trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 12/06/2014

Réttlætið krefst þess að Brasilía sigri – ígrundað mat hóps sérfræðinga

Sérfræðingahópur Herðubreiðar færir sterk rök fyrir því að Brasilía hafi sigur á Króatíu í upphafsleik HM í kvöld.B-K

Eins og allir vita vinnast landsleikir í fótbolta ekki á getu eða færni leikmanna og þjálfara, heldur liggja þar að baki sögulegar, menningarlegar, mannfræðilegar, jafnvel flóknar þjóðsálfræðilegar ástæður.

Með þessi sannindi í huga kallaði Herðubreið til fólk sem hefur meira vit á landsliðafótbolta en allir Hjörvarar Hafliðasynir heimsins. Hér þeirra ígrundaða mat.

HeimirHeimir Björn Janusarson rammar inn einfaldan sannleika: „Það lið vinnur sem er í essinu sínu og þar sem Króatía hefur ekkert ess mun Brasilía vinna.“

Kolbeinn Óttarsson Proppé rifjar upp æskuminningar: „Brasilía 2 – 1 Króatía. Ég hef haldið með Brasilíu síðan föðurbróðir minn kom með tvær plastdúkkur frá Amríku, hvar hann bjó, og gaf okkur bræðrum. Annars vegar var um að ræða sannkallaðan vaquero, eða mexíkanskan kúreka og byssubófa. Hin dúkkan var af kolsvörtum og krullhærðum fótboltamanni í treyju merktri númerinu 10. Þar sem þetta var á New York Cosmos árum Pelé, eða rétt eftir, þurfti ekki að fara í grafgötur með það hver þar var á ferð.Kolbeinn

Dúkkurnar mátti beygja og sveigja á alla kanta, voru í raun gúmmí á stálþræði, og auðvitað fékk bróðir minn Péle. Þar sem það er meira gaman að beygja og sveigja fótboltamann en kúreka, ásældist ég hans dúkku mjög og stal henni hvenær sem færi gafst. Það var því miður sjaldan, þar sem hann hafði aflsmuni fram yfir mig. Til að bæta mér upp Péle-dúkkuleysið fór ég að halda með Brasilíu og hef gert síðan.

Ef eitthvert réttlæti er til í þessum heimi munu heimamenn nú bæta mér upp hin ójöfnu dúkkuskipti og landa titlinum í ár.“

SigtryggurSigtryggur Magnason er á svipuðum slóðum: „Frá því ég man eftir mér hefur afi minn verið að ota að mér bókinni Brasilíufararnir eftir Jóhann Magnús Bjarnason. Ég hef ekki enn komist til að lesa hana. Samviskubitið segir mér að Brasilíufararnir í króatíska landsliðinu komi ekki vel út úr þessari viðureign og tapi með einu marki gegn þremur – sem er ekki slæmt miðað við að þeir hafa örugglega ekki lesið bókina heldur.“

Ingunn Snædal lagðist hins vegar í umfangsmiklar rannsóknir og komst að þessari niðurstöðu:Ingunn Snædal

„Brasilíumenn taka þetta. Ekki bara af því að þeir eru tvímælalaust fegurra liðið, og með betri prófíllýsingar á Fifa-síðunni (ef liðin væru hótel á Tripadvisor myndi ég hiklaust veðja á þá), ekki bara af því að þeir eru með Hulk og Dante og Julio Cesar og fullt af gaurum sem enda á -inho. Ég eyddi nýlega fjórum dögum í félagsskap Brasilíumanna í First Lego League forritunarkeppni á Spáni og miðað við keppnisskapið sem þar var á ferð hjá þrettán ára unglingum ætla ég að spá því að Brasilíumenn séu sigurþyrstari en Króatar. They want it more, eins og þar stendur.“

Þorgeir TryggvasonÞorgeir Tryggvason rifjar upp sögulega staðreyndir: „Báðar hafa þessar þjóðir gert sitthvað til bölvunar. Sömbuna höfum við frá Brasilíu en Króatar fundu upp hálsbindið. Sem hefur vissulega leitt meiri hörmungar yfir mannkynið en dansinn. Alheimsréttlætið fékk tækifæri til að refsa Króötum gegn Íslandi, en ákvað greinilega að þeir ættu að niðurlægjast á stærra sviði, sem verður að teljast maklegt fyrir svo stóra synd. Brasilía vinnur, vonandi stórt.“

Í samanburði eru rök Króatíusinna fremur veik.

Hildur Sverrisdóttir grípur til þjóðsálfræðinnar: „Króatía vinnur svo við getum sannfært okkur um að við hefðum getað unnið Brasilíu.“Hildur Sverrisdóttir

Eiríkur JónssonEiríkur Jónsson hugsaði málið dýpra: „Króatía kemur á óvart. Dvaldi þar í nokkrar vikur í góðærinu og fólkið kom mér á óvart – hörkuduglegt, útsjónarsamt og gott. Það sama má kannski segja um Brasilíu en þangað hef ég aldrei komið. Í ljósi persónulegra kynna verð ég að halda með Króatíu og ég veit að þeir geta allt – þeir hafa þurft að þola helvíti styrjalda trekk í trekk en standa í dag beinir í baki – og brosa við gestum án tilgerðar. Alvöru fólk.“

Pétur TyrfingssonTveir sérfræðingar spá hins vegar jafntefli, þar af Pétur Tyrfingsson í nafni réttlætisins:

„Ég vil að réttlætið vinni, er bjartsýnn og trúi á sigur þess. Alþýðan í Brasilíu hefur rétt fyrir sér – heimsmeistarakeppnin er bruðl og rugl. Hyggja ætti betur að börnum í þvísa landi. Þess vegna eiga þeir að tapa – og Guð eða einhver mun sjá til þess. En Króatía – þeir hafa allt á samviskunni í rauninni… Ruddar dauðans eins og allt þetta lið á Balkanskaganum sem lét hafa sig útí að hata hvert annað að ástæðulausu. Þetta verður þá jafntefli. Sem er gott á brasilísku yfirstéttina og og valdamenn. Megi þeirra landslið lenda í sem mestum hremmingum.“

Bragi Valdimar Skúlason sér ljóðrænuna í öllu mannlífi: „Brasilía – Króatía. Markalaust jafntefli, eins og venja er í leikjum þjóða sem ríma.“Bragi Valdimar Skúlason

Flokkun : Efst á baugi
1,349