53 þúsund háværar raddir
Fimmtíu og þrjú þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna við ESB og þar með að dregin verði til baka áform um að slíta viðræðunum án aðkomu þjóðarinnar.
Í ofanálag mæta þúsundir á samstöðufundi á Austurvelli laugardag eftir laugardag (og margir þess á milli líka) og það er ekkert sjálfsagt mál – nokkuð heit viðhorf þarf til að smala svo mörgum svo oft á vettvang til að lýsa yfir eindreginni skoðun.
Þetta er um leið ákaflega fjölbreyttur hópur sem mætir á Austurvöll (og skrifar undir). Í ólgunni sem kennd hefur verið við búsáhöld og í baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá var samsetningin fjölbreytt og margt af því fólki mætir á Austurvöll, en nú sér maður líka alls konar annað fólk, sem maður átti ekki endilega von á að mótmæla með (sýna samstöðu).
Ekki að þetta fólk gæti stofnað flokk saman. Evrópumálin myndu sundra slíkum félagsskap umsvifalaust. Á Austurvelli eru nefnilega aldeilis ekki tómir ESB-sinnar. Margir þarna eru hreint ekki hrifnir af ESB, en vilja lýðræði og taka upplýsta afstöðu út frá skýrum valkostum. Ég gæti trúað því að í samfélaginu séu þeir sem eru andvígir eða skeptískir út í aðild að ESB, en vilja kjósa, séu svipað margir og þeir sem nú segja já við ESB-aðild. Ágætar líkur eru á því að þegar loks kemur/kæmi að því að kjósa um samning/aðild lenti fólkið á Austurvelli í sitthvoru horninu.
ESB-aðildarmálið (ásamt gjaldmiðlamálinu) hefur undanfarin ár sundrað flokkum og þjóð. Og það er ekki órýmilegt að ætlast til þess að fyrr heldur en síðar fái þjóðin að sjá valkostina skýrlega og taka afstöðu til þeirra. Sjálfur set ég afar ströng skilyrði fyrir því að segja já við ESB-aðild, svo ströng að mér finnst líklegt að á endanum segi ég nei. Ég vil meta málið heildstætt og viðmið mitt er hagur alþýðu þessa lands. Og þá dugar ekki ódýrara kjöt, svo dæmi sé tekið. Ekki ef þá þyrfti að einka(vina)væða í heilbrigðisgeiranum, svo dæmi sé tekið. Ég hygg að þjóðin sé reiðubúin að taka slaginn og afstöðu – þjóðin sem felldi tvo Icesave-samninga, muniði?
Fimmtíu og þrjú þúsund kjósendur vilja greiða atkvæði um framhald viðræðnanna. Nærfellt 22% kjósenda, sem er verulega hátt hlutfall. Þessi vilji er svo ótvíræður að það er beinlínis þjösnalega ólýðræðislegt að keyra áfram áform um að slíta viðræðunum.
- Halldór Halldórsson kvaddur - 23/06/2015
- Öfugmælastríð hægrimanna gegn RÚV - 09/03/2015
- Öfgarnir hræða - 25/05/2014