Amsterdam eða Benidorm? Eða: Hvernig maðurinn hennar Shakiru getur ráðið úrslitum á HM
Sérfræðingateymi Herðubreiðar hafði hárrétt fyrir sér um úrslitin í leik gærkvöldsins á HM. Mat þeirra fyrir leik Hollands og Spánar er ekki síður ígrundað:
Rök Hildar Sverrisdóttur vega langþyngst: „Hollendingar eru miklu frjálslyndari en Spánverjar. Frelsið vinnur alltaf.“
Eiríkur Jónsson minnir á einfaldar staðreyndir: „Sigur til Hollands vegna þess að Hollendingar eru þróaðasta þjóð Evrópu – ef ekki alls heimsins – og þá sérstaklega í samskiptum þegnanna og stjórnvalda. Hollendingar vinna með höfðinu á öllum sviðum hvort sem er í túlipanarækt eða knattspyrnu – en það gera Spánverjar ekki. Spánverjar geta hins vegar verið sleipir á björtum degi eins og Íslendingar vita sem hafa dvalið kvöldstund á Benidorm – en það á meira skylt við heppni en hugsun. Þeir sem hafa komið til Amsterdam og Benidorm í sömu utanlandsferðinni hljóta að halda með Hollendingum. – Hollendingar vinna ef japanski dómarinn verður ekki inná.“
Þóra Hallgrímsdóttir fylgist vel með: „Ég hef trú á mönnum í þessum leik, engum helvítis liðsheildum. Ef við værum á níunda áratug síðustu aldar héldi ég skilyrðislaust með Marco van Basten. Þó hann hafi ekki átt sína bestu daga þegar Silvio Berlusconi réði hann til Milan landsmótsárið, þá hefur hann spilað vel úr sínu síðan og aldrei brugðist mér. Þannig.
Það leiðir því með afar rökrænum hætti til þess að ég segi að Hollendingar eigi að vinna. Fyrir utan að mér hefur aldrei verið neitt sérlega vel við manninn hennar Shakiru og get því ekki haldið með Spánverjum. Eðlilega.“
Sigtryggur Magnason hitti tvo menn: „Ég hef komið til Spánar. Ég hef komið til Hollands. Það er heitara á Spáni. Amsterdam er skemmtileg borg. Þar kynntist ég manni frá Túnis sem kallaði sig doktor af því að hann seldi eiturlyf. Í Barcelona kynntist ég Ítala sem á þrjátíuogfimm sekúndum pikkaði upp miðaldra ástralska konu. Leikurinn í kvöld fer þannig að Holland sigrar Spán með tveimur mörkum gegn einu. Þá fagnar doktorinn í Amsterdam en Ítalanum í Barcelona er alveg sama af því hann er frá Ítalíu.“
Kolbeinn Óttarsson Proppé er sömuleiðis rökfastur: „Holland 2 – 0 Spánn. Auðvitað ætti maður að vona að báðar þessar fyrrum nýlenduþjóðir töpuðu leiknum, en það er víst ekki hægt, og sem alþjóðasinni á móti þjóðernishyggju ætti maður ekki að styðja nein lið fyrr en mannkynið hefur sameinast um að spila í sama liði. Þangað til það gerist, sem verður væntanlega þegar verðugur mótherji finnst fyrir slíkt lið, þarf þó að velja eitt lið í hverjum leik.
Eftir að hafa deilt hótelherbergi í Pisa með lítt enskumælandi kjaftaglöðum Spánverja hafa þeir alltaf átt sess í hjarta mér. Hann hafði mikla skoðun á fótbolta, held ég, mögulega var hann að ræða spænsku borgarstyrjöldina þar sem við vorum nú einu sinni á sagnfræðiráðstefnu, og talaði fram á nætur um þetta áhugamál sitt, hvað sem það nú í raun var. Ég ætti því að styðja Spán, þó ekki væri nema vegna bleiku skyrtnanna sem sambýlingiur minn skrýddist ætíð.
Þar sem dóttir mín flutti nýverið frá Spáni til Hollands ætla ég hins vegar að láta stuðning minn fylgja með til Niðurlanda, en spádóma á maður alltaf að byggja á stuðningi og engu öðru.“
Ingunn Snædal spáir á hinn veginn, sér þvert um geð: „Hollendingar hafa alltaf átt upp á pallborðið hjá mér. Svo herðabreiðir og geðslegir drengir. Auk þess er hollenska svo skemmtilegt mál og gleymum ekki áttatíu ára stríðinu þegar þeir veltu Filipusi II Spánarkonungi af sér – sem ætti að vera fyrirboði um eitthvað gott. Ég vildi óska að þeir ynnu. En þessum leik munu þeir tapa, er ég viss um og fyrir því er einföld ástæða: Meira að segja ég kannast við nöfnin á þeim í spænska liðinu.“
Bragi Valdimar Skúlason er staðráðinn í því að hafa rangt fyrir sér: „Það er öruggt að menningarsöguleg fótaóeirð Spánverja mun tryggja þeim sigur yfir landfræðilega innbyggðri flatneskju Hollendinga.“
Heimir Björn Janusarson fer lengri leið: „Hollendingar eru alveg ágætir í að brugga og drekka bjór og gera mikið af hvorutveggja, þeir eru svo sem ágætir í boltaleik. Þeir eru með mjög svo fjölbreytta bjórflóru en frekar einsleitan fótbolta. Spánverjar leggja meira uppúr fljölbreytni í höfugum vínum, rauðum og hvítum, eðal sherry og margt fleira til drykkar jafnvel ágætis bjór – það sést á boltaleik þeirra. Hollendingar eru án ess og tapa því með tveimur mörkum og Spánn verður í essinu sínu.“
Þorgeir Tryggvason veltir fyrir sér þjóðsöngvum: „Í hollenska þjóðsöngnum er Spánarkonungi svarin hollusta (já, Spánarkonungi – Beatrix Smeatrix). Spánverjar hafa hinsvegar aldrei getað sammælst um texta við sinn konungsmars. Það er spurning hvað þetta þýðir. Mun þýlyndi Hollendinga færa Spánverjum sigur? Vefjast þeim síðarnefndu skóreimar um tær eins og þeim hefur hingað til vafist tunga um tönn við að talsetja þjóðsönginn? Ætli þetta endi ekki með jafntefli. Stórmeistarajafntefli.“
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021