trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 13/09/2017

Útsala

Ballið er að byrja. Hljómsveitin hefur komið sér fyrir á sviðinu. Hún er að slá upphitunartóna fyrsta lagsins, Útboð á eigum ríkisins. Það er hátíð framundan. Það á að selja Arionbanka. Bjóða hann upp. Að vísu kalla spekúlantarnir uppboðið útboð. Það er ekki eins gildishlaðið orð, ekki eins neikvætt.

Taconic Capital og Attestor Capital eiga hvor um sig 9,99 prósenta hlut í bankanum. Þeim mun, ef að líkum lætur, gert fært að eignast enn stærri hlut, allt að 22% til viðbótar. Þessir sömu sjóðir eru stærstu hluthafar Kaupþings, sem á 58 prósenta hlut í Arion.

Fréttablaðið greinir svo frá í dag 13.09.´17: “Fyrirhugað útboð og skráning Arion ræðst meðal annars af því að stjórnvöld falli frá því að nýta sér mögulegan forkaupsrétt ef bankinn yrði seldur á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé. Að öðrum kosti er talið óframkvæmanlegt að halda slíkt útboð þar sem forkaupsrétturinn myndi skapa óvissu og aftra áhugasömum fjárfestum frá þátttöku. Fulltrúar Kaupþings hafa síðustu tvær vikur, samkvæmt heimildum, fundað með forystumönnum stjórnvalda og embættismönnum þar sem unnið er að því að ná samkomulagi um endurskoðun á ákvæðinu um forkaupsrétt ríkisins að Arion banka.”

Markaðurinn, fylgiblað Fréttablaðsins, segir að kaupréttur erlendu sjóðanna tveggja sé á “hærra sölugengi en þegar þeir keyptu hlut í Arion banka fyrr á árinu. Hins vegar er fastlega gert ráð fyrir því, að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála, að einhverjir sjóðanna muni bæta við hlut sinn í bankanum með því að taka þátt í væntanlegu útboði enda sé ekki ólíklegt að þar muni bjóðast hlutur í bankanum á hagstæðara gengi heldur en kauprétturinn hljóðaði upp á.”

Þetta er sum sé staðan. Og nú er unnið að því að fá ráðherragengið til þess að fallast á að selja eigur ríkisins á því undirverði sem spekúlantar ákveða (með launráðum).

“Það verður önnur bankakreppa. Menn gera mistök og græðgin mun leiða til þess að fólk taki slæmar ákvarðanir,” sagði forsætisráðherra í viðtali við Sky-fréttastofuna í fyrradag. Hann veit þetta. Hann er hljómsveitarstjóri á útboðstónleikunum.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,399