Varaþingmaður Sjálfstæðisflokks: Ekki samþykkja niðurgreiðsluna. Samstarf við Framsókn réttlætir ekki rándýr atkvæðakaup
Fyrirætlun stjórnvalda um að greiða niður verðtryggð lán heimila með almannafé felur í raun í sér tilfærslu frá þeim tekjulægri til þeirra tekjuhærri og frá þeim eignaminni til þeirra eignameiri. Aðgerðin er dýr og færir fé frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
Þetta skrifar Oddgeir Ágúst Ottesen, hagfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, í grein í blaðinuu Selfoss-Suðurland í dag. Hann hvetur þingmenn flokksins í kjördæminu til að samþykkja ekki fyrirhugaða niðurgreiðslu verðtryggðra skulda.
Oddgeir skrifar ennfremur:
„Það er ekki hægt að bæta öllum Íslendingum allt tap vegna bankahrunsins sem hér varð. Skuldsettir hátekjumenn á höfuðborgarsvæðinu urðu þó hávær þrýstihópur eftir hrun og kröfðust þess að „ríkið“, þ.e.a.s. skattborgarar, myndi greiða niður lán þeirra þar sem þau höfðu hækkað meira en bæði laun og fasteignaverð. Þó bankahrunið sé vissulega fordæmalaust, þá hafa afleiðingar þess, rýrnun kaupmáttar launa og lækkað fasteignaverð, margoft átt sér stað á landsbyggðinni án þess að nokkur hafi fengið bætur fyrir frá ríkinu.
Stjórnmál í dag snúast mikið um hvernig bregðast á við kröfum þrýstihópa. Framsóknarflokkurinn tók undir kröfur þess efnis að ríkið greiddi niður lán sumra heimila fyrir síðustu kosningar og taldi fólki trú um að íslenska ríkið gæti gefið hluta af þjóðinni peninga án þess að það myndi kosta hinn hluta þjóðarinnar nokkurn skapaðan hlut.
Hið rétta er að allar bætur sem greiddar eru úr ríkissjóði eru á kostnað þeirra sem ekki fá bæturnar. Þetta var alþingismönnum ljóst þegar umræður um desemberuppbót atvinnulausra átti sér stað fyrir síðustu jól en virðist þeim ekki jafn ljóst þegar rætt er um bætur til heimila sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008-2009. Sumir alþingismenn virðast telja að bætur til hinna verst settu sé eingöngu kostnaður en bætur til hinna betur settu sé efnahagsaðgerð!
Þegar almannafé er notað til að greiða hluta af þjóðinni bætur er eðlilegt að skoða vandlega hverjir fá bæturnar, hvers vegna og á kostnað hverra. […]
Í raun má segja að ungt fólk, leigjendur og eldri borgarar séu að borga niður lán fólks sem hefur það í mörgum tilfellum mun betra en þau. Fyrirhugaðar verðbólgubætur verða hærri á hvern höfuðborgarbúa en á íbúa landsbyggðarinnar. Aðgerðin felur því í sér tilfærslu á fjármunum frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar.
Aðgerðin er dýr þar sem fyrir utan beinan kostnað við útreikning og útdeilingu verðbólgubótanna þá munu verðbólgubæturnar auka verðbólgu, veikja gengi krónunnar og auka tap Íbúðalánasjóðs, sem lenda mun á skattborgurum. Beinn og óbeinn kostnaðurinn við aðgerðirnar er því meiri en ágóði þeirra sem greiða á verðbólgubætur.
Umræður um skuldaniðurgreiðslurnar hafa einkennst af blekkingum og áróðri. Þingmenn hafa síendurtekið að notkun almannafjár til að greiða niður lán sumra heimila sé hagkvæm efnahagsaðgerð, þrátt fyrir að hið gagnstæða sé a.m.k. öllum hagfræðingum ljóst. Einnig hefur verið fullyrt að ríkið sé núna að greiða bætur til eina hópsins sem hefur legið óbættur hjá garði eftir efnahagshrunið. Augljóst er þó að miklu fleiri hópar töpuðu á hruninu, þar á meðal þeir sem nú eiga (óbeint) að greiða öðrum réttlætisbætur vegna hrunsins. Mesta tap margra felst í minni kaupmætti launa og lakari lífskjörum. Ríkisvæðing einkaskulda er óhagkvæm aðgerð sem er ekki til þess fallin að bæta lífskjör í landinu. Í raun rýrir hún lífskjör þeirra sem síst skyldi, þ.e.a.s ungs fólks og þeirra tekjulægri. Margir myndu hagnast á annarri ráðstöfun fjármagnsins.
Auðvitað væri hægt að nota fjármunina til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem væri ráðstöfun í almannaþágu. Einnig væri hægt að lækka skatta. Til dæmis væri hægt að lækka tekjuskattshlutfall einstaklinga niður fyrir 5% í heilt ár.
Flestir sjálfstæðismenn sjá að hvorki er hægt að réttlæta fyrirhugaða ríkisniðurgreiðslu á skuldum einkaaðila út frá efnahagslegum rökum né réttlætisrökum. Þá er stundum gripið til þeirra raka að þar sem flokkurinn sé í samstarfi við Framsóknarflokkinn þurfi hann að láta óskynsamlegar og óréttlátar atkvæðakaupaaðgerðir yfir sig ganga. Þetta viðhorf var einnig uppi árið 2004 þegar fjármögnun og útlánareglum íbúðalánasjóðs var breytt að undirlagi framsóknarmanna. Þær breytingar urðu þjóðinni mjög dýrkeypar og munu kosta skattborgara yfir hundrað milljarða.
Það er óskandi að þingmenn Suðurkjördæmis láti ekki teyma sig út í að samþykkja aðgerðir sem ekki er hægt að réttlæta með skynsamlegum rökum.“
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021