trusted online casino malaysia
Halla Gunnarsdóttir 02/04/2014

Chattanooga, ríkir bræður og almenningssamgöngur

Kæra Ísland,

Nú er loksins komið vor. Og það er ekkert slor, get ég sagt. Núna er 27 stiga hiti og sól, að vísu smá gola sem gerir erfiðara fyrir að spila borðtennis úti í garð, en það hefur verið eitt helsta áhugamál okkar síðan við fluttum hingað og fjárfestum í þessu fína borðtennisborði.

Um helgina fór ég til Chattanooga með fótboltaliðið mitt. Á laugardeginum var frekar blautt og sást tæplega til sólar. Samt tókst mér með einhvejrum undraverðum hætti að sólbrenna í framan. Geri aðrir betur. Við töpuðum báðum leikjunum á laugardeginum en á sunnudeginum unnum við báða, sem var öllu skemmtilegra. Þetta var í fyrsta sinn sem liðið mitt spilar á átta manna velli. Hérna spila börn fyrst á sex manna velli og síðan átta og loks ellefu. Hér eru líka alls konar reglur sem ég kannast ekkert við. Til dæmis má ég bara skipta leikmönnum inn á, með leyfi dómara, þegar mitt lið á innkast eða þegar það er útspark. Mörkin eru líka talsvert stærri en svona lítil börn eiga að venjast heima á Íslandi. Nú og á þessum minni völlumer líka notast við rangstöðu, sem getur verið dálítið flókið fyir tíu ára að skilja.

Í fjarlægð má sjá höfundinn sólbrenna.

Í fjarlægð má sjá höfundinn sólbrenna
Ljósmynd: Ned Horton

En nóg um það. Og núna smá um almenningssamgöngur og ríka bræður.

Í einum af fyrstu bíltúrum okkar Sveins Mána um Nashville urðum við vör við skilti um alla borg þar sem ýmist var á letrað “Stop Amp” eða “Yes Amp”. Í sumum hverfum mátti aðeins sjá grænu skilti já-hreyfingarinnar en í öðrum aðeins rauð skilti þeirra sem eru andsnúin. Ampan er sum sé ný lína strætisvagna, (þó sennilega aðeins líkari léttlestum), sem á að ganga í gegnum borgina eftir einni helstu umferðaræð hennar . Almenningssamgöngur í Nashville eru fjarri því að vera til fyrirmyndar og hefði ég því haldið að þetta væri kærkomin viðbót. En það eru ekki allir sammála því.

Ég fór á einn fund þar sem fjallað var um málið og gerðist samstundis hin mesta stuðningskona ömpunnar. Á fundinum hafði verið komið fyrir teikningum af almenningssamgönguskipulaginu og verkfræðingar sátu fyrir svörum. Ekki var ætlast til að samtalið færi fram í gegnum míkrafón, heldur gátu borgarbúar gengið milli borða og fræðst um áhrif á hin mismunandi svæði. Á staðnum var hins vegar míkrafónn sem var yfirtekinn af einum ömpu-andstæðingnum og það var einmitt ræðan hans – og hinar miklu undirtektir sem hún fékk hjá stopp-hreyfingunni – sem sannfærði mig. Málflutningurinn gekk einkum út á að hann hefði búið í Nashville alla ævi (og hefði þar af leiðandi meira um málið að segja en aðrir) og það væri alls ekki réttlætanlegt að nota skattfé í aðra eins vitleysu eins og almenningssamgöngur. Nóg væri af strætisvögnum í borginni og þeir væru allir tómir. (Það virðist vera svo þvert á heimsálfur að fólk sem segir strætisvagna alltaf tóma eigi það helst sammerkt að hafa sennilega aldrei tekið strætó, a.m.k. ekki á fullorðinsaldri). Miklu fremur ætti, sagði maðurinn, að nota skattfé í að fjölga akreinum fyrir bíla, ekki fækka þeim með því að búa til forgangsrein fyrir strætó.

Þing Tennessee hefur látið að sér kveða í deilunni og er komið langt með lagasetningu sem kemur í veg fyrir að áformin geti orðið að veruleika.

Nú hefur hinni rökföstu stopp-hreyfingu borist öflugur liðsauki, nánar tiltekið frá bræðurnum David og Charles Koch. Þeir hafa farið víða með fjármagn sitt og áhrif síðustu ár og eru einn helsti drifkrafturinn að baki teboðs-hreyfingunni. Í gegnum lobbýistasamtökin Americans for Prosperity vinna Koch-bræður hugðarefnum sínum brautargengi, en þau eru einkum að koma í veg fyrir skattheimtu og takmarka umsvif hins opinbera. Þeim hefur tekist nokkuð vel til í skipulagningunni, enda telja margir að samtökin – já og teboðshreyfinging – séu sjálfsprottin grasrótarsamtök duglegra Bandaríkjamanna sem vilji standa vörð um frelsið. (Um þetta má meðal annars fræðast í heimildamyndinni The Billionaires Tea Party. Eftirlætis atriðið mitt er af námskeiði þar sem fyrirlesari kennir aktivistum í Nashville að eitt af tækjunum í baráttunni sé að gefa bókum og myndum Michael’s Moore, og öðru sambærilegu efni, lága einkunn á amazon.com, að sjálfsögðu óháð því hvort viðkomandi hefur lesið bókina eða horft á myndina.)

Koch-bræður eru því mættir til Tennessee, að sjálfsögðu ekki í eigin persónu, þeir búa í Kansas og New York. En peningarnir þeirra og hugmyndafræði eru komin á staðinn til að brjóta á bak aftur tilraunir Nashville-borgar til að færast aðeins nær því að vera borg, en ekki bara tilviljanakennt samansafn af húsum og kjörnum sem eru lauslega tengd saman með einkabílum. Sjáum hvað setur.

Meira síðar.

Kær kveðja,

Halla

 

Flokkun : Pistlar
1,392