trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 10/05/2014

Sigur Evrópu

Austria-Conchita-Wurst-1Sigur Conchitu Wurst frá Austuríki í Evróvisjón í kvöld var sigur Evrópu allrar. Sigur yfir fordómum einsog okkar eigin Pollapönkarar minntu á.

Sigur fjölbreytileikans, sigur þeirrar staðreyndar að það eru ekki allir eins, ekkert sérstakur sigur homma og lesbía eða transfólks, heldur okkar allra, því við erum öll mismunandi.

Þetta var sigur frelsis, þetta voru skilaboð Evrópu til Pútíns og annarra með hommafóbíu um allan heim. Allar þessar mismunandi þjóðir sem greiddu Austuríki atkvæði sín sögðu það, lýstu þessu yfir.

Púið í salnum sem Pútín átti skilið þótt söngkonurnar ættu það ekki skilið, skilaði sér vonandi líka til Pútíns og hans kóna. Farðu út úr Úkarínu, virtu mannréttindi, virtu margbreytileika mannfólksins sagði púið. Burt með fasismann, sagði bæði púið og atkvæðagreiðslan.

Þetta var yfirlýsing um frið, yfirlýsing um að friður og mannréttindi eru grundvallaratriði. Evróvisjón sýnir allt sem er gott við Evrópu og við Evrópusambandið. Rétt einsog þar kjósa menn gjarnan vinaþjóðir og með nágrannaþjóðum, standa saman um sumt, mynda blokkir. En bara stundum og bara um sumt, oft hefja þjóðir sig upp yfir það, hvort sem er í Evróvisjón eða í Evrópusambandinu og greiða atkvæði með því sérstaka, óháð því hver þjóðin er.

Þetta var gott lag, frábærlega sungið, og myndi þess vegna slá í gegn í James Bond mynd, en atkvæðagreiðslan var líka yfirlýsing. Yfirlýsing Evrópu um að við séum umburðarlynd, við metum hæfileika óháð öllu öðru. Við virðum mannréttindi og virðum einstaklinginn og við erum tilbúin að nota Evróvisjón til að segja fautunum það.

Því miður tekur þetta sama fólk og kýs í Evróvisjón sig ekki til og kýs líka í kosningum til Evrópuþingsins til að segja hægröfgaflokkunum líka stríð á hendur á þeim vettvangi. En kannski á það eftir að gerast. Vonandi. Við þurfum á því að halda. Við verðum að stoppa fasismann sem veður uppi, við verðum að stoppa Pútín og hans kóna sem kasta listamönnum einsog Pussy Riot í fangelsi árum saman fyrir skoðanir sínar. Sem virðir ekki fullveldirétt þjóða. Það verður að stoppa, það er kominn tími til.

Sigur Conchitu getur verið liður í því. Ef við ákveðum það.

pollar og conchita

Flokkun : Pistlar
1,268