trusted online casino malaysia
Ritstjórn 31/03/2014

Átta rök gegn Stóru millifærslunni

Stóra millifærslan, eða „leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána“ eins og hún heitir formlega, er afskaplega misráðin aðgerð.Vilhjalmur Þorsteinsson

Hér á eftir fara átta rök fyrir þeirri fullyrðingu, en nefna mætti fleiri.

1. Stóra millifærslan byggir ekki á greiningu á viðfangsefninu.

Vönduð vinnubrögð fælust í því að greina hver vandinn er og hvar hann liggur, og finna svo hagkvæmustu leiðir til að bregðast við honum. Markmið og skylda stjórnvalda á að vera að nota skattfé með sem skilvirkustum hætti og tryggja heildarhag ríkissjóðs f.h. almennings og komandi kynslóða sem best til framtíðar. Ekki verður séð að Stóra millifærslan, jafn stór og hún er, byggi á neinni alvöru greiningarvinnu eða kerfisbundnu mati á valkostum í stöðunni.

2. Hún byggir á misskilningi.

Þeir sem taka lán og kaupa fasteign standa uppi með eign og skuld, debet og kredit. Ef krónan okkar blessuð fellur verður verðbólga, sem þýðir að hver króna verður verðminni. Það hækkar á endanum upphæðir bæði eigna og skulda. Stóra millifærslan gengur út á að „leiðrétta“ nafnhækkun skuldanna, alveg án þess að skoða hvort eignirnar hafi líka hækkað. Það er galið, vegna þess að verðmæti fasteigna langflestra sem keyptu 2004 eða fyrr hefur þrátt fyrir allt hækkað meira en skuldirnar. Stóra millifærslan afhendir því fólki engu að síður mikla peninga úr ríkissjóði – þó að enginn sé „forsendubresturinn“.

3. Hún hjálpar alls ekki öllum.

Stóra millifærslan gerir ekkert fyrir leigjendur eða þá sem búa í búseturéttaríbúðum. Húsnæðissamvinnufélög eru raunar sérstaklega undanskilin „leiðréttingu“ í frumvarpinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. þess.

4. Hún tekur ekki til námslána né annarra verðtryggðra lána.

Ef hugmyndin er sú að „forsendubrestur“ hafi verið almennur og að hruni krónunnar megi líkja við „ófyrirsjáanlegar náttúruhamfarir“ eins og Framsóknarflokkurinn heldur (ranglega) fram, er erfitt að sjá rökin fyrir því að undanskilja námslán og önnur verðtryggð lán.

5. Hún hefur ekki verið fjármögnuð.

Framsóknarflokkurinn talaði í kosningabaráttunni um að það væri einfalt að sækja fé til hrægamma og vogunarsjóða. Óhjákvæmilegt væri að „svigrúm“ myndaðist, upp á 300-800 milljarða, sem unnt yrði að galdra einhvern veginn til skuldara. Efndirnar á stóru orðunum eru þær að til stendur að afla 80 milljarða í ríkissjóð með nýjum skatti á skuldir (já, skuldir) stórra fjármálafyrirtækja, þar á meðal fallinna banka í slitameðferð. Ríkisstjórnin treysti sér ekki til að ná í þessa peninga í einu lagi, heldur er ætlunin að leggja skattinn á í fjögur ár og afla með því 20 milljarða á hverju ári. Þeim 20 milljörðum verður ráðstafað jafnóðum til niðurfærslu fasteignalána – ef Alþingi samþykkir þá ráðstöfun á fjárlögum hvers árs. Það er síðan háð tvennu: Að skattlagningin standist fyrir dómstólum, en næsta víst er að á það verður látið reyna; og því að föllnu bankarnir verði í slitameðferð í fjögur ár og að skattandlagið verði þar með fyrir hendi. Allt er þetta óvissu háð.

6. Hún gagnast best þeim betur stæðu og þeim sem eru í minnstum vanda.

Stóra millifærslan er nefnilega hvorki jafnandi aðgerð né hlutlaus (flöt), hún ýkir beinlínis ójöfnuð. Í fyrsta lagi er niðurfærslan í hlutfalli við upphæð láns, þannig að sá sem skuldaði mikið og átti stóra eign fær meira í sinn hlut en sá sem lét sér nægja hóflegra húsnæði og fór varlega í skuldsetningu. Sama gildir um tekjustigann: því meiri tekjur, því meiri niðurfærsla. Yfir 15% niðurfærslunnar, 12 milljarðar króna, fer til heimila með 12 milljónir eða meira í árstekjur. Í öðru lagi er ekkert tillit tekið til þess að eignir margra, einkum fólks á miðjum aldri og eldra, hafa hækkað meira en skuldirnar, eins og áður var minnst á. Í þriðja lagi dragast fyrri aðgerðir frá Stóru millifærslunni. Þær aðgerðir voru einkum ætlaðar þeim sem voru í mestum vanda, og/eða voru útfærðar með þaki pr. heimili eða einstakling. Það þýðir að þeir sem fá mest núna eru þeir sem ekki voru í miklum vanda fyrir og/eða voru yfir viðmiðunarþaki fyrri aðgerða. Þannig er Stóra millifærslan beinlínis hönnuð þannig að verst stadda fólkið sem hefur fengið mest hingað til – af því að þar var og er þörfin mest – fær minnst núna.

7. Hún er líkleg til að auka gjaldeyrisútstreymi, veikja krónuna og valda verðbólgu.

Þegar svona stórum fjárhæðum er slakað út í hagkerfið, og þar af vænum hlut til vel stæðra heimila sem eru ekki í neinum fjárhagsvanda, leitar talsvert af þeim í ýmis konar valfrjálsa einkaneyslu ofarlega í þarfapýramídanum. Með öðrum orðum: flatskjái, snjallsíma, utanlandsferðir og Landcruiser-jeppa. Það eykur innflutning og veldur útstreymi gjaldeyris, sem síðan veikir krónuna og er verðbólguhvetjandi. Og þá hækkar aftur fjárhæð verðtryggðu lánanna okkar allra, í þeirri gamalkunnu hringekju sem krónan heldur okkur í.

8. Hún er á kostnað unga fólksins og skattgreiðenda framtíðarinnar.

Ef unnt reynist að innheimta 80 milljarða í ríkissjóð með nýjum sköttum er vissulega möguleiki í stöðunni að verja því fé til að færa niður skuldir fólks sem var með verðtryggð fasteignalán 2008-2009. En annar – og skynsamlegri – valkostur er sá að styðja velferðarkerfið, hjálpa þeim sem urðu verst úti vegna fasteignakaupa á árunum 2005-2008 og eiga talsverðan afgang eftir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og spara með því vaxtagreiðslur til frambúðar. Það er ungu fólki og skattgreiðendum framtíðar í hag. Sá hópur mun í reynd bera kostnaðinn af Stóru millifærslunni með hærri sköttum og/eða lakari menntun og heilbrigðisþjónustu í framtíðinni en þyrfti að vera.

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins. Ég skora á þá að sníða þetta mál þannig í meðförum þingsins að þeim sem á þurfa að halda verði hjálpað, sérstaklega þeim sem keyptu fasteign eða stækkuðu við sig 2005-8 og eru í skulda- eða greiðsluvanda. Að öðru leyti verði takmarkaðir fjármunir notaðir til uppbyggingar og til að lækka skuldir ríkissjóðs. Það er hin skynsamlega og ábyrga leið í stöðunni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 30. mars 2014

1,413