trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/07/2016

Alþýðuhreyfingar og útópíur (annar hluti)

Eftir Þröst Ólafsson

Staða stjórnmálaflokka

Frá upphafi þessarar aldar hefur verið í gangi mikil breyting á stöðu stjórnmálaflokka um alla álfuna. Sú líflega skoðanamyndun og almenna umræða sem áður átti sér stað innan evrópskra stjórnmálaflokka, einnig hér, er ekki nema svipur hjá sjón. Flokksfélögum hefur fækkað og eru nú aðeins lítið brot kjósenda. Nýjustu flokkarnir hafa enga skráða meðlimi.Þröstur Ólafsson

Flokkarnir hafa því glatað hæfileika sínum til að vera sú mikilvæga brú milli þjóðar og pólitískra stofnana ríkisins sem þeir einu sinni voru.

Þjóðþingin eru lítillækkuð í þá stöðu að vera leiksoppur eða leikfang flokkanna, sem veldur því að þjóðirnar vantreysta báðum – flokkunum og þjóð­þingunum. Einnig hér á landi. Stefnuskrár flokka og pólitískar lífsskoðanir þykja gamaldags.

Nú eru evrópskir flokkar reknir eins og straumlínulöguð fyrirtæki, þar sem formaðurinn og ímynd hans er talin skipta mestu máli fyrir árangur flokksins. Persónur ýta stefnuskrám til hliðar. Fólk er með eða móti Merkel, með eða móti Hollande, Cameron o.s.frv.. Við gætum heimfært þetta á íslenska formenn, Árna Pál, Sigmund Davíð eða Bjarna Ben. Dugi þeir ekki, er þeim ýtt til hliðar. Ásýnd og ímynd ræður öllu.

Ég gat þess hér í upphafi að sýn mannsins á sjálfan sig hafi breyst. Stafræna byltingin hefur haft sín áhrif. Við erum öll jöfn á fésbókinni og þar er enginn foringi. Þar tekur hver mið af sjálfum sér. Fólk er orðið sjálfsækið. Margir bera eigin getu ekki lengur saman við afreksgetu, heldur eingöngu við sjálfa sig. Horfa í spegil og þykir harla gott. Í því sambandi má nefna allan þann fjölda sem telur sig ráða við embætti forseta Íslands. Sama sjálfshyggja smitast inn í stjórnmálaflokkana. Binding við þá er talin tímaskekkja. Stöðug þjóðaratkvæði eiga að koma í staðinn fyrir flokkslýðræði þjóðþinganna. Brúin milli þjóðar og þings skal vera þjóðaratkvæðið.

Hætt er við að þetta byrgi pólitísku samhengi sýn, ýti samfélagslegri og samflokkslegri hugsun til hliðar, því flokkarnir varðveittu samfélagssýnina, hver á sinn hátt. Hér mætti einnig bæta við tíðaranda nýfrjálshyggjunnar, sem minnst var á að framan. Hann er einnig hér að verki. Sögðum við ekki að hann sliti sundur samhengi tímans?

Jafnaðarmannaflokkur Íslands

Niðurstöður þessarar léttstígu yfirferðar um stöðu stjórnmálaflokka í álfunni, má einnig heimfæra á þann flokk, sem flestir lifandi leiðtogar íslenskra jafnaðarmanna höfðu forystu um að stofna – Samfylkinguna.

Eitthvað brást hrapallega. Flokkur sem ekki nær tveggja stafa fylgi í könnunum, hvað eftir annað, gæti auðveldlega orðið tæringunni að bráð. Slíkur flokkur hefur ekki mikið aðdráttarafl. Þess vegna hrekst hann til áhrifaleysis. Enn er þó jafnaðarstefna viss kjarni í pólitísku veganesti flokksins.

En það nægir ekki lengur, því stefnuskrám virðist vera ofaukið. Síðasta ríkisstjórn og endalok hennar virðist hafa skipt sköpum í fylgistapi flokks­ins. Hún var:

  • Ríkisstjórn þar sem hver höndin var upp á móti annarri; fyrir opnum tjöldum.
    Ríkisstjórn þar sem eigin ráðherrar hindruðu framgang meginmála ríkisstjórnar sinnar.
    Ríkisstjórn sem ekki kunni að forgangsraða mikilvægustu verkefnunum og klára þau.
    Ríkisstjórn sem hálsbraut sig á Icesave, setti svo stjórnarskrármálið á dagskrá án þess að ljúka því.
    Ríkisstjórn sem virtist setja metnað sinn helst í það að sanna að vinstri stjórn geti setið út heilt kjörtímabil.

Þannig ríkisstjórn fælir kjósendur frá og þá skiptir það minna máli þótt viðkomandi ríkisstjórn hafi á ýmsum sviðum lyft grettistaki. Í augum kjósenda var hún ónýt.

Núverandi forystusveit Samfylkingarinnar leggur margt skynsamlegt til málanna. En hana vantar tengingu við þjóðina. Ungt venjulegt fjölskyldufólk er aðþrengt. Lífsbarátta þess er allt annað en auðveld. Verðtryggð krónan, fokdýrar landbúnaðarvörur, útlátamikið og vandfundið húsnæði gerir þeim lífið erfitt, því launin eru ekki að sama skapi há. Samfylkingin virðist ekki hafa haft frumkvæði að því að mynda með þeim baráttuhópa fyrir betri kjörum. Þannig mætti halda áfram.

Þótt margt hafi breyst er enn til staðar pólitísk ábyrgð stjórnmálaflokks jafnaðarmanna gagnvart þeim þjóðfélagshópum, sem álíta forystusveit þjóðarinnar eða efnahagskerfið sem slíkt vera sér andsnúið. Og það skiptir engu máli hvort forysta Samfylkingarinnar er þessum hópum að einhverju leyti ósammála og finnist þeir vera ósanngjarnir – við þá þarf að tala.

Flokk­urinn verður að sýna þessu fólki fram á, að hann láti sér ekki standa á sama. Jafnaðarstefnan snýst ekki hvað síst um það að fólk viti að það skipti máli, vandamál þess sé líka vandamál flokks jafnaðarmanna og fólk finni að það sé ekki eitt á báti. Það eru ekki upphlaup á alþingi, heldur samtöl við almenning sem gera gæfumuninn.

Þess vegna er það mikilvægt að gefa almennum borgurum tækifæri til að setjast á alþingi fyrir jafnaðarmannaflokk. Meðan prófkjörsaðferðin er notuð til að forgangsraða á framboðslista komast fyrst og fremst þekkt andlit og persónur úr framvarðarsveit flokksins á lista. Í stað helmingareglu kynja ætti ekki síður að hafa helmingareglu almennings og elítu. Það myndi jarðbinda flöktandi fylkingu betur. Þegar forystusveitin er farin að endurnýja sjálfa sig, eins og prófkjörin ýta undir, þá er einangrun afleiðingin.

Hér erum við enn og aftur komin á þekkta brautarstöð. Evrópsku og norrænu krataflokkarnir vissu í upphafi hvar þeir áttu að staðsetja sig á andlegu og pólitísku landakorti fólksins. Þeir vissu að boðskapurinn þurfti að snerta tilfinningalíf fólksins, vekja með því ástríðu, koma því í uppnám. Ef það tækist þá yrði flokkurinn heimili þess. Forystufólk þessara flokka vissi mætavel að lærdómur og vitsmunir hrökkva skammt, ef tilfinningin fylgdi ekki með, því næra þyrfti ástríðuna. Hreinn vitsmunaflokkur yrði aldrei heimili fólksins, hversu klókur og viturlegur sem málflutningurinn annars væri.

Í aðalatriðum gildir þetta enn. Þegar jafnaðarmenn fara á ný að horfa á nútímann af sjónarhóli framtíðarinnar, verður ástríðan og tilfinningin að eiga þar sinn sess. Innantóm og nagandi neysluboðun og nauðhyggja hagvaxtarátrúnaðarins eru gengin sér til húðar. Þau eru fortíð sem vekja frekar óvissu og óþægindi en hrifningu. Hreyfing nýrra náttúruverndarsjónarmiða, á seinni hluta liðinnar aldar, kafnaði að mestu í skruðningum hagvaxtarhyggjunnar og náði aldrei landfestu á hugmyndaströnd jafnaðarmanna. Þess gjalda þeir nú.

Víðara sjónarhorn

Við hófum þessa lautarferð með því að skoða nýjar viðmiðanir stjórn­mál­anna; að fjölmargir sæki ekki skoðanalegar viðmiðanir lengur til fram­tíðar­sýnar – heldur með afturhvarfi til fortíðar. Við sögðum að hrun Sovét­ríkjanna, Berlínarmúrsins og kommúnismans hefðu verið vatnaskil í nútíma stjórnmálasögu heimsins. En það er fleira sem breytt hefur gamalkunnum skírskotunum til stéttasamfélagsins sem megin átakasvæðis í pólitíkinni.

Það sem breyst hefur undanfarna áratugi – og sem einnig má rekja til loka níunda áratugs liðinnar aldar, er hnattvæðingin – hún hefur umturnað skipulagi heimsviðskipta, svo trauðla verður aftur snúið; vörur, þjónusta, vinnuafl, fjármagn og auðhyggja flæða yfir allan heiminn, framhjá öllum landamærum, tillitslaus og brútal. Í senn uppbyggileg og styrkjandi fyrir suma, en jafnframt eyðileggjandi og veikjandi fyrir aðra. Atvinnuleysið og vonleysi þess, hungur og örvænting; upplausnin og stríðin í Austurlöndum nær og straumar flóttafólks þaðan, og hryðjuverkin – allt eru þetta líka, en ekki bara, afleiðingar hnattvæðingarinnar.

Í vestrænum samfélögum verður framandi fólk, lítt skiljanleg tungumál, óþekktir siðir og annars konar trúarbrögð sífellt fyrirferðameiri. Þjóðleg hagkerfi fara úr skorðum. Þau nýju ekki orðin til. Fólk er hrætt við að missa öryggi sitt og samsömun við eigin trúarbrögð og þjóðlega menningu sína.

Hér erum við aftur komin að átökum milli fortíðar, nútíðar og framtíðar.

Í eigin álfu erum við áhorfendur að rimmu milli þeirra sem aðhyllast svokallaða þjóðríkis- eða smáríkjalausn annars vegar og hinna sem kjósa það sem nefna má Evrópulausn hins vegar.

Þeir sem kjósa smáríkjalausn vilja verjast glundroðanum og óvissri framtíð með því að loka landamærum, stjórna efnahagsmálum sínum sjálf og forðast framandi fólk. Þeir óttast hnattvædda framtíð, vilja snúa af leið. Þeim finnst of margt vera á hverfanda hveli. Fullveldi og ídentítet eru baráttuorð þeirra, hugtök sem vísa til fortíðar, gamalla siða, eigin trúarbragða, menningar sem er, en verður ekki – til veraldar sem var, en er ekki. Hver og ein þjóð otar sínum tota.

Ef við viljum finna pólitíska fulltrúa þessara hópa þá má nefna Donald Trump, Marine le Pen þá frönsku, Pútín, Erdógan hinn tyrkneska og Orban þann ungverska.

Þeir sem aðhyllast Evrópulausn líta hins vegar svo á að hnattvæðingin sé staðreynd, og ekki verði snúið til baka. Hún hafi kosti en hún varpi jafnframt stórum skuggum. Sameiginlega megi draga úr neikvæðum áhrifum hennar og nýta sér kosti hennar. Ef hver og ein þjóð otar sínum litla tota, verði það vonlítið.

Angela MerkelVíggirt eða lokuð landamæri, ógagnsæ valdsmannleg stjórnkerfi og gagnrýnislaus samfélög dragi úr samkeppnishæfni og áræðni. Það geri neikvæðar afleiðingar hnattvæðingarinnar verri. Þeir vilja að glímt verði við vandamálin innan stofnana Evrópusambandsins og leyst sameiginlega af meðlimaríkjum þess.

Áhangendur Evrópulausnarinnar segja að hnattvædd framtíð sé óhugsandi án þess að deila með öðrum; vinnu, velmegun, siðum, menningu, trúar­brögðum og einnig að hluta – fullveldi. Þeir tala fyrir opnum landamærum, hreyfanleika milli atvinnusvæða, frjálsum og opnum viðskiptum og hnatt­rænum samfélagsbreytingum innan laga og reglna réttarríkis, lýðræðis og mannréttinda.

Sé einhver einn stjórnmálamaður fulltrúi þessara sjónarmiða, þá er það Angela Merkel.

Sú lausn að taka heildstætt á vanda nútímans á erfitt uppdráttar um þessar mundir, því hún skírskotar til hins óþekkta, vill byggja upp nýtt og nokkuð framandi heimili. Það gengur skrykkjótt og flækjustigin eru mörg. Gamla lausnin er hins vegar þekkt, vafningarnir færri.

Þessi átök milli fortíðar og framtíðar skapa mikinn glundroða, já fjandskap nú um sinn. Í því róti þrífast hálf fasískir og pópúlískir flokkar og hreyfingar, sem aldrei fyrr, því þar gilda fullyrðingar og einfaldar skýringar meir en flókin greining.

Lýðskrum og pópúlismi skjóta ekki hvað síst rótum þar sem jafnaðarflokkar hafa vanrækt tilfinningaræturnar og ná ekki eyrum almennings. Stærsti hluti áhangenda pópúlískra flokka er óöruggur og hræddur almúginn, hræddur við óvissuna. Mörg úr þeirra hópum líta vonaraugum til svokallaðra sterkra leiðtoga, og virðast reiðubúin til að fallast á að dregið verði úr lýðréttindum og frelsi til að tryggja öryggi gegn því óþekkta.

Það vekur athygli að evrópskir jafnaðarmenn hafa flestir skipað sér á bekk við hliðina á kristilega demókratanum Angelu Merkel í þessum átökum. Og þeir virðast leika þar ekki ósvipað hlutverk og íslenskir jafnaðarmenn fyrrum; til hliðar við Hriflu-Jónas. Boðskapur þeirra um frelsi, jafnréttindi og bræðralag til handa flóttafólki í nauð, féll í ófrjóan jarðveg. Merkel var búin að sá í þann akur á undan þeim og pópúlísk samtök höfðu ötullega eitrað fyrir þess konar málflutningi. Jafnaðarmenn móta ekki lengur sýn almennings‚ heldur eru þeir meðhlauparar. Þeir ryðja ekki brautir lengur.

Þetta er reiðarslag þeirrar hreyfingar, sem eitt sinn hafði framtíðina að léni og mótaði samtíma sinn í spegilmynd hennar.

Fyrirboðar umbreytinga

Skruðningar tímans eru sannarlega allmiklir. Sumir segja að fortíðarhyggja, með pólitískri einsleitni og orðfæri öfga og bábilju, bjóði öruggara skjól gegn framtíð, sem „er ekki sú sem hún er vön að vera.“ Þetta séu fyrirboðar mikilla umbreytinga. Djúpt niðri í þjóðarsálunum vaxi órói og ótti um að velmegunin sem við höfum búið við frá stríðslokum, sé á útleið. Hlýnun jarðar mun hafa í för með sér ófyrirsjáanlegar hörmungar fyrir stóran hluta jarðarbúa. Þurrkar með miklum hitum herja nú á yfirborð jarðar, ekki bara fyrir botni Miðjarðarhafs og sunnan Sahara. Þar þornar jörðin upp, vatn hverfur og þar með lífsmöguleikar plantna, dýra og manna. Örsnautt, matarlaust fólkið mun ekki bíða hungurdauða síns. Það mun aðallega leita norður á bóginn. Verði þessar spár að veruleika munu upplausn og átök um minnkandi lífsgæði innan svæða og milli landsvæða einkenna síðasta hluta yfirstandandi aldar.

Þá færa þekktir amerískir hagfræðingar rök fyrir því að stöðug tækniþróun, sem knúið hefur áfram hjól hagvaxtar og velmegunar undanfarin 250 ár hafi hægt verulega á sér. Hún hafi líka sín endimörk og hafi þegar náð hámarki sínu.

Ef efnahag vestrænna ríkja muni hnigna og verði pólitísk viðbrögð flótti til fortíðar – þá eru vissulega mikil pólitísk vatnaskil framundan.

Nú er ég kominn að lokum þessara losaralegu hugleiðinga.

Þróun kapítalismans hefur sett meginhugsjón jafnaðarstefnunnar um jöfnuð á hliðarspor. Þrátt fyrir að hafa verið möndull verkalýðshreyfinga í yfir 100 ár – og þrátt fyrir þátttöku jafnaðarmanna í stjórn stórra sem smárra vestrænna ríkja, verður misskipting, hvort heldur sem er tækifæra, auðs eða tekna, sífellt augljósari, einnig hérlendis. Hér eflast eignastéttir og láta æ meira til sín taka, meðan fátækt er aftur orðin smánarblettur á Íslandi. Með aukinni misskiptingu rýrnar einnig lýðræðið. Enginn jafnaðarflokkur hefur komið með marktækt andsvar við þessu. Því skrikar þeim fótur. Tiltrú á þá dvínar.

Við sögðum áðan að framtíðin hefði alltaf verið til vinstri – meðan okkur tekst ekki að skapa nýja og skarpari framtíðarsýn, sem hrífur fólkið, skírskotar til tilfinninga þess, vona þess og ótta, þá munu þeir sem leita lausna í liðinni, þekktri fortíð hafa undirtökin. Fortíðarhyggja samfara sterkri þjóðernisstefnu leiðir okkur til baka í enn óöruggari, ójafnari og varhugaverðari heim, hvort heldur sem sá heimur verður fátækari, ríkari eða svipaður og nú.

Þessar slitróttu hugleiðingar hófust jafnframt á stuttri umfjöllun um nýfrjálshyggjuna. Um og eftir síðustu aldamót tókum við Íslendingar hana í sérstakt dekurfóstur, sem framtíðarsýn okkar; var boðskapurinn þó ekki óþekktur áður. Á liðlega 20 ára tímaskeiði mótaði hún samfélag okkar og hugsunarhátt sterkar en flestra annarra þjóða í álfunni. Það er okkar nútími.

En nýfrjálshyggjan varir ekki að eilífu. Hún er þrátt fyrir allt tímabundið fyrirbæri. Hvað tekur við af henni? Verður það einhvers konar einokunar kapítalismi, þar sem hnattrænar fjármálastofnanir ráða för – eða róttæk félagshyggja á grunni blandaðs hagkerfis, þar sem gangverk markaðarins, hefur verið stokkað upp? Það fer mikið eftir því hvernig efnahag heimsins muni reiða af. Hver sem auðlegð heimsins verður, hljóta jafnaðarmenn að taka þátt í því að móta þá framtíð. Gefa þjóðum heims nýja sýn, nýja von.

Boðskapur nýfrjálshyggjunnar hefur vissulega haft áhrif á sýn okkar til samfélagsins. En það er ekki sú sýn sem útópían lofaði okkur endur fyrir löngu – sem var að gera okkur nútímabörn að frjálsum einstaklingum í samfélagi jafnaðar og réttlætis; í samfélagi mótuðu af samhyggju.

„Ég á enn ósótta tösku í Berlín,“ söng Marlene Dietrich eftir að hún flutti til Ameríku.

Víða liggja ósóttar töskur fullar af fyrirheitum um réttlátari, öruggari og jafnari heim. Taka þarf upp úr þeim, því fyrirheitin skuldbinda. Jafnaðarmenn – hvar sem þeir búa – hafa þar sérstökum skyldum að gegna.

———-

Erindi flutt í fyrirlestraröð í tilefni af 100 ára afmæli Alþýðuflokksins í Iðnó 2. apríl 2016. Seinni hluti. Fyrri hluti er hér. Birtist einnig í heild í Tímariti Máls og menningar, 2. tbl. 2016

1,767