trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 05/07/2016

Alþýðuhreyfingar og útópíur (fyrri hluti)

Eftir Þröst Ólafsson

„Vandinn við okkar tíma er sá að framtíðin er ekki sú sem hún er vön að vera,“ sagði Paul Valery hinn franski. Síðan þessi skáldlegu og andríku orð féllu er liðinn nokkuð langur og afdrifaríkur tími. Sýn mannsins á heiminn og á sjálfan sig hefur breyst. En það breytir því ekki … „að framtíðin er ekki sú, sem hún er vön að vera.“Þröstur Ólafsson

Á öllum tímum reynum við að útskýra, hver séu hreyfiöfl sögunnar, orsaka­sambönd pólitískra athafna, og hver sé hugmyndaheimur stjórnmálanna. Hvað gefi vísbendingar um þann tíðaranda sem umlykur okkur og hvað sé framundan.

Það voru þeir Hegel og Marx sem mótuðu sýn margra kynslóða á þró­unar­öfl sögunnar. Hugmynd marxismans um stéttasamfélagið var reist á díalektískum átökum andstæðna, vinnu og auðmagns, öreigastéttar og auð­stéttar. Þessi söguskoðun var eldsneytið í sósíalismann allt uppúr miðbiki nítjándu aldar og fram á okkar öld. Stéttabaráttan var í senn tilvísun tímans og tíðarandinn sjálfur. Þannig voru þjóðfélagsgerðin og þjóðfélagsátök skýrð út frá hugmyndafræðilegum forsendum. Sumir marxistar töldu þessa skýringu altæka.

Nú er orðið sjaldgæfara að leita skýringa á þróun samfélagsins með tilvísunum í stéttaátök. Hefðbundin stéttaátök eru ekki fyrirferðarmikil lengur og pólitískar atlögur milli kapítalisma og sósíalisma eða þeirra beggja við kommúnismann eru ekki áberandi. Verkföll eru litin hornauga. Kjarasamningar eru leystir tæknilega inná skrifstofum af sérhæfðu fólki.

Merking hugtakanna sósíalismi og kommúnismi hefur líka dofnað. Í Kína býr meira en helmingur allra milljarðamæringa heimsins. Hvergi eru andstæður auðs og örbirgðar nöturlegri en þar. Félagsleg ábyrgð samfélagsins er óvíða minni. Þó skreytir ríkið sig með nafnbótinni „Alþýðulýðveldi“ og alræðisflokkurinn heitir Kommúnistaflokkur Kína.

Með þeirri friðsamlegu byltingu sem varð í austur Evrópu og leiddi til hruns Sovétríkjanna og Berlínarmúrsins á árunum 1989–1991, urðu mikil vatnaskil í pólitískri sögu og þróun heimsins. Ekki bara að kommúnisminn hyrfi af leiksviði sögunnar, heldur kvöddu í framhaldinu hinn heimspólitíska vettvang bæði hefðbundin íhaldsstefna (konservatívísmi) og hefðbundinn kratismi.

Í gömlum gildum evrópsk-borgaralegrar íhaldsstefnu var áhersla lögð á kristna trú, þjóðrækni og ættjarðarást, samfélagslega ábyrgð hvers og eins, öryggi og reglu í samfélaginu og sterkt feðraveldi bæði innan fjölskyldu og ríkis – þessi gildi máðust út í framhaldi af byltingunum 1989–1991. Nú eru þau nánast horfin úr pólitískri umræðu. Það sem tók við var neo-kon og nýfrjálshyggjan.

Hinn pólitíski áttaviti gekk einnig þeim úr greipum sem aðhylltust hefðbundna jafnaðarstefnu. Hún missti viðmiðunina við stéttahugmyndina. Þegar stéttaríkið – sem slíkt – var horfið úr almennri umræðu, hvarf viðspyrnan – framtíðin sveipaðist þoku. Ef andstæðar stéttirnar voru ekki lengur sá veruleiki sem almenningur skynjaði – hvaða meining var þá í því að berjast fyrir samfélagi án stéttamismunar? Kommúnisminn var ekki til staðar lengur til að brýna kratana, með því að kalla þá stéttsvikara og handlangara auðvaldsins. Um leið hvarf eldsneytið í baráttu jafnaðarmanna gegn kommunum vegna alræðis þeirra síðarnefndu, ófrelsis þegna þeirra og undirokunarstefnu. Það sem á eftir kom var Blair-isminn eða New Labour stefnan.

Báðar fyrrnefndar stefnur – íhaldshyggjan og kratisminn – vantaði nú sárlega gagnaðilann. Andstæðingurinn gufaði upp og með hvarfi hans breyttist umræðan, varð opnari en jafnframt einsleitnari. Hún snerist meir um hag­skipanina, með og móti. Þetta skók tilvistargrundvöll hefðbundins íhalds og gamla kratismans. Það sem einu sinni þótti gott og gilt mátti nú draga í efa. Hefðbundin gildi og baráttumál misstu marks.

Hvaða hugmyndir takast þá nú á innan nútíma vestrænna samfélaga? Eru viðfangsefni jafnaðarmanna einhver önnur en annarra miðjusækinna stjórnmálaflokka? Nei, því miður. Ekki er um auðugan garð að gresja. Engar ferskar hugmyndir um nýtt og breytt eða annars konar samfélag. Ný hugmyndafræði ekki í sjónmáli. Sú nýjasta var feminisminn, sem þegar er farinn að grána. Ekki eru sjáanlegar neinar útlínur nýs samfélagssáttmála. Þó er nóg af upplausn, úlfúð og átökum. Samt er það svo að ekki er örgrannt um að ný tímamót séu að knýja dyra.

Ef grannt er skoðað má kenna breyttar pólitískar viðmiðanir. Ný pólitísk eyktarmörk, þar sem átakalínur samfélags nútímans virðast liggja. Þessar eyktir eru okkur þó gamalkunnar. Þær heita: Fortíð, nútíð og framtíð. Pólitískir hreyfiferlar og tilvísanir taka nú í vaxandi mæli mið af og snúast um hugmyndir sem rekja má til mismunandi tímaskeiða. Það endurspeglast í pólitískum átökum um þessar mundir.

Með því að skoða og fylgjast með pólitískum hræringum í álfunni má rekja slóðina. Við erum annars vegar vitni að aðför pólitískra hugmynda úr fortíð, sem sækja að samtímanum. Jafnframt hamlar hagskipan nútímans sýn til framtíðar.

Skýrum þetta nánar.

Þótt fortíðin hafi vissulega margar mismunandi birtingarmyndir og ásýndir, getum við skilgreint sem fortíð allar þær hreyfingar og stefnur, sem styðjast við misöfluga valdræðishyggju – átóriterisma – sem er ætíð á skjön við nútíma opið vestrænt lýðræði. Sterkur foringi, veikar stofnanir, skert fjölmiðlafrelsi, mannréttindi á hliðarlínunni, girt og varin landamæri.

Í þessari skírskotun skiptir það ekki öllu máli, hvort hugmyndirnar komi frá vinstri eða hægri. Þær koma frá þjóðernissinnum, sem predika valdbeitingu ríkisins í stað lýðræðis fjöldans, en þannig samfélag er jafnan lokaðra og sniðið að þrengri sérhagsmunum. Þið kannist við nöfnin: „Sannir Finnar“, „Svíþjóðardemókratar“, „Danski þjóðarflokkurinn“, „Front national“, „Hinn pólski flokkur“, „Réttur og réttlæti“ o.fl.

Sama gildir um hreyfingar sem ættaðar eru úr aðdáendahópum einstakra valdsmanna, sem sýnt hafa glögga valdræðistilburði; eða úr baráttusamtökum til varnar evrópskri menningu, svo ekki sé talað um liðsmenn „Íslamska ríkisins“, sem með hrottaskap og hryðjuverkum vilja kveða niður hvers konar frjálslynd lífsviðhorf og upplýst samfélög. Allt sækir þetta næringu úr sömu lindinni – fortíðinni.

Slíka hópa, stóra sem smáa, má finna í flestum ríkjum álfunnar, einnig hérlendis. Þeir stefna að skertu lýðræði, þögulum fjölmiðlum og þrengra samfélagi, lokuðum efnahag og upphafningu á fullveldi þjóða. Þarna er um öfl að ræða þar sem afturhaldssækin hugsun úr fortíð, sem við héldum að væri komin á ruslahaug sögunnar, ákveður stefnur og framgöngu hreyfinga og stjórnmálaafla í nútíð.

Margar þjóðir í álfunni hafa kosið yfir sig ríkisstjórnir sem blekkja þegna sína með margs konar tálsýnum og hugmyndum úr fortíð sem taka nútíðina í herkví.

Sömu hugmyndatengsl má greina hjá ríkisstjórn Íslands. Tökum lítið dæmi: Hvaðan ætli þær fyrirmyndir séu til dæmis komnar sem endurspeglast í nýgerðum búvörusamningi? Engir samningar snerta almenning meir en þessi samningur. Hvaðan eru viðmiðin tekin? Hann þarf í reynd hvorki að bera undir bændur sjálfa né alþingi. Þetta er gert af sömu mönnum og kvarta undan lýðræðishalla hjá ESB. Við gætum haldið áfram með fleiri dæmi.

Oft er talað um að við lifum á nýfrjálshyggjutímum, og þá er yfirleitt átt við hömlulausan markaðsátrúnað og einsleita gróðahyggju á grunni kapítalismans, sem eins konar grunngildi samfélagsins. Ef grannt er skoðað er nýfrjálshyggjan hins vegar meira. Áhrif hennar eru ekki eingöngu efnahagsleg. Hún er frekari til fjörsins en svo.

Ítök hennar í hugsunarhætti okkar eru sterk. Segja má að nýfrjálshyggjan sargi sundur samhengi tímanna, því hún byggir nefnilega á tvíhyggju: þ.e. samfélagslegri kyrrstöðu, um leið og hún rekur hagkerfið áfram á fleygiferð og skapar mikinn auð. Hún er gjöful á auðsköpun og atvinnu sem veldur því að við teljum kerfi hennar vera árangursríkt. En það leiðir hins vegar til ákveðinnar pólitískrar kyrrstöðu. Það er eins og framtíðin hverfi úr hugum okkar öðru vísi en í umgjörð nýfrjálshyggjunnar. Í huga okkar afmáum við vissa samfélagslega framtíð með því að gleyma okkur í nútímanum.

Við vesturlandabúar búum við meira öryggi, frið og velmegun en nokkur kynslóð á undan okkur. Þessi velmegun dregur eðlilega úr löngun okkar til að hugsa til breytinga á samfélaginu. Einhvers konar pólitísk tómhyggja ræður ríkjum. Við erum nefnilega hætt að trúa því að til sé hagskipan sem virki betur en kapítalismi bragðbættur með nýfrjálshyggju.

Útópían

En af hverju fullyrði ég að það sé afleiðing nýfrjálshyggju að við séum stöðnuð í aðdáun á samtímanum? Við höfum þegar minnst á seiðmögnun vel­megunarinnar. Af hverju sagði ég að hún sargi sundur samhengi tím­anna?

Það var nefnilega svo, að í eina tíð hafði verið lofað breytingum á þjóðfélaginu, á kapítalismanum, einkum af alþýðuhreyfingum sem áttu uppruna sinn í fátækt og undirokun. Kynslóðir börðust með það fyrirheit á vörum að breytingar kæmu. Loforðið var hugsjónin um samfélag sem ekki var, útópían, staðleysan. Útópían var nauðsynleg til að við gætum breytt samfélagi nútímans. Og mannkynið veit af þessu loforði. Það veit að kapítalismi í nýfrjálshyggjustíl er ekki endalok tímans.

Frelsi, jafnrétti og bræðralag voru einu sinni stefnumörk eða gildi, sem sett voru á pólitíska dagskrá heimsbyggðarinnar, sem framtíðarsýn – útópía – til að við gætum notið þeirra í samtíðinni – núna í dag. Framtíðin varð nútíð. Þetta samhengi hefur verið rofið.

Ef við teljum upplýst lýðræðissamfélag, jafnrétti og jöfnuð, jafnræði kynj­anna, mannréttindi, virðingu og vernd einstaklingsins og jafnan rétt til mennt­unar vera vinstrisinnuð gildi, þá getum við sagt að framtíðin hafi alltaf verið til vinstri. Framtíðin var ætlunarverk hreyfinga vinstrimanna, jafnaðarmanna. Fortíðin var aldrei viðmiðun alþýðuhreyfinga. Þess vegna þurfum við að endurvekja framtíðina, gera hana aftur að útópíu vinstri manna. Við þurfum á ný að finna leið til að úthugsa nútímann frá sjónarhorni framtíðarinnar. Þannig breytir útópían deginum í dag.

Sveitaútópía Jónasar frá Hriflu

En pólitískar draumsýnir geta átt mismunandi rætur. Þær geta líka tekið mið af rómantískri endursköpun fortíðar. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, var eftir því tekið, að það gerðist með sterkri skírskotun til Jónasar frá Hriflu. Samfélagssýn hans var fyrirmyndin. Stjórnarsáttmálinn og ummæli öll bera þess vitni.

Jónas Jónsson frá Hriflu

Jónas Jónsson frá Hriflu

Á fyrstu tíu árum Skinfaxa, málgagns ungmennafélaganna, sem Jónas ritstýrði eftir 1911, er bæði í leiðurum og öðrum skrifum fjallað um það, að kaupstaðalífið íslenska sé að bera sveitalífið ofurliði. Kaupstaðirnir séu bæði of margir og of fjölmennir; sá faraldur geisi um landið, að æskulýðurinn streymi til kaupstaðanna og fjöldinn allur hafi snúið baki við sveitalífi fyrir fullt og allt. – Allir sjái, hvílíkur voði þetta sé þjóðlífinu og öllum framförum í landinu. Þetta sé þjóðinni hættulegra en búferlaflutningarnir til Ameríku. Snúa verði af þessari viðsjárverðu braut.

Sams konar málflutningur þótti aftur boðlegur með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar. Móta skal nútíð okkar úr þekktum hugmyndaheimi fortíðar.

Jónas frá Hriflu kallaði þetta kauptúnasýki, sem yrði að stöðva. Hann tók til óspilltra málanna við að smíða pólitíska stefnu fyrir ungan flokk, byggða á eins konar afturhvarfi til þjóðveldissamfélagsins. Jónas afbakaði útópíu jafnaðarmanna og flutti hana uppí sveit. Verkfærið var Framsóknarflokkurinn.

Hann hannaði og gróðursetti þá framtíðarsýn að íslensk bændastétt skyldi leiða þjóðina inn í farsæla framtíð. Hann fól það bændum og búaliði að aðlaga íslenskt samfélag þessari framtíðarsýn. Fjölga skyldi í sveitum. Landnám ríkisins átti að auka ræktanlegt land fyrir stórtæka nýbýlabyggð. Pólitísk og þjóðfélagsleg undirtök ættu að vera hjá bændum til frambúðar. Til að tryggja pólitískt yfirráð sveitanna var tangarhaldið geirnegld með ójöfnum kosningarétti.

Hrinda skyldi af stað menningar- og viðskiptabyltingu í dreifbýlinu svo bændur gætu sinnt forystuhlutverki sínu. Samvinnurekstur dreifbýlisins var mótvægið við og áskorun á einkarekstur í bæjunum. Samvinnuskólinn var stofnaður til að mennta elítuna – forystusveit samvinnuhreyfingarinnar. Jónas kom á fót héraðs- eða alþýðuskólum. Allir voru þeir staðsettir í dreifðum byggðum.

Allt var þetta gert í nafni litla mannsins og bændasynir höfðu þessa lífssýn að leiðarljósi allt sitt líf, löngu eftir að þeir voru komnir í daglaunavinnu á mölina. Í þessari framtíðarsýn – tilraun til íslenskrar útópíu – lá styrkur Framsóknarflokksins. Á grunni hennar varð til öflug alþýðuhreyfing í sveitum landsins.

Rétt er að taka það fram, að þegar ég tala hér um Jónas frá Hriflu, þá nota ég hann meira sem táknmynd en allsráðandi, einan geranda – því þó hann hafi verið þyngsta áburðarkerran, var hann alls ekki sú eina.

Alþýðuhreyfing jafnaðarmanna

Sýn Jónasar um endurnýjun sveitabúskaparins á kostnað þéttbýlisins gerði hugsjón jafnaðarmanna erfitt fyrir. Tvær alþýðuhreyfingar kepptu um atkvæði og pólitísk heimkynni. Ungt sveitafólk sem komið var á mölina hafði bundist og játast hugsýn Jónasar um nýja gullöld velmegandi sveita. Þessum ungmennum reyndist erfitt að slíta sig frá henni. Það voru aðeins slitrur úr þessari bændahreyfingu sem gengu til liðs við alþýðuhreyfingu jafnaðarmanna.

Einnig ber að minnast á ágreining jafnaðarmanna sjálfra um útópíuna, sem síðar leiddi til hatrammra átaka, klofnings og gagnkvæmrar útskúfunar. En því er ekki ætlað rými hér.

Þegar jafnaðarmenn tóku þátt í ríkisstjórnum var staða þeirra jafnan á hliðarlínunni – til hliðar við Jónas. Fylgdarsveinahlutverk þeirra olli því að þeir náðu aldrei þeirri pólitísku fótfestu, að hafa heildaráhrif á uppbyggingu og mótun samfélagsins. Klofningur Héðins og þátttaka sósíalista í Nýsköpunarstjórninni innsigluðu enn frekar þá löskuðu stöðu sem hreyfing jafnaðarmanna var komin í. Jafnaðarstefnan skaut því aldrei sömu djúpu rótum hérlendis sem á hinum Norðurlöndunum.

Hún varð aldrei grunnstoð samfélagsins eins og þar. Þrátt fyrir það ávannst margt sem fáir vildu vera án, og sem bætti líf alþýðufólks umtalsvert.

Hvað lifði af?

En þróunin varð ekki umflúin. Tíminn vann á móti Jónasi. Þrátt fyrir öfl­ugan og langvarandi stuðning fækkaði sífellt í sveitunum og innviðir þeirra veiktust. Samvinnustefnan varð undir. Forystusveit samvinnuhreyf­ingarinnar, sem alist hafði upp í velgengni og undir pólitískum verndarvæng Framsóknarflokksins, en var jafnframt bundin af stefnu hans, fann engin svör við tíðarandanum. Samfélagsþróunin tók fram úr þjóðfélagsmódeli Jónasar, sem byggði á því að endurlífga fortíðina. Kerfi hans hlaut að líða undir lok. Forystusveit með áttskakkan kompás hafði hvorki þrótt, vilja, né þekkingu til að endurhanna stefnuna. Þegar útópía Jónasar tók að blikna, skrapp fylgi við Framsóknarflokkinn saman.

Voldug og áhrifamikil samvinnuhreyfing, samvinnuskólinn, héraðsskólarnir, Landnám ríkisins, allt er þetta horfið á braut. Og ég vil bæta því við, að það er mikil eftirsjá að samvinnustefnunni. Það sem enn lifir góðu lífi er opinber framfærsla úrelts landbúnaðarkerfis og ójafn kosningaréttur. Hann er nú valdaleg forsenda ný endurvakinnar landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu.

Nú – þegar bráðum tveir áratugir eru liðnir af 21. öldinni og liðlega 150 ár frá evrópsku byltingunum, hefur íslensku þjóðinni enn ekki tekist að jafna kosningaréttinn, þótt vissulega hafi hún innleyst kröfu evrópsku bylt­ing­anna um almennan kosningarétt. Samsetning alþingis endurspeglar því ekki þjóðina sem heild og þar af leiðandi gera lögin, sem þaðan koma, það ekki endilega heldur. Alþingi Íslendinga er því ekki þjóðþing í þess göfugustu merkingu.

Það er einörð skoðun mín, að ekkert eitt atriði í pólitísku stjórnskipulagi Íslands endurspegli á jafn nöturlegan hátt sögulegt magnleysi alþýðuhreyf­inga jafnaðarmanna eins og það misvægi atkvæða, sem enn ríkir hér, eins og hvert annað náttúrulögmál.

———-

Erindi flutt á 100 ára afmæli Alþýðuflokksins í Iðnó 2. apríl 2016. Fyrri hluti. Seinni hluti er hér. Birtist einnig í heild í Tímariti Máls og menningar, 2. tbl. 2016.

1,617