trusted online casino malaysia
Ritstjórn 28/07/2019

30 ára stríð og nokkrir ritþjófnaðir

Í haust kemur út bókin „Hannes – portrett af áróðursmanni“ eftir Karl Th. Birgisson ritstjóra Herðubreiðar.

Í samtali við tímaritið segir Karl hugmyndina hafa kviknað eftir fjölmörg skilaboð frá lesendum.

„Ég hef verið mjög hvattur til þess að skrifa um valdaskeið Sjálfstæðisflokksins á tíunda áratugnum og langt fram á þessa öld, einkum eftir að ég gaf út Hina ósnertanlegu og skrifaði greinar í Stundina um svipað efni.

Mér þótti það of yfirgripsmikið viðfangs, svo að hugmyndin kviknaði um að fókusera á eina mest áberandi persónuna í þeirri sögu, en hafa sem bakgrunn árin sem Sjálfstæðisflokkurinn umgekkst ríkisvaldið eins og það væri prívateign hans. Þannig varð þessi bók til.“

Herðubreið fjármagnar alla útgáfu sína með forsölu til dyggra lesenda og Karl segir það einnig gilda núna: „Við höfum tryggt prentunina, en erum að skrapa saman fyrir fallegum myndum af söguhetjunni og öðrum sem koma fyrir í frásögninni. Upplagið verður takmarkað, en hægt að kaupa eintök í forsölu á 4.900 krónur. Bókin um Hina ósnertanlegu er fyrir löngu uppseld og ófáanleg.“

Ritstjórinn bætir við að opinber saga Hannesar spanni marga áratugi og því hafi þurft að velja og hafna.

„Við byrjum á því þegar Sjálfstæðisflokkurinn bjó til stöðu fyrir Hannes í háskólanum, í óþökk skólans sjálfs, sem þýddi eiginlega 30 ára stríð innan félagsvísindadeildar. Svo eru þarna einhverjir ritþjófnaðir, meiðyrðamál, sagan af nokkrum uppáhaldsóvinum Hannesar, menningarbyltingin, þar sem Ríkisútvarpinu, Kvikmyndasjóði og fleiri stofnunum var óspart beitt í þágu vina og vandamanna, og svo mætti áfram telja. Í einum kafla er lýst frekar sérkennilegu máli um vændissíðu í Brasilíu. Það varð opinbert mál, en að öðru leyti hef ég engan áhuga á einkalífi Hannesar.

Þetta er ekki ævisaga, heldur blaðamennskubók eins og tíðkast víða, ekki síst í Bandaríkjunum. Nokkuð viðamikið portrett, um 300 síður, og má ekki minna vera þegar svo mikilvæg persóna á í hlut.“

Hafðirðu samband við Hannes við undirbúninginn?

„Ég komst mjög fljótlega að þeirri niðurstöðu að það væri ekki endilega gagnlegt. Bókin er byggð á opinberum heimildum og fjölda samtala við samferðamenn. Bókin er vonandi hlutlæg, en ég dreg samt ályktanir af fyrirliggjandi staðreyndum og gögnum. Markmiðið er alltaf að frásögnin sé bæði heiðarleg og sanngjörn. En hugsanlega líka lipur aflestrar.“

Hægt er að panta eintak af bókinni í netfanginu herdubreid@herdubreid.is.

1,123