trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 02/01/2019

Viðhlæjendur byltingarinnar

Guðspjall: Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. (Jóh 2.23-25)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár.

Í Hávamálum er að finna ýmsa speki sem lifað hefur með þjóðinni um aldir og sumt af henni hefur jafnvel orðið að orðatiltækjum sem við notum, gjarnan án þess að gera okkur endilega grein fyrir uppruna þeirra. Þar er meðal annars að finna þessa hendingu:

Ósnotur maður

hyggur sér alla vera

viðhlæjendur vini.

Já. Þeir sem komist hafa í þá stöðu að hugsanlega kynni eitthvað að vera hægt að græða á vináttu þeirra hafa, held ég, flestir veitt því athygli hve viðhlæjendum þeirra snöggfjölgaði við það. Þetta er gömul speki og ný og alls ekki bundin við Ísland eða Hávamál.

Ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Þetta er almælt.

Algild speki

Þúsund árum áður en Hávamál urðu til var sama speki færð í letur með öðrum hætti í öðrum heimshluta, fyrir botni Miðjarðarhafsins í riti sem við köllum Nýja testamentið.

Það er nefnilega þannig að ef byltingin tekst þá kemur í ljós daginn eftir að allir voru allan tímann sannir byltingarmenn í hjarta sínu, á bandi byltingarinnar og treysta sér fullkomlega til að vera bestu vinir byltingarleiðtogans. Ef byltingin mistekst, segjum jafnvel að byltingarleiðtoginn hafi verið krossfestur, þá kannast enginn við að hafa nokkurn tímann verið í slagtogi við hann. Besti vinur hans er jafnvel vís með að afneita honum þrisvar áður en eitt hanaræksni nær að gala tvisvar.

Í þessum stutta guðspjallsbúti, þessum þremur versum sem við lesum í dag, er mikil saga og djúpur sannleikur. Á yfirborðinu lætur þetta lítið yfir sér. Jesús er í Jerúsalem á páskahátíðinni og margir fara að trúa á hann. En Jesús virðist taka því fálega, eins og hann hafi einhverja fyrirvara. Hann gaf þeim ekki trúnað sinn því hann vissi hvað í þeim bjó.

Af hverju er Jesús svona leiðinlegur? Hverju sætir þessi tortryggni? Af hverju tekur hann ekki öllu þessu fólki opnum örmum og gerir það að trúnaðarvinum sínum?

Við verðum að setja þennan texta í samhengi við stóru söguna sem guðspjallið segir. Það sem hér er nýbúið að gerast er að Jesús frá Nasaret og fylgismenn hans hafa gert áhlaup á musterið í Jerúsalem, helgasta stað gyðingdómsins, og tekið það yfir. Hann gerði sér svipu úr köðlum og rak alla út úr musterinu, velti við borðum og kallaði þá ræningja sem seldu fórnardýr á uppsprengdu verði í ágóðaskyni fyrir æðsta prestinn og fjölskyldu hans. Og það er undir þessum kringumstæðum sem Jesús er að kenna í musterinu og allt þetta fólk tekur allt í einu hreina og sanna trú … að sögn.

Hvað hafði allt þetta fólk verið að gera áður en Jesús tók til sinna ráða og hreinsaði til í spillingarfjósinu? Við hverjum hló það þá? Jesús vissi það ósköp vel. Hann þekkti alla.

Hvað gerði allt þetta fólk þegar Jesú var síðan að blæða út á krossinum? Hvar var trú þess þá? Hvers máttu sín þá öll táknin sem hann hafði gert? Voru þá kannski aðrir komnir til sögunnar sem vænlegra var að hlæja við en ræflinum sem verið var að murka lífið úr á Golgata?

Hvað er bylting?

 Ég nota hér orðið „bylting“ og misnota það kannski. Mér til varnar get ég aðeins sagt að orðið hefur verið notað á þennan hátt – um samfélagsbreytingar, um víðtæka og almenna kúvendingu á viðhorfum, viðmiðum og því hvað samfélagið umber og hvað ekki. Svo dæmi sé tekið þá hefur á mínu æviskeiði orðið ekkert minna en algjör bylting í viðhorfum samfélagsins til samkynhneigðar. Og nú er svipuð bylting að eiga sér stað gagnvart kynáttun, góðu heilli.

Á nýliðnu ári heyrðist orðið „bylting“ notað um það að rjúfa þagnarmúrinn um kynferðislega áreitni og kynferðislega misbeitingu valds, um það að segja þolendaskömmun stríð á hendur og skila sektinni til hinna seku. Myllumerkið #metoo var neisti sem kveikti bál. Og ég trúi því að margir hafi sopið hveljur yfir sögunum, ekki bara því hve sumar þeirra lýstu harðsvíruðu virðingarleysi og yfirgangi, ef ekki beinlínis hegningarlagabrotum – heldur ekki síður yfir því hve margar þessar sögur voru. Og úr öllum geirum þjóðfélagsins að því er virtist. Allt í einu rann upp fyrir mörgum að þeir höfðu lifað og hrærst í fársjúku samfélagi þar sem þögn hafði ríkt um þá staðreynd að helmingur borgaranna bjó við að það væri eðlilegur hluti af reynsluheimi þeirra að vera sýnd lítilsvirðing og dónaskapur, verða fyrir áreitni og jafnvel kynferðislegu ofbeldi af hálfu, að því er virðist, stórs hluta hins helmingsins. Stjórnmálakonur, leikkonur, prestar, íþróttakonur, heilbrigðisstarfsmenn – það virtist gilda einu hvar borið var niður. Alls staðar hafði þessi óþverri grasserað og um það verið þagað. En ekki lengur.

Tuð um yfirgang pólitískrar rétthugsunar og að ekkert mætti nú lengur, karlar mættu ekki lengur reyna við konur – eins og einhver af þessum sögum hefði snúist um heiðarlega, misheppnaða viðreynslu – heyrðist auðvitað. Og heyrist enn. En hverjum þeim karli sem ekki er siðblindur og á móður, systur eða dætur – sem reyndar er mikill meirihluti íslenskra karlmanna – hlýtur að misbjóða að þær geti ekki látið drauma sína rætast án þess að eiga það á hættu að vera svívirtar eða misnotaðar kynferðislega af karlkyns kollegum eða yfirmönnum. Og að þær eigi bara að láta það yfir sig ganga.

Ný stemning

 Undir þessum kringumstæðum, í kjölfar byltingarinnar sem tókst – eða að minnsta kosti virðist vera vænlegt að veðja á að muni að lokum takast, dauði síðasta dónakallsins sé í augsýn – er bæði auðvelt og praktískt að hoppa á vagninn. Það er lítil fyrirhöfn og líklegt til vinsælda að koma út úr skápnum sem einarður feministi til langs tíma þegar þetta er stemningin. Mun minni fyrirhöfn, eins og dæmin sanna, heldur en að stilla sig síðan um að sýna sitt rétta eðli með fyrirlitlegu groddatali í því sem ranglega var treyst á að væri trúnaðarsamtal.

Við þurfum ekkert að ímynda okkur að allir viðhlæjendur þessarar byltingar séu vinir hennar.

Það var áhugavert að fylgjast með hinni siðfræðilegu umræðu sem fram fór síðustu vikur ársins sem við kvöddum í gær. Ég stórefa að orð eins og iðrun og fyrirgefning og jafnvel sjálft syndarhugtakið hafi nokkurn tímann verið eins miðlæg í þjóðfélagsumræðunni og í lok nóvember og í desember 2018.

Og við hljótum að spyrja okkur sjálf hvað sé rétt og rangt í þessum efnum. Hve langt á umburðarlyndi okkar að ná? Hve langt má opinber smánun manna sem verða sér til skammar ganga? Skiptir það máli hverjir eiga í hlut, er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón? Er ekki þversögn í því fólgin að fara ljótum orðum um menn fyrir að fara ljótum orðum um menn? Er með því ekki einmitt farið niður á þeirra plan með þeim afleiðingum að í stað málefnalegrar umræðu fáum við leðjuslag?

Jú, svo sannarlega. Og ekki hefur allt verið gáfulegt eða geðslegt sem kom fram í umræðunni, beggja vegna víglínunnar.

Hvað má þá?

En við sem kristið fólk megum þó standa vörð um grundvallarhugtök siðfræðinnar sem við aðhyllumst, hugtök á borð við iðrun og fyrirgefningu, og láta ekki misnota þau, útvatna og afskræma til að firra menn ábyrgð orða sinna og gjörða.

Við megum benda á að setningin: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini“ var sögð til að verja forsmáða, réttlausa og varnarlausa konu fyrir grjótkasti vel stæðra karla úr stétt góðborgara, ekki til að verja rétt vel stæðra karla úr stétt góðborgara til að svívirða alla þá þjóðfélgashópa koll af kolli sem þurft hafa að heyja réttindabaráttu til að standa jafnfætis þeim frammi fyrir stofnunum samfélagsins.

Við megum benda á að fyrirgefning fæst fyrir iðrun og yfirbót eins og sagan af týnda syninum sýnir. Hún fæst ekki fyrir að neita sök og benda á aðra, enda væri í því fólgin þversögn, því hvað á að fyrirgefa þeim sem ekkert hefur til saka unnið?

Við megum benda á að iðrun í orði án nokkurra yfirbóta í verki er orðin tóm og einskis verð. Það er munur á því að sjá að sér, játa sök sína, iðrast og bæta fyrir brot sín og hinu að grenja sig hvítan af ótta við afleiðingar þess að gera það ekki.

Hvernig kristin manneskja á að bregðast við forherðingu er nefnilega ekki síður mikilvæg siðferðisleg spurning sem við stöndum frammi fyrir og ekki er síður þörf að ræða en hinar spurningarnar sem ég hef varpað hér fram. Hvað segir Nýja testamentið okkur um syndarann sem neitar sök? Um misgjörðarmanninn sem kann ekki að skammast sín? Um valdafólkið sem misnotar opinbera aðstöðu sína í eiginhagsmunaskyni á kostnað almennings? Og má þá ekki einu gilda hvort það er gert í opinberu embætti eða annarri valdastöðu? Breytir það einhverju hvort brotið er framið í efnahagslegum eða kynferðislegum tilgangi?

Hvernig eigum við að bregðast við dónaköllunum og spilltu embættismönnunum sem annað hvort neita allri sök eða krefjast bara umbúðalaust fyrirgefningar, eins og hún sé eitthvað sem þeir eigi heimtingu á án þess að hafa nokkuð til hennar unnið?

Hvað hefði Jesús gert?

Það sem Jesús gæti hafa gert

Þeirri spurningu get ég ekki svarað.

En get bent á að eitt af því sem hann gæti hafa gert er að gera sér svipu úr köðlum, velta um borðum þeirra og hrekja þá á flótta.

Jesús Kristur var nefnilega byltingarleiðtogi. Sú valdefling smælingjanna og miskunnarlaus gagnrýni hans á valdhafa, sem var leiðarstefið í boðskap hans, var ekkert annað en ófyrirleitin árás á ríkjandi viðhorf og valdastrúktúr samfélagsins sem hann starfaði í.

Og samfélagið sem við búum í virðist því miður vera þannig að enn er boðskapur Jesú árás á ómenningu sem manni sýnist vera rótgróin því og samofin.

Áleitnasta spurningin sem við ættum að spyrja okkur í dag, að mínu mati, varðar kannski einmitt byltinguna … byltinguna gegn valdleysinu, raddleysinu, undirokuninni, kúguninni og þögguninni, í hvaða nafni sem byltingin er gerð.

Og hún er þessi: Er ég vinur byltingarinnar … eða viðhlæjandi?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á nýársdag 2019

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,316