trusted online casino malaysia
Halla Gunnarsdóttir 26/03/2014

Blár blettur á rauðu korti

Kæra Ísland,

Nú höfum við Sveinn Máni búið hér í Nashville, Tennessee, USA, í góða sjö mánuði. Það er ágætis tilefni til að rita heim og deila með þeim sem lesa vilja því sem á daga okkar hefur drifið.

Sveinn er í doktorsnámi við sagnfræði við Vanderbilt háskóla. Ég hefði seint talist mikill Ameríku-unnandi og aldrei hafði ég komið til Nashville. Það má því segja að ég hafi runnið nokkuð blint í sjóinn með því að pakka niður í tösku og stökkva upp í flugvél til að setjast hér að um tíma.

Í stuttu máli hefur Nashville reynst okkur vel. Tennessee er ekkert draumaríki fyrir félagslega þenkjandi velferðarkerfissinna. Nashville er hins vegar ein af þessum frjálslyndu eyjum í annars íhaldssömum og frekar rugluðum ríkjum, blár blettur á rauðu korti. Það er því lífvænlegt hér, en um leið og komið er út fyrir borgina þá verður landafræðin ljósari: Við erum í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Að þeirri upplifun á ég eftir að víkja í síðari bréfum.

Nema hvað, þegar ég kom til Nashville setti ég allar klær út í leit að starfi og almennt að lífi á nýjum slóðum. Ég mætti á milljón fundi og ráðstefnur, sendi inn umsóknir til ólíkustu institúsjóna og fylgdi sjálfri mér á ýmsa viðburði og uppákomur. Niðurstaðan úr þessu var: Ég fór að þjálfa fótbolta.

Það var svo sem ekki planað sem næsta skref á starfsferlinum, en hefur komið sér ótrúlega vel hér í þessu landi þar fótbolti nýtur vaxandi vinsælda en ekki svo margir fullorðnir kunna íþróttina. Ég spila líka fótbolta með alls konar hópum, sem ég á eftir að fjalla oft um og ítarlega síðar. Nema hvað, að fótboltinn leiddi mig ekki aðeins út á völl, heldur líka inn til Horton Group, sem er vef- og markaðssetningarfyrirtæki hér í borg. Þar hef ég unnið við að skrifa fyrir hinar ýmsustu vefsíður og hef þar af leiðandi sankað að mér tilviljanakenndri þekkingu, til dæmis um rigging, sem felur í sér rigga upp sviðsmyndum og ljósum og hljóðgræjum, og um cenosphere, sem ég hef ekki hugmynd um hvað heita á íslensku, ef þá nokkuð.

Ég hef líka verið með annan fótinn inni á Nashville Public Radio, sem er NPR-útibú okkar Nashville-búa, og kom loksins fyrsta innslaginu mínu í loftið þar á dögunum. Ég var auðvitað með háleitar hugmyndir um harðkjarna fréttir, en fréttastjórinn bað mig ítrekað um að finna eitthvað einfaldara til að byrja með, til að læra tæknina. Og það var satt að segja tækni að læra! Hjá NPR dugar ekkert hálfkák, þar er útvarpsmiðillinn tekinn alvarlega. Að baki þessu fimm mínútna innslagi mínu býr meiri vinna en að baki heilu þáttunum sem ég vann fyrir Ríkisútvarpið. Að hluta til má kenna því um að mér var gert að vinna alla tæknivinnuna sjálf og það tók langan tíma að læra handtökin. Naut ég góðs af því að hafa horft yfir öxlina á tæknimönnum RÚV og vissi því nokkurn veginn hvað ég var að eiga við.

Jæja, nú ætla ég að láta staðar numið í bili. Ég skrifa að bráðum aftur. Við má bæta að veðrið er ágætt þessa dagana þótt hitinn rokki frá frosti og upp yfir tuttugu gráður.

Kær kveðja frá Nashville,

Halla

 

Flokkun : Pistlar
1,359