trusted online casino malaysia
Ritstjórn 02/04/2014

Björn Valur: Það eru til milljón svona skjöl. Hjáróma raddir í báðum stjórnarflokkum um dýrar aðgerðir

„Það eru örugglega til milljón svona skjöl og gögn frá síðasta kjörtímabili enda var á þeim tíma mikil vinna lögð í þessi mál. Niðurstaðan var alltaf sú að beita ætti félagslegum aðgerðum sem miðuðu að því að bæta hag þeirra verst settu og forða sem flestum undan falli og þroti. Sem var og það sem við gerðum,“ segir Björn Valur Gíslason, fyrrverandi þingflokksformaður Vinstri grænna í samtali við Herðubreið.Björn Valur

Tilefnið er frétt Eyjunnar um mikinn þrýsting innan þingflokks Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili um að gripið yrði til „almennra aðgerða“ í skuldamálum heimilanna. Eyjan birtir m.a. óklárað og ódagsett vinnuskjal þar sem raktar eru fjölmargar hugsanlegar aðgerðir, sem sumar virðast þó stangast á innbyrðis.

Kjarninn í frétt Eyjunnar er að Steingrímur J. Sigfússon hafi komið í veg allar „almennar aðgerðir“, hafi notið til þess stuðnings Jóhönnu Sigurðardóttur og þar með hafi Samfylkingin „fært Framsóknarflokknum sigur í kosningunum á silfurfati.“

„Það voru hjáróma raddir í báðum flokkum um dýrar almennar aðgerðir eins og allir vita. Um þær allar liggja fyrir fjölmargar opinberar skýrslur, unnar af Seðlabankanum, Hagræðistofnun og fleirum og í samstarfi við stjórnarandstöðuna á þeim tima.

Við unnum m.a. með skýrslu Eyglóar Harðardóttur um afnám verðtryggingar. Við unnum með sérstaka skýrslu Seðlabankans um 20% niðurskurð lána sem Framsókn kom með. Við unnum með skýrslu Hagfræðistofnunar um ýmsar útfærslur, Lilju Mósesdóttur, Hreyfingarinnar, Hagsmunasamtaka heimilanna og fleiri.

Niðurstaðan varð alltaf sú sama. Við fundum aldrei nein rök fyrir þessu og það gerðu heldur aldrei neinir af þeim sem unnu þetta með okkur. Þessar skýrslur eru allar til og eru til vitnis um gríðarlega þverpólitíska vinnu sem leiddi til rökréttrar niðurstöðu.

Eini stuðningurinn við slíkt rugl var úr röðum Framsóknar sem virðist hafa snúið íhaldið niður í þessu máli í dag. Við fórum í félagslegar aðgerðir á meðan hægrimennirnir virðast ætla að fara í almennar aðgerðir sem nýtast fáum, helst þeim sem ekki þarfnast þess og leysa því engan vanda.

Eftir situr ríkissjóður, tómur, skuldugur og búinn að gefa frá sér framtíðartekjur upp á hundruð milljarða. Hversu gæfulegt er nú það?“ sagði Björn Valur.

Í umræðum á alþingi á miðvikudagskvöld um millifærslur ríkisstjórnarinnar baðst Steingrímur J. Sigfússon „afsökunar á því að hafa ekki talað miklu hærra gegn þessu rugli fyrir kosningarnar í vor.“

Flokkun : Efst á baugi
1,513