trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 01/12/2016

Út með köttinn! Eða hvað?

Nú er Brún-eggjafárið í rénun og vonandi lærum við öll af þessu sem samfélag – samfélag sem ekki líður dýraníð. Ég er reyndar ekki viss um að við séum svoleiðis samfélag en ég vona að við getum orðið það.

Eins og alltaf þegar maður fær miklar og óvæntar upplýsingar í einu (þótt það sé svo sem ekkert óvænt við að einhvers staðar hafi verið farið illa með hænur eða logið upp í opið geðið á neytendum eða eftirlitsstofnanir kraftlausar) þá tekur tíma að vinna úr þeim. Nú, nokkrum dögum seinna, situr tvennt kollinum á mér sem ekki hefur fengið mikla umfjöllun – eðlilega, því við hugsum mest um hænurnar.

Hið fyrra er rottueitrið og músagangurinn sem sagt var frá í umfjöllun Kastljóss um eggjabú Brúneggja. Ef ég man þetta rétt var rottueitrinu úðað yfir eggin en svo skolað af áður en þau voru sett í neytendaumbúðir. Ég svitna við að skrifa þetta!

Hitt var í umfjöllun um önnur eggjabú. Þar segir frá kettinum Eggja-Kisa á eggjabúinu Græneggi í Sveinbjarnargerði í Eyjafirði. Matvælastofnun gerir athugasemdir í desember 2012 við það að Eggja-Kisi eigi sér ból í eggjapökkunarstöðinni og segir það ekki heimilt. Í athugasemdum árið 2015 er enn amast við kisa. Forsvarsmenn bússins svara fullum hálsi:

 „Svo er undirrituðum bent á það að kötturinn á búinu verði að fara. Kötturinn sem hefur ávalt verið á búinu og ekki gerðar athugasemdir fyrr en nú. Þess ber að geta að undirritaðir telja köttinn eina bestu meindýravörn sem við höfum, fyrir bæði fugla og mýs. Til að koma til móts við breytt regluverk verður með úrbótum skilið betur á milli hreins og óhreins svæðis og á endanum hefur kötturinn þá ekki lengur aðgang inn á hreina svæðið. Óskum við því hér með eftir því að fá aðlögun frá þessu á meðan að umræddur köttur lifir, sem nú er orðinn gamall.”

Það er nefnilega það.

Mér skilst að mýs og jafnvel rottur sæki í hænur, út af fóðrinu en kannski sækja rotturnar líka í eggin. Um það þori ég ekkert að fullyrða. Ég á hins vegar erfitt með að skilja að fólk vilji frekar hafa rottueitur í nábýli við matvælaframleiðslu en kött.

Hundar og kettir hafa fylgt manninum lengi. Ég veit svo sem ekki mikið um ketti en ég þekki hunda og veit að þróun mannkyns hefði verið óhugsandi án þeirra hjálpar og eiginleika. Bæði hundar og kettir meðal annars hafa haft það hlutverk í þjónustu sinni við mannfólkið að halda meindýrum í burtu. Þannig hefur það verið um aldir og það er eðlilegt ástand. Sagan kennir okkur að einmitt þessi dýr eru ómissandi í hlutverki meindýraeyðisins.

Í menningarbyltingunni í Kína bannaði Maó formaður gæludýrahald því það þótti bera vitni um borgaralegt líferni. Hundum og köttum var því sem næst útrýmt. Í kjölfarið fylgdi vitanlega hinn mesti rottufaraldur sem sögur fara af enda ófáir hundar og kettir haldnir til að drepa mýs og rottur.

Ég hef ekki kynnt mér reglugerðir um lífrænan búskap vel en tel víst að þar megi ekki úða rotueitri yfir eggin. Það væri gaman að vita hvort kettir eða hundar megi starfa á lífrænum eggjabúum við meindýravarnir og ef ekki hvers vegna og hvernig eru þá eggin og fóðrið varið gegn meindýrum?

 

prototype_7_9_14

 

Flokkun : Efst á baugi
1,395