trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 27/10/2017

Baráttan um Ísland

Það styttist í kosningar. Í þessari snörpu kosningabaráttu hefur verið tekist á um ýmislegt. Fólk, fréttaflutning, gífuryrði, fjölmiðla og staðreyndir en furðulítið talað um málefnin. Samkvæmt kosningaloforðunum virðast flestir flokkar sammála þeim ríflega 86.000 landsmönnum sem skrifuðu undir áskorun Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þrír þeirra voru reyndar nýbúnir að leggja fram fjárlagafrumvarp sem var alveg ósnortið af þeirri hugsjón en þeir gerðu heldur ekki ráð fyrir kosningum innan fárra vikna.

En þannig er þetta svo oft hér: Við tölum minnst um það sem skiptir mestu máli. Við töpum okkur í tæknilegum útfærslum á smáatriðum. Deilum um hvar nýr Landspítali eigi að rísa í stað þess að drífa í að byggja hann. Umræður um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar snúast ekki um grundvallaratriðin, eins og að þjóðin eigi fiskinn í sjónum og eiga að fá sanngjarnt og eðlilegt gjald fyrir nýtinguna. Umræðan er skreytt flóknum hugtökum og tæknilegum atriðum eins „krókaflamark,“ „sóknardagakerfi“ og „aflamarkskerfi.“ Allt eru þetta góð og gild hugtök og hafa tilætluð áhrif: Venjulegt fólk fer að trúa því að sjávarútvegsmál séu flókin og komi því ekki við. Betra sé að eftirláta sjálfskipuðum sérfræðingum umræðuna og þar með fiskinn í sjónum.

Þessu bragði hafa stjórnmálamenn ítrekað beitt er kemur að nýju stjórnarskránni. Umræðan hefur ýmist verið um tæknileg atriði eða af hverju venjulegu fólki sé ekki treystandi til að skrifa stjórnarskrá. Samt eru nú stjórnarskrár einmitt grunnlög þjóðarinnar og eiga að lýsa gildum hennar og tryggja réttindi okkar og skyldur. Svo kom það nýjasta: „Það er ekki til nein ný stjórnarskrá,“ svaraði Bjarni Benediktsson á Facebook spurður út í stöðuna á málinu. Ryki er endalaust þyrlað upp svo ekki þurfi að ræða aðalatriðið. Það er nefnilega ástæða fyrir því að sérhagsmunaöflin eru á móti frumvarpi stjórnlagaráðs. Nýja stjórnarskráin kæmi sér ekki sérlega vel fyrir þá sem vilja geta deilt og drottnað og haldið áfram að einkavinavæða arðinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Þar er auðlindaákvæði sem tryggir, verði það samþykkt, að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot af auðlindunum og að þær megi hvorki selja né leigja með óafturkræfum hætti. Þetta þýðir að fisk­veiði­kvót­inn yrði að fara á markað og útgerðin fengi sjálf að ráða hvað hún vildi borga fyrir veiði­heim­ild­irn­ar. Og stjórn­mála­menn þyrftu að hætta að gefa ork­una. Við getum líka velt fyrir okkur hvort ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækjunum væri heim­ilt að selja ferðir til okkar helstu nátt­úruperla án þess að greiða okkur eðli­legt gjald fyrir það.

En þetta er aldrei nefnt. Hvers konar stjórnmálamaður gæti líka verið á móti slíku ákvæði? Sá sem viðurkennir að vera á móti nýrri stjórnarskrá vegna þess að hann vill ekki tryggja að auðlindir í náttúru Íslands verði sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar á sér væntanlega ekki bjarta framtíð í stjórnmálum. Hann myndi afhjúpa sig fyrir fullt og allt.

En svona er baráttan um Ísland. Hún snýst um auðlindirnar okkar, gildi og hvernig samfélag við viljum byggja. Sumir reyna þó iðulega að tala um allt annað. Missum ekki sjónar á aðalatriðunum og látum ekki stjórnmálamenn telja okkur trú um að þeir viti betur en við sjálf hvernig við byggjum réttlátt samfélag. Hættum að láta ræna okkur.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. október 2017. 

Flokkun : Efst á baugi
1,340