trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 28/01/2016

Viltu lána mér Dodge-inn þinn? Ég skal borga til baka í gömlum Skóda

„Verðtryggingin er ekki lofsverð, nema síður væri. En verðtryggingin – miðað við þann veika gjaldmiðil sem við erum með, sem sveiflast upp og niður og hefur fallið í verði um yfir 100 prósent á einu ári – er eina aðferðin til að tryggja það, að þú skilir til baka peningum sem þér eru lánaðir.“Sighvatur Björgvinsson

Þetta sagði Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, meðal annars í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær.

Hann rifjaði upp þegar ungir þingmenn Alþýðuflokksins börðust fyrir því að verðtryggingunni yrði komið á 1978-1979, undir forystu Vilmundar Gylfasonar.

Ekki voru allir hrifnir af þessum hugmyndum, þeirra á meðal Lúðvík Jósepsson formaður Alþýðubandalagsins. Hann átti þá nýjan Dodge.

„Vilmundur spurði hann: ´Viltu lána mér nýja Dodge-bílinn þinn í svona eitt ár? Ég borga þér til baka í gamla Skódanum hans Gunnlaugs Stefánssonar´, sem var þá einn af þessum ungu þingmönnum. Þá held ég að Lúðvík hafi fyrst skilið til hvers verðtryggingin var.“

Og Sighvatur benti á hina hliðina á þessum peningi, nauðsyn þess að tryggja raungildi peninga:

„Þeir sem eru að biðja um að verðtryggingin sé afnumin – hvað ætla þeir að gera með verðtryggingu lífeyrisþeganna? Gamalt fólk, sem á aðild að lífeyrissjóðum, hefur þá einu tryggingu í þessu íslenska umhverfi fyrir því að fá lífeyrinn sinn óskertan, að hann er verðtryggður. Ætla menn að afnema það líka? Hann menn að þeir geti haldið verðtryggingu á lífeyrissjóðstekjum fólksins um leið og þeir afnema verðtryggingu á lánunum?“

Sighvatur sagði að á meðan íslenska krónan er lögeyrir verði aðstæður fólks hér aldrei þær sömu og nágranna okkar.

„Fyrir hrun gat fólk fengið að taka lán í erlendum, gjaldgengum myntum, sem hægt er að nota um allan heim. Þá borguðu menn lága vexti, miklu lægri en þeir sem tóku lán í íslenzkum krónum. […] Ef á Íslandi hefði verið notaður gjaldmiðill, sem var jafngjaldgengur og sá sem lánin voru tekin í, þá hefði enginn lent í neinum vandræðum vegna þeirra. […]

Til þess að geta búið við svipaðar aðstæður og fólk í nágrannalöndunum, þá verður þú að hafa svipaðan gjaldmiðil og það, þ.e. gjaldmiðil sem ekki sveiflast jafnskelfilega og íslenzka krónan. […] Hún er svo veik, þetta er svo lítill gjaldmiðill, hún er svo viðkvæm, að það má ekkert gerast. […]

Þjóðin verður að gera sér grein fyrir því, að hún fær þetta aldrei leyst með nokkurri alvöru fyrr en íslenska þjóðin býr við sömu aðstæður og lántakendur í öðrum löndum, að miða við gjaldmiðil sem hægt er að treysta á.“

Til frekari fróðleiks má benda á frumvarp um raunvaxtastefnu, sem sjö þingmenn Alþýðuflokksins lögðu fram árið 1978. Meginefni þess varð svo hluti hinna svokölluðu Ólafslaga 1979, en þau eru kennd við Ólaf Jóhannesson, þá formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra.

Flokkun : Efst á baugi
1,392