trusted online casino malaysia
Esther Ösp Gunnarsdóttir 09/09/2014

Della

Ég hef fengið ýmis konar dellu í gegnum tíðina. Mér finnst gaman að prjóna og stundum prjóna ég eina peysu, þrjú pör af vettlingum og tvö teppi í einum og sama mánuðnum. Svo legg ég prjónana til hliðar og snerti þá ekki nokkra mánuði. Í millitíðinni rifja ég upp ljósmyndadelluna, vefsíðudelluna eða eitthvað allt annað. Ég staldra aldrei mjög lengi við í einni dellu og það er einmitt út af þessu margklofna áhugasviði sem ég á svolítið erfitt með að skilja fólk sem er með eina meiriháttar dellu, jafnvel svo árum skiptir.

Þegar ég átti von á mínu fyrsta og eina barni stóð ég allt í einu frammi fyrir því að ég varð eiginlega að fá barnadellu.1 Valmöguleikarnir þegar kom að einföldustu ákvarðanatökum voru svo ógnarmargir og miklu fleiri en mig hafði nokkurn tíma grunað. Ég hélt t.d. að það yrði frekar einfalt mál að kaupa barnavagn. Ég hélt að ákvarðanirnar sem þyrfti að taka væru í mesta lagi þrjár: Gróf eða slétt dekk, samanbrjótanlegan eða ekki samanbrjótanlegan og svo í hvaða lit ég vildi herlegheitin. Já, nei. Þetta var aldeilis ekki svona einfalt. Vildi ég vagn með kerrustykki? Innfelldu flugnaneti eða lausu? Og með systkinapalli?Ég spurði vinkonurnar, enda hoknar af reynslu í þessum efnum, en kom að tómum kofanum. Það þýddi víst ekkert að gefa mér einhverjar almennar leiðbeiningar um hvað ég ætti að kaupa. Það væri algjörlega út í hött. Ég yrði bara að leggjast yfir þetta, skoða og bera saman, til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvers konar vagn hentaði mér og barninu mínu. Fjandinn! Af hverju í ósköpunum er ekki bara til einn barnavagn, hannaður og framleiddur af íslenska ríkinu? Ég hreinlega nennti ekki að gera mér upp svona mikinn áhuga á barnavögnum.3 Engu að síður fór ég nú að lesa og skoða. Bara smá samt, því mjög fljótlega rakst ég á þessa auglýsingu og gafst endanlega upp á sömu sekúndunni: „Viltu spóka þig um götur borgarinnar með litla kraftaverkið þitt í vagni sem fær hinar mömmurnar til að snúa sér við.“

Önnur ákvarðanataka sem lá fyrir var um valið á milli þess að hafa barnið í bréfbleium eða taubleium.4 Yfirborðskenndur samanburður leiddi tvennt í ljós: Taubleiur voru langtum betri fyrir umhverfið og til lengri tíma talsvert ódýrari. Valið var því ekki erfitt og ég skráði mig í hóp um taubleiur á Facebook. Ég hélt nefnilega að þannig myndi ég verða fljót að setja mig inn í þessi mál án þess þó að þurfa að kynna mér þau eins vel og barnavagna. Enn einn misskilningurinn af minni hálfu.5 Þvílíkur frumskógur! Fyrst hélt ég að í hópnum talaði fólk ekki íslensku því þarna voru mömmurnar6 að segja frá að þær ættu prefolds, cover og AIO, að uppáhaldsbleiurnar væru BG og TB að flestar væru OS. Þarna eru bleiur sko ekki bara bleiur, eins og margur hefði getað haldið í fávisku sinni. Nei, því það skiptir t.d. sumar mömmur máli að geta klætt barnið sitt í taubleiur í réttri litaröð yfir daginn, sem sagt byrja á þeirri gulu, velja næst rauðu o.s.frv. Ég þraukaði aðeins lengur í upplýsingaleit um bleiur en barnavagna en það er skemmst frá því að segja að henni lauk svona um það bil þegar ég las auglýsingu um notuðu taubleiurnar sem „aldrei hafði verið kúkað í“.


 

1 Samt ekki dellu fyrir börnum sko, heldur dellu fyrir öllu þessu drasli sem okkur er sagt að þau þurfi nauðsylega á að halda. 

2 Ég vissi ekki einu sinni hvað systkinapallur var. Ok, ég veit það eiginlega ekki ennþá. 

Ég óskaði þess reyndar einu sinni að ég hefði reynt að setja mig aðeins betur inn í þessi mál. Þá var ég búin að standa yfir vagninum sem við keyptum í rúman hálftíma og gat alls ekki skilið hvernig ætti að rífa vagnstykkið af til að setja kerrustykkið á. Ég íhugaði mjög alvarlega að hringja í bróður minn, bifvélavirkjan.

4 Í huga lesenda sem eru komnir af barneignaaldri merkir orðið taubleia allt annað en það gerir í dag. Gúgglið þetta áður en ykkur svelgist illa á kaffinu, því þið eru líklega að hugsa um hvítu tuskurnar með nælunni sem allir voru svo fegnir að losna við.

5 Þetta fer að verða örlítið vandræðalegt. Ég lofa að ég mun ekki reyna að stytta mér svona leiðir í uppeldinu á umræddu barni. Allavega ekki oft.

6 Engar áhyggjur, ég er mjög pólitískt rétthugsandi. Það eru bara rosalega fáir pabbar meðlimir í þessum hópi.

Latest posts by Esther Ösp Gunnarsdóttir (see all)
Flokkun : Pistlar
1,287