trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 12/10/2018

Útburðarbás fyrr og nú

Berum út hugsjónir
berum út blóm
berum út börnin
leggjum á landið
okkar
þyngsta dóm:

Í fjöru Finnbogastaða
er örnefni eitt

Myrkasta arfleifð Trékyllisvíkur:

Útburðarbás

Mundi á Finnbogastöðum sýndi mér hann:
Útburðarbás

Mundi? Sjötti bóndi í beinan
karllegginn
undir þessu fjalli
kastalanum
Finnbogastaðafjalli
Sjötti og þá hverfur skráð saga
út í mistrið – ugglaust er Mundi sjöundi, áttundi, níundi,
tíundi…

Fyrsti

Mundi hefur alltaf verið í Trékyllisvík
Rétt að refurinn hafi verið þarna á undan
og marflóin auðvitað
köngulóin, krían, æðurin, fálkinn,
krækiberin,
lífið

En Mundi er búinn að vera þarna lengi líka

Hann þarf ekki gps
Hann þekkir þúfurnar
Börðin, hæðarnar, lautirnar,
víkurnar, skerin, boðana

Og nú sýnir hann mér Útburðarbás

Sagan löngu gleymd
en öllum geymd:

Hér áðum og fyrrum,
— þau sættu lagi þegar fjaraði út:

fjöreggið
fest milli steina í Útburðarbás

ugglaust með fleskbita í munni
til að þagga niður sífrið
meðan flæddi að

Meðan flæddi að
unginn litli saug fituna
grunlaus
og dreymdi um mömmu
grunlaus
og dreymdi um mömmu

Og nú flæðir að barni
Og nú skal flæða yfir fjöll
Kæfa fossa
friðþægja oss

Í fjarskanum gleðjast erlend tröll

Og margur er fleskbitinn
Meðan flæðir að
Og Árneshreppi er drekkt
í brimöldum norðursins
og kanadísku kampavíni
kampakátra
sléttgreiddra
boðbera lausnarinnar

Aflausnarinnar:

Gráturinn heyrist ekki
Fleskbitinn kæfir sífrið
samviskuna svæfir silfrið

Meðan flæðir að
Meðan flæðir að barninu í Útburðarbás

En það flæðir víðar
spyrjandi augu
lítils barns
landsins alls

Og nóttin leggur þögla blessun
yfir óhæfuverkin

Nú þarf bara að þagga niður í fáeinum fossum
og fagna með sigurkossum:
Nú leggjum við göngustíg!

Norður þar

En munið:
Þótt unginn sé gleymdur
og gráturinn sofinn

Munu nöfn ykkar geymast

Norður þar

Hlakka svo saman
á næsta bæ
einum munni færra að metta!

Okkur grunaði löngum
að fórnarkostnaður yrði hér um bil þetta
að drekkja álfum og vættum Strandakletta

Barn er barn
og grjót er grjót

Ekkert jafnast á við
þriggja fasa réttlætingu
fleskbitann góða
meðan landinu blæðir
og kvöldaldan flæðir

yndið mitt litla
í Útburðarbás.

Hrafn Jökulsson

Flokkun : Ljóðið
1,423