trusted online casino malaysia
Ritstjórn 30/03/2014

Við verðum hérna þangað til

Eftir Stíg Helgason

Það er gaman að sjá hversu margir eru komnir saman hér í dag, enn einn laugardaginn, til að halda á lofti kröfu sem ætti að vera öllum sjálfsögð en virðist samt þurfa að jórtra ofan í suma eins og fuglsunga.

(Mynd: Kristín Dýrfjörð)

(Mynd: Kristín Dýrfjörð)

Ég er ekki kominn hingað til að tala um Evrópusambandið. Ég ætla ekki að segja ykkur að grasið sé grænna hinum megin, handan einhvers sem ég veit ekki einu sinni almennilega hvað er – múrar eða girðingar eða landamæri, gjaldeyrishöft eða bara hafið. Þetta snýst ekkert um það.

Ég er ekki kominn hingað til að segja ykkur að þingsályktunartillagan um viðræðuslitin við Evrópusambandið sé til þess fallin að raska stöðugleika á vinnumarkaði. Þetta snýst ekkert um það.

Ég er ekki kominn hingað til að tala um hvað ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé vonlaus, ráðherrarnir vitlausir, og að öll þeirra verk séu eintómt skaðræði. Þetta snýst ekkert um það – nema að litlu leyti.

Ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur að það sé Íslandi fyrir bestu að ljúka þessum aðildarviðræðum. Krafan sem hér er gerð er nefnilega ekki um það. Það gæti meira að segja vel verið að einhver ykkar sem eruð hér í dag munduð greiða atkvæði með viðræðuslitum – en að þið viljið bara fá tækifæri til þess að greiða um það atkvæði.

Krafan sem hér er sett fram er nefnilega mjög einföld. Krafan er ekki um að Ísland gangi í Evrópusambandið, hún er ekki heldur um að viðræðurnar verði kláraðar, hún er um það eitt að við fáum sjálf að ákveða hvort það verður stoppað á miðri leið eða ekki, vegna þess að það er stór ákvörðun og hún skiptir miklu máli. Um þetta eru 53 þúsund Íslendingar sammála – hið minnsta.

Þessi krafa gengur í raun svo skammt að það er með lífsins ólíkindum að hér þurfi þúsundir manna að safnast saman í hverri viku til að halda henni á lofti. Íslenska þjóðin er svo hófstillt að á þessu stigi er hún ekki einu sinni að biðja um að eiga síðasta orðið. Hún er bara að biðja um að fá að koma þó ekki væri nema orði að, áður en hún verður kæfð í rugli.

Okkur Íslendingum er tamt að tala um hversu rík lýðræðishefð okkar er. Einn maður gefur sig út fyrir að dýrka lýðræðið meira en allir aðrir og það er forseti Íslands – þess vegna skýtur skökku við að það hafi ekkert heyrst í honum um þá kröfu rúmlega fimmtíu þúsund kosningabærra Íslendinga að fá að taka ákvörðun sem henni hafði verið lofað.

Ekki múkk. Hann hefur verið líklega verið of upptekinn við að segja fólki víðs vegar um heiminn hvar og hvenær það má gagnrýna rússnesk stjórnvöld.

Ég veit ekki hvort þið munið eftir því en fyrir tæpum tveimur árum var forseti Íslands meira að segja í svo mikilli lýðræðisvímu að hann var eiginlega hættur að tala um forsetakosningarnar framundan og kosningabaráttuna, en klifaði í staðinn sífellt á orðinu „lýðræðishátíð“. Kosningar væru „lýðræðishátíð“.

Það er kannski engin furða að hann sé svona ánægður með lýðræðið, hann er jú bestur í því – hann vinnur alltaf.

En mér hefur hins vegar alltaf fundist þetta fyndið orð, „lýðræðishátíð“, og finnst það enn. Ég veit ekki hvort þetta á sér hliðstæður í erlendum tungumálum, en það kæmi mér lítið á óvart ef við hefðum smíðað þetta sjálf. Þetta orð var svo sem ekki nýtt fyrir tveimur árum, en það skipti auðvitað engum togum að það hreiðraði um sig í þjóðræknisvitundinni og ég sá það síðast notað núna í vikunni.

„Lýðræðishátíð“. Mér finnst þetta fyndið orð vegna þess að það gefur til kynna að lýðræði sé eitthvað sem við notum til hátíðarbrigða. Að við trommum upp með mikið lýðræðisfestíval á fjögurra ára fresti – nú skuli ríkja lýðræði, gleði og gaman – drögum fána að húni og förum í spariföt, en að henni lokinni fari fyrir lýðræðishátíðinni eins og jólahátíðinni og öðrum hátíðum, að lýðræðisskrautinu sé öllu pakkað niður í geymslu og við taki fjögurra ára bið eftir næstu lýðræðishátíð. Og í millitíðinni sé ekkert lýðræði.

En er þetta kannski bara svona? Er það óeðlileg spurning þegar maður hefur þurft að horfa upp á stjórnmálamenn lýsa þeirri, að því er virðist, einlægu skoðun sinni, að stjórnvöld geti bókstaflega ekki fylgt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna ef þær samræmast ekki stefnu þeirra sjálfra? Að það sé bara ómögulegt?

Ég var blaðamaður í átta ár og eitt af því fyrsta sem mér var innrætt þar var að ein af frumskyldum blaðamanna væri að leyfa mönnum – einkum stjórnmálamönnum – ekki að komast upp með rugl. Maður reyndi – það gekk misvel, stundum var ruglið vel falið – en ég man hins vegar ekki eftir eins svæsnu og blygðunarlausu rugli og hefur verið borið á borð í þessu máli á undanförnum vikum.

Og það er ekki eins og það hafi verið neinn hörgull á fólki til að benda stjórnmálamönnum á það. Þeir bara skilja það ekki – eða er alveg sama. Ég veit ekki hvort er verra.

Svartsýnustu fylgismenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið spá því stundum að annars muni ungir Íslendingar einfaldlega fara héðan – sjá hag sínum betur borgið einhvers staðar í nánara samfélagi við umheiminn. Ég er víst ungur Íslendingur og ég veit í sjálfu sér ekkert um það hvort þessi spá er rétt.

Ég veit hins vegar hitt, að mér finnst ekkert spennandi tilhugsun til lengdar að búa í landi þar sem þeir sem veljast til forystu rugla stöðugt og taka ekki sönsum, vinna ekki í mína þágu heldur einhverra óskilgreindra annarra, og segja eitt en gera eitthvað allt, allt annað.

Kannski verður mín kynslóð bara farin og búin að loka á eftir sér áður en reynir á þessar svartsýnisspár. Þið ættuð að minnsta kosti ekki að láta það koma ykkur á óvart.

Þegar fyrsti mótmælafundurinn var haldinn hér mánudaginn 24. febrúar síðastliðinn var hægt að greina vonleysi í mannskapnum, einhverja máttleysistilfinningu andspænis þessum þursum sem óðu bara áfram á sinni einkennilegu vegferð og skelltu skollaeyrunum af slíku afli að það var ærandi. Það hefði verið auðvelt að gefast bara upp. Segja: Þetta fólk mun ekki hlusta á mig. Það ætlar ekki að gera það, sama hvað. Ég get alveg eins verið heima.

En fólk missti ekki móðinn. Við misstum ekki móðinn. Sem betur fer. Og nú er ljóst að við erum farin að hafa áhrif, ótrúlegt en satt. Þingsályktunartillagan er í dásvefni í einhverri nefndinni og menn eru farnir að viðurkenna að kannski, hugsanlega, hafi þetta allt verið svona dálítið misráðið og klaufalegt.

Og nú vantar bara að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem okkur var lofað. Ef svo ólíklega vill til að ráðamenn séu að hlusta, þá get ég sagt þeim að við verðum hérna þangað til.

 

Ræða flutt á samstöðufundi á Austurvelli, 29. mars 2014

1,659