsmáli. Um allar sveitir Íslands þóttust menn heyra útburðarvæl þegar undarleg og ókennileg veðurhljóð bárust að eyrum úr holtum og kvíaveggjum og frægust þjóðsagna er sagan um barn eitt útborið er bauð móðurinni duluna sína að dansa í.

Skárastaðamálið í Húnaþingi skortir ekki hina klassísku dráttu íslenzkrar afbrotasögu: Þar kemur bæði fyrir sauðaþjófnaður og barnsútburður. En áður en málið var allt hafði það tekið á sig svip hrollvekju sem ekki er algeng í sakamálum íslenzkum. Og nú hverfum við aftur að Skárastöðum, þar sem síðast var sagt frá ástum Jóns Einarssonar bónda þar og vinnukonunnar, Guðbjargar Guðmundsdóttur, er lét barni sínu nýbornu blæða út og gróf það svo vendilega að leg þess fannst aldrei síðan.

Það var í níundu viku sumars árið 1863 að vinnukona á Skárastöðum, Margrét Gunnlaugsdóttir að nafni, ól piltbarn eitt fullburða, og vó það 14 merkur. Í skírninni hlaut sveinninn nafnið Jón Sigurður, og sagði móðirin son Skárastaðabóndans, Einar Jónsson, föður að barninu. Ekki vildi bóndasonur kannast við að hann ætti barn þetta, og liðu svo stundir fram nokkra hríð. En þótt hann vildi ekki kannast við þennan unga íslenzka þegn dafnaði barnið fremur vel og var ekki að sjá á því nein veikindamerki fyrstu viku ævi þess, en þar á eftir fékk það stundum munnsviða nokkurn og „lífsýki“, eins og það var kallað á þeirrar tíðar máli, og mun hafa verið kveisustingur, svo sem títt er um smábörn fyrr og síðar. Þó orkuðu þessir kvillar ekkert á framför þess. Hinn föðurlausi hnokki dafnaði vel og allt virtist leika í lyndi. Móðirin hugsaði vel um barnið og hafði yndi af því, að því er allir vottuðu á heimilinu.

Þegar Jón litli Sigurður var fimm vikna gamall bar svo við á einu laugardagskvöldi að hann hafði nokkur kvefþyngsli fyrir brjóstinu, en ekki fylgdi þessu hiti eða andarteppa. Hann var nú farinn að sofa í rúmi og tekinn úr meisnum sem verið hafði fyrsta vagga hans. Þetta kvöld fór Margrét Gunnlaugsdóttir, móðir hans, fram á kvíastekk ásamt öðru kvenfólki á bænum til að mjólka ærnar. Þar á bænum var húsmaður einn að nafni Jóhann Jónsson og bað móðirin hann að hafa af fyrir barninu meðan hún mylkti fénaðinn. Hún var um það bil eina klukkustund að mjöltunum, en þegar hún kom heim aftur hafði barnið verið flutt í rúm hennar — og þar lá það andað.

Það má rekja viðburðarásina á þessari klukkustundu sem leið meðan Margrét Gunnlaugsdóttir var að mjöltum, á þessa lund: Um það bil er kvenfólkið fór til kvíaánna kom Einar Jónsson inn í norðurenda baðstofunnar þar sem Jóhann húsmaður sat á rúmi sínu og hugaði að barninu. Einar hafði verið að slætti úti á túni og nú settist hann á kistu gegnt rúmi Jóhanns, en síðan færði hann sig yfir á hans rúm og settist við hlið hans. Um það leyti var barnið farið að leggja aftur augun og móka og andaði létt án brjóstþyngsla. Bauðst Einar þá til að bera barnið inn í rúm móðurinnar sem var í suðurenda baðstofunnar, en tvær hurðir voru í milli baðstofuendanna. Barnið var rótt og þagði meðan það var hjá Jóhanni húsmanni, og eftir að Einar hafði farið með það í suðurenda baðstofunnar heyrði hann ekkert hljóð frá því. Og er Jóhann húsmaður þar með úr sögunni.

En það er af Einari að segja að hann bar barnið inn í rúm móðurinnar og settist þar. Í þeim svifum komu inn í stofuna krakkar tveir á bænum, Guðni Þorláksson, niðursetningur á 12. ári, og yngsta dóttir hjónanna, Jóhanna Margrét, sjö ára. Guðni sá að barnið sneri fram en sængin breidd upp yfir höfuð svo að rétt sá á koll þess. Einar sat svo á rúminu að hann hafði vinstri höndina í knjám sér, en hægri hendi hélt hann við hnakka barnsins, og að því er drengnum sýndist hélt hann í hálsklút þess sem hnýttur var að aftan. Þegar Einar sá krakkana skipaði hann þeim að fara út og gá að því hvort Mildríður systir sín væri komin með hestana sem hún hefði átt að sækja. Krakkarnir hlýddu og gengu út á hlaðið, en litlu síðar kom Einar út til þeirra og skipaði þeim að vera hjá barninu og gá að hvort það hljóðaði. Drengurinn gekk þá inn í baðstofuna og tók sængina frá andliti barnsins. Var það þá mjög hvítt í framan og gat hann ekki séð að það drægi andann. Hvorki þá né áður heyrði hann barnið gefa frá sér hljóð.

Þegar móðirin, Margrét Gunnlaugsdóttir, kom heim frá mjöltunum og sá að sonur hennar var liðinn, varð hún mjög harmþrungin. Skuggsýnt var í baðstofunni, en þó tók hún eftir lítilli holu á stærð við prjónshöfuð utarlega á enni barnsins yfir hægra auganu. Ekki skoðaði hún barnið betur í það sinn, en bjó um líkið á fjöl við rúmstokkinn. En þegar lýsti af morgni sá hún að storkið blóð var í holunni á enni barnsins, á mjóhryggnum voru bláir blettir, misjafnir að stærð, en ekki náðu þeir saman, aftur á móti var holið allt frá bringspölum niður í smáþarma blátt eða blárautt. Ekki sá hún aðra áverka á barninu.

Guðrún Illugadóttir, húsfreyja á Skárastöðum, og Ingibjörg Markúsdóttir húskona litu lauslega á líkið um kvöldið og töldu þær báðar að barnið hefði orðið bráðkvatt. Það var einnig álit Jóhanns Jónssonar húsmanns. Einhver grunur mun hafa vaknað þá þegar hjá móðurinni að barnið hefði ekki dáið með eðlilegum hætti og því datt henni í hug að koma skilaboðum til Jóns Björnssonar, fyrrum hreppstjóra á Bjargarstöðum, að gera kistu utan um barnið og skoða það þá um leið. En í þeim svifum kom Jón bóndi Einarsson heim úr ferðalagi og var á leið suður; vildi hann þá ólmur smíða utan um drenginn, og Einar sonur hans var þess einnig mjög fýsandi. Varð það að ráði að Jón á Skárastöðum gerði barninu kistuna og voru þau Margrét Gunnlaugsdóttir ein við kistulagninguna. Einar Jónsson fylgdi Margréti á kirkjustaðinn þar sem barnið var grafið og reiddi kistuna fyrir framan sig.

Svo undarlega vildi til að Einar breytti nú mjög öllum háttum sínum við Margréti eftir lát hins fimm vikna gamla drengs, Jóns Sigurðar. Hann gekkst nú jafnvel við barninu og gerðist blíður og ljúfur í viðmóti við hana. En grunur móðurinnar, að barnið hefði látizt af mannavöldum, lét hana aldrei í friði, og oftar en einu sinni lét hún það í ljós við Einar barnsföður sinn að drengurinn hefði dáið af hans völdum. En hann tók þvert fyrir það og vitnaði jafnan til guðs um sakleysi sitt. Stundum ræddi hún um það við Einar að hún yrði að láta grafa barnið upp og skoða það. Þá var Einar vanur að snúa viðræðunni í kaldranalegt glens með nokkurri ógnun, kvað það mundu geta orðið kostnaðarsamt fyrir hana. Eftir dauða barnsins höfðu þeir feðgar, Jón og Einar, allsterkar gætur á henni og vildu ekki leyfa henni að fara bæjarleið af heimilinu, jafnvel ekki til kirkju. Þegar Jón bóndi var farinn að verða fastari við heimilið en áður hafði verið hafði hann jafnvel gætt þess að hún færi ekki í heimsókn í norðurenda baðstofunnar til þeirra húshjóna, Jóhanns og Ingibjargar, og sótti hana þangað ef hún var þar stödd. Að lokum var hún orðin hrædd við að búa á Skárastöðum hjá þeim feðgum. Einu sinni þegar þeir voru báðir að heiman fór hún með leynd að Hnausakoti, en Einar barnsfaðir hennar elti hana þangað og þröngvaði henni að fara aftur heim að Skárastöðum. En hún þóttist ekki vera þar lengur óhult um líf sitt, einkum eftir að Jón bóndi hafði sagt það ódrukkinn í áheyrn hennar og dætra sinna að sér þætti ekki mikið fyrir að drepa þetta helvítis hyski og sjálfan sig á eftir. Loks tók hún rögg á sig í nóvembermánuði 1863 og flýði alfarin að Bjargarstöðum, enda var þá sá kvittur farinn að ganga ljósum logum að barn hennar hefði dáið af manna völdum. Þessi kvittur virðist helzt hafa verið runninn undan rifjum Þóreyjar Jónsdóttur, systur Einars á Skárastöðum.

Áður en drengurinn Jón Sigurður andaðist með svo sviplegum hætti hafði Þórey Jónsdóttir sem var 18 ára að aldri, séð Einar bróður sinn ganga tvisvar að barninu þar sem það lá í meis sínum og klípa það svo það veinaði hátt. Þegar hún sá hann gera þetta í síðara skiptið, svaraði hann henni forhertur að hún „lygi það“. Þórey sagði flestum á Skárastöðum frá misþyrmingum þeim er Einar hefði haft í frammi við barnið, en svo virðist sem fullorðna fólkið hafi ekki trúað sögusögn hennar. Meðal þeirra var Ingibjörg Markúsdóttir húskona. En þó kom þar að hún lagði trúnað á sögu heimasætunnar. Sunnudaginn áður en barnið andaðist bar svo við að Einar Jónsson naut helgi hvíldardagsins og var að lesa í Jóns postillu Vídalíns, en barnið lá í rúmi gegnt honum. Þegar það tók að vola stóð Einar upp og stakk dúsu svo hranalega upp í barnið að það varð alblóðugt um munninn. Móðirin kom þá að í þeim svifum og spurði hverju þetta gegndi og svaraði Einar þá að krakkinn hefði „munnsviða“. Fyrir þessar sakir varð Þórey svo hrædd um barnið fyrir Einari bróður sínum að hún varaði móður þess við að láta það vera eitt í návist hans og yngri systrum sínum sagði hún einnig að fara aldrei frá barninu ef Einar væri nálægur. Eftir brotthlaup Margrétar Gunnlaugsdóttur frá Skárastöðum fékk sagan um hið voveiflega andlát barns hennar undir sig fætur og í byrjun árs 1864 hóf sýslumaður Húnavatnssýslu rannsókn í málinu. Í lok janúar var lík barnsins grafið upp og skoðað af Jósep Skaftasyni héraðslækni, og fann hann greinilegan áverka á höfuðbeinum þess. Á dómþingi sem haldið var að Hnausakoti þann 1. febrúar, sagði Þórey Jónsdóttir frá atviki sem varpaði nokkrum skugga á Margréti Gunnlaugsdóttur: Þær hefðu báðar verið úti á túni að raka nokkru eftir jarðarför barnsins. Hafði Margrét þá sagt henni frá holunni á enni barnsins fyrir ofan augabrúnina og bætt því við að hún skyldi segja frá því að sézt hafi á því ef Einar barnsfaðir sinn gengi ekki að eiga sig. Þessi vitnisburður Þóreyjar var undanfari annars og hættulegri framburðar Einars Jónssonar er hann ætlaði að draga barnsmóður sína með sér í þá sekt sem hann var fallinn í.

Þennan sama dag að Hnausakoti var Einar Jónsson yfirheyrður í fyrsta skipti og hélt þá fram fullu sakleysi sínu að dauða barnsins. Hann kannaðist nú við að vera faðir að því barni sem Margrét Gunnlaugsdóttir hafði alið næstliðið sumar á Skárastöðum. Þá kvaðst hann hafa tekið við barninu að beiðni Jóhanns húsmanns og flutt það hálfsofandi í rúm móðurinnar. Var það þá heilbrigt, að því er hann fékk bezt séð. En ekki fékkst hann í þessari rennu til að játa neitt á sig. Gekk þá fram Jósep Skaftason héraðslæknir og lagði fyrir sakborning hálfrotnað lík barnsins og sýndi honum áverkana á höfuðbeinum þess. Dómsmálabókin kemst svo að orði í þessu tilviki, að vitnið sýndist „vikna við og láta í ljós grátkjökur“, en samt var „ekkert svar eða játningu að fá“.

Fimm dögum síðar gafst Einar upp fyrir sönnunargögnum vitna og líkskoðunar og sagði nú þá sögu sem hann hélt síðan fast við allt til loka. Í fyrsta lagi neitaði hann að hafa klipið barn sitt og að það hefði borið í tal við Þóreyju, systur hans. En síðan sagðist honum svo frá að hann hefði skömmu fyrir dauða þess komið upp á kvíar þar sem Margrét sat ein að eftirmjöltum. Spurði hún hann þá hvort hann vildi ekki ganga að eiga sig. Einar fór undan í flæmingi og sagðist eigi vita með vissu hvort hann vildi eiga hana. Hún sagði þá að það mundi vera óhætt því að hægt væri að koma fyrir barninu. Síðan hættu þau þessu tali.

Nokkru seinna bar svo til að hann kom að henni í eldhúsi þar sem hún var að þvo. Hann kastar á hana kveðju og segir að hún sé þá að þvo, og jánkar hún því. Hún hafði veður af að hann kæmi úr baðstofu, og spurði hvort barnið svæfi. Hann sagði að svo væri og sæti Mildríður, systir sín, hjá því. Þá segir Margrét upp úr þurru að rétt væri að drepa barnið og um leið lét hún í ljós það álit að ekki þyrfti að komast upp þótt því yrði sálgað. Hann kvaðst þá hafa sagt að það vildi hann ekki gera og svaraði hún því til að „það væri ekki mikilsvert“. Ekki ræddu þau oftar um þetta mál áður en barnið dó.

Samkvæmt framburði Einars hafði þetta furðulega hjal barnsföður og barnsmóður setið í honum og þegar hann tók við barninu af Jóhanni húsmanni hafði hann lagt það upp í loft í rúm móðurinnar og ráðið það af dögum með því að leggja þumalfingrinum á ennið hægra megin utarlega fyrir ofan augabrúnina, en tekið hinum fingrunum aftur fyrir hnakkann og þannig þrýst höfðinu saman snögglega og við þetta tak hafði hann heyrt lítilfjörlegt hljóð til barnsins og það hvítnað upp. Þetta sama kvöld hafði hann ekkert látið bera á þessu, en morguninn eftir sagði hann móðurinni frá því. Voru þau þá stödd einsömul úti á hlaði, og svaraði hún á þá lund að það gilti einu og aldrei skyldi hún segja frá því. Eftir að barnið var viðskilið hafði hann ekki séð líkið nema tilsýndar og því ekki tekið eftir því hvort nokkuð sæi til áverka á því. En upp frá þessu hafi þau Margrét aldrei rætt um viðskilnað barnsins.

Þessi hroðalega lýsing á drápi hins fimm vikna gamla drengs varð upphaf að miklum réttarhöldum. Frá því að Einar Jónsson gerði játningu sína stóðu þau yfir með nokkrum hléum í níu mánuði, eða fram í byrjun nóvember. Sýslumaður reyndi árangurslaust að fá samræmi í framburð barnsföður og barnsmóður. En þar stóð staðhæfing gegn staðhæfingu. Margrét Gunnlaugsdóttir þverneitar að hafa átt umræddar viðræður við Einar á kvíunum og í eldhúsi, en hann heldur því staðfastlega fram að þessar samræður hafi fyrstar vakið í honum þann ásetning að farga barninu. Margrét staðhæfði að grunur sinn um að Einar væri valdur að dauða barns síns hefði ekki vaknað fyrr en alllöngu eftir lát þess. Einar hefði þá látið vel að sér, sagzt jafnvel hafa spurt prestinn, hvort hann mundi hafa nokkuð á móti því að lýsingar færu fram með þeim, ef þess yrði farið á leit. Og hin umkomulausa stúlka fellur fyrir blíðu barnsmorðingjans: skömmu eftir andlát drengsins hefjast aftur holdlegar samfarir með þeim, og þeim heldur áfram eftir að grunur hennar hefur vaknað. Grátandi játar hún það fyrir dómaranum að hún sé aftur þunguð af völdum Einars Jónssonar á Skárastöðum og sé komin langt á leið. Hún hafi vitað að breytni sín væri röng, en hún hafi ekki þorað annað en láta að vilja hans; hún hafi lengi ekki séð sér fært að komast burt frá Skárastöðum, en gengið að því vísu að þótt hún segði orsökina mundi hún verða rengd á bæ og af bæ. Hún segir við dómarann undir lok réttarhaldanna að það hafi verið ófyrirgefanlegt umhugsunarleysi og tilfinningaleysi að leggja lag sitt saman við hann aftur og hún geti ekki fundið sér neitt til afsökunar í því tilliti annað en að hún hafi verið búin að binda svo huga sinn við hann og viljað eiga hann að henni hafi fundizt hún ekki geta slitið samvistum við hann af grunsemd einni saman sem kynni að vera röng í verunni. Hún neitar því harðlega að Þórey hafi það rétt eftir sér að hún mundi segja frá áverkunum á líki barnsins ef Einar vildi ekki ganga að eiga sig. En þegar hún hafi fengið nokkurn veginn fulla vissu um að dauði barns hennar var af völdum hans þá hafi hún drifið sig burt frá Skárastöðum, þótt hún biði töluvert tjón á eigum sínum og hefði ekki fengið kaup sitt goldið.

Eigur þær sem Margrét Gunnlaugsdóttir talaði um í þessum réttarhöldum voru kistur tvær læstar, og hafði hún lyklana með sér þegar hún fór alfari frá Skárastöðum. Í þessum kistum var öll sú auðlegð er hún hafði sparað saman í mörgum vistum, síðan hún var á barnsaldri. Þar voru munaðarvörur alþýðunnar á þessari öld, kaffi og sykurlús, erlent klæði er hafa skyldi í sparipilsið, léreft, nálhús og skrautmunir. Þegar farið var að vitja þessara muna, kom í ljós að þeir feðgar, Jón Einarsson og synir hans, Einar og Guðmundur, höfðu sprengt upp kisturnar með lagjárnum og stolið öllu sem í þeim var og komið þýfinu fyrir á Gilsbakka hjá Margréti systur þeirra bræðra. Fyrir réttinum bar Einar Jónsson það að Margrét Gunnlaugsdóttir hefði stolið frá sér 12 ríkisdölum. Þessu var hnekkt með líkum sem jafngiltu sönnunum. Hann bar það einnig fyrir réttinum að hún hefði misst barn sitt liðið á gólfið þegar hún afklæddi það kvöldið sem það andaðist. Þetta var gert í þeim tilgangi að skýra marblettina á mjóhrygg og kviðarholi barnsins. Vitnisburður heimamanna hnekkti einnig þessum áburði, en sjálfur var hann ekki sjónarvottur að þessu. Fram til hins síðasta reyndi hann að draga hina ungu, ógæfusömu stúlku með sér í sektina. En sekt hans sjálfs var auðsæ og sönn, um það varð ekki villzt.

Laugardaginn 12. dag nóvembermánaðar 1864 lauk þessu langa og tvíþætta morðmáli með dómsúrskurði að Geitaskarði. Tveir sakborningar voru dæmdir fyrir barnsmorð: Einar Jónsson á Skárastöðum fyrir að hafa fargað fimm vikna gömlu barni sínu, Guðbjörg Guðmundsdóttir vinnustúlka, ástkona Jóns bónda Einarssonar á Skárastöðum, fyrir að hafa borið út barn sitt nýfætt. Þau voru bæði dæmd til höggs, en höfuð þeirra setjast á stjaka að fornum aftökusið.

Jón Einarsson var dæmdur til að sæta þriggja ára betrunarhússerfiði, en að öðru leyti vera sýkn af frekari ákæru réttvísinnar. Réttvísin hefur í þessu tilviki litið mildum augum á hlutdeild hans í verknaði barnsmóður hans.

Guðmundur Jónsson vinnumaður, sonur hans, var dæmdur í 40 vandarhögga hýðingu og vera undir eftirliti lögreglustjórnarinnar í eitt ár.

Margrét Jónsdóttir, systir hans, bústýra á Gilsbakka, var dæmd í 10 vandarhögga hýðingu fyrir að hylma yfir þjófstolna muni.

En Margrét Gunnlaugsdóttir, barnsmóðir Einars Jónssonar, var dæmd sýkn af frekari ákærum réttvísinnar.

Landsyfirrétturinn í Reykjavík samþykkti 31. júní 1865 héraðsdóminn í öllu tilliti, og hæstiréttur í Kaupmannahöfn staðfesti dauðadóminn yfir barnamorðingjunum 5. desember 1866.

Það er auðsætt af dómsúrslitum þessa máls að yfirvaldið hefur ekki tekið mark á hinum rosalegu ákærum Einars Jónssonar sem gerði sér slíkt far um að draga barnsmóður sína með sér á höggstokkinn. Enda verður því ekki neitað: Einar á Skárastöðum var ekki trúverðugt vitni. Hann var óprúttinn í öllum sínum lífsháttum og sú sök sem hann var dæmdur til að láta fyrir höfuð sitt er með eindæmum í sakamálasögu Íslands. Glæpur hans á lögheimili í kolsvörtum myrkviði sálsýkisfræðinnar. En það virðast einnig hafa verið myrk og torráðin djúp í sálarlífi barnsmóður hans, Margrétar Gunnlaugsdóttur sem sýknuð var af allri sök. Það er eitt atriði í hennar máli sem vekur tortryggni: framburður Þóreyjar Jónsdóttur um samtal þeirra Margrétar vinnukonu við raksturinn á Skárastaðatúninu. Þórey Jónsdóttir virðist sérlega trúverðugt vitni, ef marka má réttarskjölin, og hvað gat komið henni til að ljúga upp orðum Margrétar? Þórey verður fyrst allra á Skárastaðaheimilinu til þess að halda vörð um litla hvítvoðunginn fyrir illmannlegum tilburðum bróður síns. Hún gefur Margréti einnig þann vitnisburð að hún hafi verið góð og ástrík móðir, og gerir sitt til að eyða rógmælgi bróður síns um að Margrét hafi hvatt hann til illræðisverksins. Hafi Margrét Gunnlaugsdóttir sagt við hana í túnflekknum að hún skyldi koma upp um Einar Jónsson ef hann gengi ekki að eiga sig þá er framburður hennar um sinn síðborna grun vísvitandi rangur. Og þá hefur Margrét Gunnlaugsdóttir elskað Einar Jónsson svo mjög að hún gat hugsað sér að bindast morðingja barns síns ástar- og trúnaðarböndum. Hvarf hún kannski ekki frá Skárastöðum fyrr en hún var orðin úrkula vonar um að mega njóta hans sem eiginkona? Þannig geta menn spurt, og svarið fer eftir því hvort trúa má framburði Þóreyjar Jónsdóttur eður ei. Ef lagður er trúnaður á orð hennar, þá er Margrét Gunnlaugsdóttir einnig ein af ráðgátum kvenlegrar sálfræði.

———-

Ýmsar sögusagnir hafa gengið manna á milli í Húnavatnssýslu í sambandi við Skárastaðamálið, og skal enginn dómur lagður á sannleiksgildi þeirra, en heimildir að frásögn þeirri sem hér hefur birzt, hafa eingöngu verið sóttar í dómsmálabækurnar.

Þess ber þó að geta að dauðadóminum sem Einari Jónssyni og Guðbjörgu Guðmundsdóttur var ákveðinn lögum samkvæmt, var aldrei fullnægt. Þau voru flutt á Brimarhólm, en komu bæði heim aftur og lifðu í allmörg ár eftir það og voru þá vel látin.

Jón Einarsson skildi við konu sína og bjó síðar að Hofsseli á Skagaströnd með konu sem hét Elín Semingsdóttir. Þar lézt Jón árið 1876.

Jón Einarsson var prýðilega hagmæltur, og höfð er eftir honum þessi vísa sem ber vott um einlæga iðrun undir lokin:

                        Geng ég lotinn grátt með hár,

                        græt mín brotin stóru.

                        Burtu flotin æviár,

                        illa notuð vóru.

(Fýkur í sporin, 1972)

 

1,397