trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 19/07/2016

Upplausn

Dómsmál eru viðkvæm. Svo og trúarbrögð. Prestar eru embættismenn og fá laun úr ríkissjóði. Lögreglustjórar gera það líka. Þeir eru þjónar okkar, almennings. Presturinn er í besta falli kjörinn til starfa af fámennum, útvöldum hópi fólks. Lögreglustjórinn er ekki kjörinn til starfa; hann er skipaður af dómsmálaráðherra (innanríkisráðherra). Oft er um pólitískar ráðningar að ræða. Í báðum bilvikum.

Norðurljós Apavatni

Lengi tíðkaðist hér að prestar og lögreglustjórar (áður bæjarfógetar og sýslumenn) tækju þátt í starfi stjórnmálaflokka. Og sætu á alþingi. Þetta olli tortryggni; trúaðir efuðust um himnaríkisvist sína ef þeir höfðu ekki sömu stjórnmálaskoðun og presturinn. Og margir tortryggðu dóma fógetans og málatilbúnað. Oft þótti munur á meðferð eftir því hversu pólitískt nánir dómarinn og brotamaðurinn voru. Þetta tíðkast ekki lengur. Síðasti flokkspólitíski presturinn hvarf af alþingi um aldamótin og sýslumaðurinn um svipað leyti.

Nú gæti þetta verið að hrökkva í gamla farið. Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum gekkst fyrir skoðanakönnun fyrir bæjarstjórann í Eyjum um það hvort fólk vildi hann á þing fremur en konur. Fyrir flokk þeirra beggja, Sjálfstæðisflokkinn. Daginn eftir að niðurstaðan var birt, þar sem bæjarstjórinn hafði glæstan sigur, tilkynnti lögreglustjórinn að ekki yrði greint opinberlega frá tilkynntum kynferðisbrotum á þjóðhátíð í ár, með hagsmuni þolenda að leiðarljósi. Atarna mælist illa fyrir. Hver stekkur þá ekki fram á undan öðrum og segist standa með ákvörðun lögreglustjórans annar en bæjarstjórinn, sigurvegari prófkjörs lögreglustjórans. Þetta er dæmi um öfugþróun. Annað dæmi um hið sama er sýndargóðmennska kirkjunnar við flóttamenn. Eftir tilögum almennatengla um það hvernig efla mætti stöðu kirkjunnar í samfélaginu ákvað biskup að veita hælisleitendum löngu úrelt kirkjugrið fyrir framan myndavélar fjölmiðlanna.

Það er upplausn í hinum vestræna heimi. Mannkynsbraskarar ljúga sig blygðunarlaust til valda víða um lönd. Fjöldamorð og hryðjuverk eru daglegt brauð. Og nýja frúin í breska forsætisráðuneytinu lætur það verða sitt fyrsta verk að fá samþykkta tillögu um 6.600 miljarða króna fjárveitingu til þess að efla kjarnorkuvopnabúr Breta (þetta svarar til byggingar 100 Landsspítala ef rétt er leikið með núllin).

Þótt dæmin um upplausnina hérlendis séu léttvæg í samanburði við þau býsn sem eru að gerast erlendis er rétt að hafa í huga að spillingin  er sporlétt og lausungin léttfætt. Það þarf því hvort tveggja að hafa snarar hendur og fljóta fætur ef koma á í veg fyrir glundroða og hrun í því mannúðlega samfélagi sem þrátt fyrir allt er enn við líði hér á landi.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,761