trusted online casino malaysia
Ragnar Þór Pétursson 19/05/2014

Vonarstræti: Ferskmeti úr frystikistu

AR-705079985

Annað aðaleinkenna Vonarstrætis er að í handriti hennar finnst varla ein frumleg hugmynd. Þær eru svotil allar endurunnar, burðarstykki úr eldri myndum. Flestar eiga það þó sameiginlegt að hafa á sínum tíma verið nokkuð frumlegar. Ný tilbrigði við enn eldri stef. Að þessu leyti er myndin alveg laus við að vera fersk eða ný.

Hitt aðaleinkenni myndarinnar er að hún er afspyrnu vel gerð. Og frábærlega leikin. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða stór hlutverk eða smá; börn eða fullorðna, allir leika vel – og þeir sem hafa erfiðustu hlutverkin leika best.

Hera Hilmarsdóttir úsar persónuleika og gerir fátæklegar samtalssenur ríkar, Þorsteinn Bachmann er fullkomlega trúverðugur í flóknu og viðkvæmu hlutverki. Myndin er borin uppi af þeim. Og þau fara létt með það.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson er pottþéttur og að sumu leyti einnig í burðarhlutverki því sköpunin í kringum Heru og Þorstein á sér að mestu leyti stað í hægagangi og drifkrafturinn er því í kringum persónu Þorvaldar. „Í kringum“ segi ég því sjálfur er hann ekki endilega drifkrafturinn. Hann er millistykki. Í gegnum hann tengjast frábærar aukapersónur úr öllum áttum. Kristín Lea leikur eiginkonu hans af fágætri natni á meðan „vinahjón“ þeirra, leikin af Vali Frey Einarsyni og Elmu Lísu Gunnarsdóttur, eru groddaleg og færa myndinni mikinn þrótt. Þá er Sveinn Ólafur Gunnarsson í lítt áberandi en mjög mikilvægu hlutverki sem hann leysir frábærlega.

Theódór Júlíusson leikur föður aðalpersónunnar. Hann fær ekki margar mínútur á tjaldinu en mikið sem hann fer vel með þær. Loks kom á óvart hve börnin í myndinni leika vel.

Það má spyrja sig hvaða gildi svona kvikmyndir hafa, sem settar eru saman nær eingöngu úr „stolnum fjöðrum“. Eru þær ekki harla lítils virði í sjálfum sér þótt þær séu firnavel gerðar? Í stóra samhenginu held ég að sú geti orðið raunin. Það vantar í sjálfu sér ekki mikið upp á að myndin standi undir sumu af hæpinu sem um hana hefur myndast. Ég held samt að til þess að hún nái að standa ein og óstudd í alþjóðlegum samanburði vanti eitthvað ferskt, eitthvað nýtt.

Ef maður, hinsvegar, horfir á það umhverfi sem myndin er sköpuð í – og gefur sér að hún sé hugsuð fyrir innlendan vettvang – þá er gildi hennar bæði augljóst og borðleggjandi. Myndin er spegilmynd af íslenskri þjóð. Og haganlega gerð sem slík. Hér innanlands á hún fullt erindi.

Það þýðir ekki að hún verði endilega alþjóðlegt meistaraverk, því öfugt við það sem Íslendingar vilja sjálfir trúa, er þjóðin sjálf ekki alþjóðlegt meistaraverk. Útrás okkar skildi kannski harla fátt eftir sig annað en að nokkrir testósteróntitrandi töffarar migu í útlenskan sjó af þilfarinu á Víkingnum rétt áður en þeir gerðu strandhögg í Hollandi og Bretlandi.

Að þessu leyti er myndin harla skýr og skörp – og ég verð að viðurkenna að ég hristi hausinn pínupons yfir því að mikið af þeim afar jákvæðu dómum sem fallið hafa um myndina eru eins og klipptir úr munnum ógeðfelldustu persóna hennar

Latest posts by Ragnar Þór Pétursson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,324