trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 26/02/2020

Sannleikurinn er sæskjaldbaka

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum, kannski um tuttugu eða svo, ákvað ég fyrir ein jólin að baka sörur. Það vita þeir sem reynt hafa að það er meira en að segja það, ekki síst fyrir skussa eins og mig sem er margt betur til lista lagt en vandasamur smákökubakstur. Niðurstaðan varð sú að sörurnar gengu undir nafninu „sæskjaldbökur“ á mínu heimili. Sumpart af því að þeim svipaði til þeirra þrautseigu skepna í útliti, en aðallega vegna þess að hlutfallið af kökunum sem fóru í ofninn sem náðu að verða að sörum var svipað og hlutfallið af sæskjaldbökuungum sem skríða úr eggi sem ná að verða að fullvöxnum sæskjaldbökum.

Þróun tegundanna

Dýr hafa þróað með sér ýmsar aðferðir til að viðhalda sér sem tegund. Það birtist ekki síst í afkvæmum þeirra og með hvaða hætti þau tryggja að næsta kynslóð komist á legg. Afkvæmi flestra grasbíta þurfa til dæmis að geta hlaupið um og fylgt hjörðinni fárra klukkustunda gömul. Við mennirnir gerum þetta öðruvísi. Afkvæmi okkar fara í fyrsta lagi að ganga 10 – 12 mánaða gömul og þá aðallega á mublur og veggi til að byrja með, alla vega samkvæmt minni reynslu. En það er yfirleitt í lagi því fyrstu árin … jafnvel áratugina … geta þau flest, sem betur fer, treyst því að fullorðið fólk annist þau.

Sæskjaldbökur aftur á móti – eins og fleiri dýr, t.d. flestir fiskar – fara aðra leið að þessu. Þar lýkur hlutverki móðurinnar strax eftir að hún hefur orpið eggjum og grafið þau í sandinn. Hlutverki föðurins lýkur strax eftir getnað, eins og reyndar hjá fleiri tegundum, jafnvel mannfólkinu í ákveðnum tilfellum.

En frá og með þeirri stundu þegar eggin eru grafin í sand verða afkvæmi sæskjaldbökunnar að spjara sig alfarið sjálf. Þau skríða úr eggjunum öll í einu og keppast við að komast til sjávar. Strax á fyrstu mínútunum er dágóður hluti þeirra étinn af mávum. Í sjónum eru þau líka fæða fyrir ýmis dýr. Um einn skjaldbökuungi af þúsund nær að verða stór. En það er nóg, sæskjaldabakan leysir þetta vandamál með því að verpa um þúsund eggjum í hvert sinn. Hún gerir ráð fyrir afföllunum.

Þetta er ágæt og algeng aðferð til að tryggja viðgang tegundar. Hversu mörg frjókorn, sem metta loftið á vorin og gera mörgum erfitt um andardrátt, ná að verða að trjám?

Sæskjaldbökuaðferðin

Með þessari aðferð er líka hægt að tryggja viðgang hugmynda, gilda og trúar. Að dreifa þeim og dreifa. Megnið af því lendir á lokuðum eyrum, lokuðum hugum og lokuðum hjörtum. Einhverjir kunna jafnvel að fyrtast við. En ef þau hitta einn einstakling í hjartastað var það fyrirhafnarinnar virði. Ef þau ná að skjóta rótum í einu hjarta breytir það öllu – fyrir þann einstakling.

Þannig starfar sáðmaðurinn í dæmisögu dagsins í dag. Hann gengur um og sáir. Hann gerir sér fulla grein fyrir því að aðeins brot af því sem hann sáir verður að korni sem ber ávöxt. Hann leysir það vandamál með því að sá þeim mun meira. Hann gerir ráð fyrir afföllunum. Hann veit að sumt lendir í grýttri jörð, sumt meðal þyrna, sumt verður étið af fuglum. En hann veit líka að sumt af því lendir í frjórri mold, skýtur rótum, vex og dafnar og veitir styrkjandi næringu þegar það er skorið upp.

Og þetta gildir ekki bara um Guðs orð. Síðasta sunnudag skoðuðum við hvað það þýðir að vera kölluð til starfa sem verkamenn í víngarði Drottins. Í dag höldum við áfram og nú erum við stödd úti á akrinum. Starf okkar í veröldinni á að vera fólgið í því að sá, sá því sem okkur er heilagt, því sem er gott og göfugt og fallegt og rétt. Alltaf. Alls staðar.

Flestir munu láta það sem vind um eyru þjóta. Einhverjir munu bregðast ókvæða við. En kannski, bara kannski, getum við breytt lífi þessa eina sem er með opinn huga, þessa eina sem var að efast og þurfti einmitt á þessari stundu að heyra að hann væri ekki einn um það.

Bergmálshellirinn

Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga í samfélagi nútímans þar sem svo mikið af samskiptum og skoðanaskiptum fara fram inni í sápukúlu samfélagsmiðla. Við eigum vini á netinu sem við deilum með vinum og viðhorfum. Við erum sammála um flesta hluti. Ágreiningur okkar er ekki um siðferðileg grundvallaratriði. Við smíðum okkur bergmálshelli á netinu sem við erum föst inn í og heyrum ekkert annað en enduróm okkar eigin skoðana og viðhorfa. Við erum alltaf að prédika yfir kórnum.

Svo kemur skoðanakönnun og ég og vinir mínir erum steini lostin. Hvaða fólk er þetta sem ætlar að kjósa þessa flokka? Hvaða fólk hefur þessi viðhorf? Ekki þekki ég einn einasta mann úr þeim hópi, sem einhver skoðanakönnun sýnir að telur kannski tíu til tuttugu prósent þjóðarinnar. Ef ég og vinir mínir á facebook værum einu kjósendurnir á Íslandi byggjum við öll í sósíalískri paradís – að minnsta kosti erum við sjálf sannfærð um að svo væri. Það væri örlítil og auðviðráðanleg andstaða í þessum örfáu hægrimönnum sem eru í vinahópnum því að þrátt fyrir að maður sé ósammála þeim þá er því ekki að neita að þeir eru málefnalegir, fjölfróðir og skemmtilegir og ekki að lýsa yfir dálæti á Donald Trump. Þar er semsagt málefnalegur skoðanaágreiningur á ferðinni, en ekki grundvallar siðferðiságreiningur. Stærsti kosturinn við þá er þó auðvitað sá að þeir eru svo fáir að ég og skoðanasystkini mín erum í þægilegum meirihluta og finnum auk þess til vellíðunar yfir umburðarlyndi og víðsýni okkar sjálfra að hafa þá með.

Sáðmenn góðs og ills

En þannig er ekki heimurinn. Við erum ekki í meirihluta þótt okkur finnist að við ættum að vera það og við séum það í bergmálshellinum okkar. En við getum ekki vænst þess að vera það úti á akrinum ef við sáum ekki fræjum þess, sem við teljum vera sannleikann, annars staðar en í garðinum hvert hjá öðru.

Við verðum að tala máli þess sem satt er og rétt alltaf og alls staðar. Jafnvel þar sem ekki er líklegt að það afli okkur vinsælda. Jafnvel þar sem okkur býður svo hugur að það sé eins og að stökkva vatni á gæs. Af því að við vitum aldrei hvar þessi eini leynist sem er móttækilegur fyrir nýjum sannleika.

Því við erum ekki einu sáðmennirnir sem eru á ferð.

Meðal okkar er sáð illgresi og þyrnum. Útsæðinu er dælt miskunnarlaust til sáðmanna haturs og ofstækis, fordóma og þjóðrembu, bæði á internetinu og öldum ljósvakans. Við búum í samfélagi sem metur skoðana- og tjáningarfrelsi svo mikils að ekki virðist vera hægt að skrúfa fyrir þessar óhróðurs- og mannahatursveitur, jafnvel þótt þær verði hvað eftir annað uppvísar að því að dreifa rangfærslum, útúrsnúningum og jafnvel bláköldum lygum. Og ég ætla ekki að fullyrða að það væri æskilegt að gera það. Sannleikanum er kannski lítill greiði gerður með því að gefa lygurunum kost á að útmála sig sem fórnarlömb þöggunar.

Þessu verður sennilega best svarað með enn öflugri sáningu hins andstæða. Ef eitt af hverjum þúsund fræjum verður að dafnandi jurt þá fáum við þúsund dafnandi jurtir ef við sáum milljón fræjum. Til þess þarf dugnað og þrautseigju … og nóg af fræjum.

Óþrjótandi auðlind

En þar stöndum við vel að vígi. Við þurfum ekkert að spara sæðið. Öfugt við sörudeigið mitt hérna um árið þá er boðskapurinn um kærleikann til allra manna óþrjótandi auðlind.

Þegar gull er grafið úr fjalli minnkar það magn gulls sem hægt er að grafa úr fjallinu smám saman. Þegar olíu er dælt úr jörð minnkar olíuforðinn ofan í jörðinni jafnt og þétt. Þegar sannleika ljóssins og lífsins er dreift eyðist hann aftur á móti ekki heldur vex og magnast og smitar út frá sér ljósi og lífi sem aftur vex og magnast og fegrar og bætir heiminn.

Í Matteusar- og Markúsarguðspjöllum er stórkostleg saga af því þegar Jesús mettar þúsundir manna með örfáum brauðum og fiskum. Sagan er dæmisaga hlaðin táknum. Brauðið er gegnumgangandi tákn fyrir andlega næringu í heilagri ritningu. Jesús sjálfur segist vera hið lifandi brauð sem niður steig af himni og gefur heiminum líf.

Og því er einu sinni þannig háttað með andlega næringu að hún eyðist ekki þegar henni er deilt með öðrum, heldur þvert á móti þá verður til meira af henni. Það verður ekkert minna af sannleika eftir í hjartanu á mér þótt ég deili honum með þér. Öðru nær. Það gerir okkur bæði ríkari.

Við erum kölluð til starfa úti á akrinum. Sáum fræjum sannleikans hvar og hvenær sem er. Því einu getum við treyst: Við verðum aldrei uppiskroppa með útsæði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 16. 2. 2020

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,469